Fréttir

Nýjar íbúðir til leigu

Þegar Kjarnagata 16 kom til afhendingar hurfu einstakir kaupendur búseturéttar frá kaupum.   Þess stundina eru 2 glæsilegar fimm herbergja íbúðir því lausar.   Til greina kemur að þær verði leigðar félagsmönnum sem sækja um leigu.  Mánaðargjaldið miðast við reglur félagsins og bætast 10% ofan á það gjald - auk trygginga (3 mán fyrirfram).

Gerður verður leigusamningur og með því að honum er þinglýst geta leigjendur sótt um húsaleigubætur samkvæmt gildandi reglum.

Íbúðirnar eru sérlega glæsilega, með glerlokun á einkasvölum/verönd - búnar öllum heimilistækjum og auk þess fylgir þeim bílastæði í kjallara. (nánar)

Áhugasamir félagsmenn geta lagt inn umsókn (nota umsókn um búseturétt á heimasíðu) - eða komið við á skrifstofunni milli kl 10 og 12.

Fundað með stjórnum búsetufélaganna

Í vikunni var stofnað félag fyrir Kjarnagötu 16 og í framhaldinu var fundað með fulltrúum frá öllum búsetukjörnum á Akureyri.

Rætt var um frágang og þjónustu á Kjarnagötusvæðinu - sérstaklega það sem snýr að geymslum og útisvæðum.

Starfsmenn félagsins hafa verið að afla sjónarmiða búsetanna varðandi það hvernig til tókst með hirðingu lóða og svæða síðasta sumar.  Við undirbúning vetrarþjónustunnar hefur verið kappkostað að ná sem mestri  hagkvæmni en tryggja að þjónustan verði samt sem áður þannig að hún tryggi öryggi íbúanna.

Það er mikilvægt markmið félagsins að bæta viðhaldsþjónustuna þannig að eignir haldi verðmæti sínu og gæðum - og búsetarnir njóti öryggis og þjónustu sem stendur undir eðlilegum kröfum.

Nú verður allt kapp lagt á að ná upp þeim verkum sem hafa dregist og bæta upplýsingaflæði og viðbragðsþjónustu félagsins á næstu vikum og mánuðum.

Vegna innheimtu árgjalds 2008

Þau mistök áttu sér stað við innheimtu árgjalda að ekki var sendur út greiðsluseðill til einstakra félagsmanna.   Árgjald kr.4000 (maka kr.1000) gjaldféll í ágúst.   Um leið og við biðjumst velvirðingar á þessum mistökum biðjum við þá sem fengið hafa ítrekun frá bankanum - og tilkynningu um vanskilakostnað - að greiða kr. 4000 inn á reikning 565-26-32008, á kt. 560484-0119.   Biðjið bankann jafnframt að senda staðfestingu á greiðslunni og kt. greiðanda á netfangið buseti@busetiak.is.

Framkvæmdastjóri

Til félagsmanna Búseta á Norðurlandi

Á síðustu nokkrum dögum hafa miklar sviptingar átt sér stað á fjármála- og bankamarkaði.  Félagsmenn hafa látið í ljós áhyggjur vegna stöðu framkvæmda og fjárhagslegs öryggis rekstrarins.   Íbúðalánasjóður hefur veitt lánsvilyrði fyrir öllum framkvæmdum félagsins við Kjarnagötu 12-14 og Kjarnagötu 16 og einnig við Brekatún 1-19.   Væntum við þess að á næstunni muni verulegur hluti þeirra lána koma til útborgunar.

 

 Neyðarlög Alþingis hafa einnig fært Íbúðalánasjóði auknar heimildir til að bregðast við um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.    Í þessum lögum er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti með margvíslegum hætti brugðist við til að tryggja örugga búsetu allra skilvísra greiðenda.    Búseti á Norðurlandi mun kappkosta að starfa í sem bestu samræmi við gildandi lög og skilmála Íbúðalánasjóðs.

 

Með vísan til þess sem hér að ofan segir teljum við unnt að fullvissa félagsmenn um að félagið mun að óbreyttu  halda úti allri starfsemi sinni.    Varðandi frekari lagfæringar íbúða og  aðrar framkvæmdir er ástæða til að leita ítrustu leiða til að halda kostnaði í lágmarki á meðan hremmingar peningakerfisins ganga yfir.

 

 

Guðlaug Kristinsdóttir formaður

 

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri

 

Kjarnagata 16 til afhendingar

Nú er sem óðast verið að ganga frá Kjarnagötu 16 og mun afhending fyrstu íbúðanna fara fram i næstu viku.

Um er að ræða 12 íbúðir - 4ra og 5 herbergja - í þriggja hæða fjölbýli með lyftu.

Íbúðirnar eru allar með svalokun og glerlokun á inngöngupöllum.   8 af þessum 12 eru með bílastæði í kjallara sem er sameiginlegur með Kjarnagötu 12 og 14.

Ein 4ra herbergja íbúð (106 fm) er enn laus - og ein 5 herbergja íbúð (126 fm).

Um er að ræða mjög vandaðar íbúðir - með frábærri hljóðvist og glæsilegum innréttingum (frá TAK).   Öll heimilistæki í eldhúsi (AEG) og þvottavél og þurrkari eru hluti af búnaði íbúðanna.

Sláttur og hirðing lóða og lagfæringar úti við

Nú er að komast fyrsta reynsla á umsjón félagsins með slætti og almennri hirðingu á lóðum og útisvæðum.   Miðað hefur verið við 5-6 slætti á sumrinu - og ráðgjöf fagmanna um klippingar runna og trjágróðurs.

Unnið hefur verið við girðingar og gerði eftir því sem aðstæður hafa leyft og merkingar á bílastæðum eru að þokast.   Við eigum hiklaust eftir að læra betur á þennan þátt starfseminnar og fella hann í skipulagðari farvegi.

Við stefnum að því að fara yfir reynslu sumarsins á næstu vikum með það fyrir augum að bæta þjónustuna og koma henni samt fyrir með forsvaranlegri hagkvæmni.   Munum biðja stjórnir búsetufélaganna að funda með okkur til að draga saman reynsluna.  Rökrétt fyrir búsetana að koma á framfæri sínum ábendingum hvað þetta verðar með tölvupósti til félagsins (busetiak@busetiak.is) - eða beint til fulltrúa í viðkomandi búsetufélögum.

Eftir sem áður skiptir máli að allir búsetar og heimilismenn þeirra kappkosti að fylgja eftir góðri umgengni og leggja hönd að hirðingu og snyrtingu svæða eftir því sem þeir telja sig geta og hafa vilja til.

Framkvæmdastjóri

Skrifstofutíminn - árétting

Áréttað er að skrifstofan er opin kl 10-12 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga og kl 10-13 á þriðjudögum og fimmtudögum.

Þess utan er ekki öruggt að svarað verði í símann.   

Senda má póst á netfangið busetiak@busetiak.is - og ná í framkvæmdastjóra í síma 869-6680 og umsjónarmann eigna og svæða í síma 898-3389.   Viðhaldsbeiðni er rétt að skrá á busetiak@stjorinn.is - og hringja til umsjónarmanns ef um er að ræða bráðatilvik.

Framkvæmdastjóri

 

Nýr starfsmaður

Urður Snædal er komin til starfa á skrifstofu Búseta á Norðurlandi.      Hún sinnir 50% starfi við afgreiðslu og almenn skrifstofustörf.

Urður er stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum 2001 og hefur unnið m.a. hjá STEF og Amtsbókasafninu á Akureyri.

Urður er boðin velkomin til starfa fyrir félagið

Íbúðalánasjóður fjármagnar lokaáfanga Kjarnagötu og Brekatúns

Síðustu mánuðir hafa verið áfallasamir í efnahagslífi og peningmálum Íslands.   Vextir hafa ekki sést svo háir um langa tíð og skortur á lánsfé setur mark sitt á framkvæmdaáform.  Fasteigna- og byggingamarkaðurinn hefur tekið mikla dýfu.

Búseti á Norðurlandi fer ekki varhluta af þessu.   Áformum um nýja áfanga hefur m.a. verið slegið á frest meðan þetta ástand varir.   Áhöld hafa verið um hvort félaginu tækist að ljúka þeim framkvæmdum sem eru í gangi á reitnum við Kjarnagötu og Brekatún.

Það er þess vegna fagnaðarefni að Íbúðalánasjóður skuli nú fá aukið svigrúm til að tryggja íbúðabyggjendum og kaupendum fjármögnun.   Viðskiptabankarnir eiga um leið kost á fyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs í þeirri þröng sem að fjármálakerfinu steðjar.

Búseti á Norðurlandi hefur fengið lánsvilyrði Íbúðalánasjóðs fyrir þeim íbúðum sem eru á frágangsstigi við Kjarnagötu 16 og einnig þeim sem tekið hefur verið fyrir við Brekatún 1-19.   Ekkert ætti  því endilega að vera til fyrirstöðu að viðskiptabankinn brúi fjármögnun þessarra verkefna.  Félagið gerir þannig ráð fyrir að unnt verði að staðfesta samkomulag við verktaka og kynna áform um afhendingu og verklok á næstu dögum.  

Búseti hlýtur að reiða sig á samstillt átak allra lykilaðila í efnahagslífi og stjórnmálum þannig að komast megi hjá öllu harkalegri dýfu en þegar hefur komið fram.

Roðamaur - eiturúðun!

Roðamaurinn er þrálátur á svæðum félagsins þetta árið.  Næstu daga mun umsjónarmaður fylgja því eftir að eitrað verði fyrir þessum ófögnuði - einu sinni enn og nú með sterkara eitri.  Biðjum búseta að vera vakandi fyrir því og fylgjast með merkingum og beina börnum frá svæðum á meðan.

Umsjónarmaður