Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis veldur vonbrigðum fyrir búseta í húsnæðissamvinnufélögunum

Stjórnendur húsnæðissamvinnufélaganna hafa átt margvísleg samskipti við ráðherra og Alþingismenn varðandi réttláta kröfu um að leiðrétting verðtryggðra fasteignalána næði til búseturéttaríbúða með sambærilegum hætti og um séreignaríbúðir væri að ræða. 

Forsætisráðherra sem einnig er 1. þingmaður NA-kjördæmis fékk ítarlega kynningu á stöðunni og sama með félags- og húsnæðismálaráðherra.

 Fjöldi Alþingismanna hefur einnig kynnt sér málið og lýst þeirri skoðun að það sé sjálfsögð krafa og eðlileg. 

Fulltrúar húsnæðissamvinnufélaganna hittu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á fundi 30.apríl sl. og þar var farið ítarlega yfir málið. 

Það eru því gríðarleg vonbrigð að sjá í áliti meiri-hluta nefndarinnar sem skilað var Sl. föstudag 9.maí - er í engu komið til móts við þessar sanngirniskröfur félaganna. Búseti á Norðurlandi mun því ásamt systurfélögum leita allra leiða til að láta reyna á "jafnræðisreglu" og mögulegt ólögmæti þess að útiloka almenna búseturéttareigendur - sem allir eiga rétt til vaxtabóta - frá þessarri leiðréttingu. 

Úr áliti nefndarinnar; "Aðrir hópar. Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að úrræði frumvarpsins ættu að ná til fleiri hópa en heimila með verðtryggð húsnæðislán. Hér ber að líta til þess að frumvarpið byggist á ályktun Alþingis nr. 1/142 frá 28. júní 2013 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem leiddi af ófyrirsjáanlegri höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána. Í 1. tölul. 1. mgr. þingsályktunarinnar var forsætisráðherra og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna falið að setja á fót sérfræðingahóp sem skyldi útfæra og gera tillögur að mismunandi leiðum til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Það er því ljóst að frumvarpið felur í sér úrræði sem ætluð eru þeim hópi sem var með verðtryggt fasteignalán vegna húsnæðis til eigin nota á tilteknu tímabili og varð fyrir skakkaföllum af þeim sökum. Þó að aðrir hópar telji að þeir eigi einnig tilkall til leiðréttingar verður að líta til þess að aðstæður þeirra voru aðrar. Ógerlegt er að leysa úr málum allra þessara ólíku hópa með sama úrræðinu. Meiri hlutinn vekur athygli á að félags- og húsnæðismálaráðherra var með ályktun Alþingis nr. 1/142 falið að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu nýverið og leggur til að unnið verði að uppbyggingu á virkum leigumarkaði, m.a. með því að tryggja húsnæðisöryggi, sanngjarna leigu og fjölbreytt framboð húsnæðis fyrir ólíka hópa með mismunandi þarfir. Að þessu sögðu hvetur meiri hlutinn stjórnvöld til að koma til móts við aðra hópa með öðrum úrræðum sem miðast við þeirra aðstæður." 

Tengill á niðurstöðu nefndarinnar;http://www.althingi.is/altext/143/s/1069.html

Framkvæmdastjóri 12.maí 2014