Búseti á Akureyri var stofnaður 27. mars 1984. Starf félagsins var afar takmarkað fram til ársins 1989. Fyrsta íbúð félagsins var tekin í notkun árið 1990. Félagið sameinaðist Búseta á Húsavík frá áramótum 2005 og starfar nú undir nafninu Búfesti hsf.
Félagið á 26 íbúðir á Húsavík og íbúðirnar á Akureyri eru 239 og þannig alls 265. Mest var byggt árin 2007 og 2008. Þá voru teknar í notkun 58 íbúðir í stærsta einstaka fjölbýlishúsi á Akureyri og 12 íbúðir í minna fjölbýli.
Fjöldi virkra félagsmanna hefur verið nokkuð stöðugur frá árinu 2010, milli 800 og 900. Stefnt er að því að koma sem mest til móts við óskir félagsmanna um framboð og búnað íbúða félagsins. Það er áfram stefna félagsins að endurnýja eldri íbúðir smátt og smátt á næstu árum til samræmis við nýrri íbúðir félagsins.
Skrifstofa Búfesti hsf er á þriðju hæð í Skipagötu 14 á Akureyri. Starfsmenn félagsins aðstoða og upplýsa almenning um starfsemi félagsins, kosti búsetufyrirkomulagsins, taka við inntökubeiðnum og annast alla umsýslu vegna félagsmanna og rekstrar íbúða félagsins.