Fréttir

Til félagsmanna Búseta á Norðurlandi

Á síðustu nokkrum dögum hafa miklar sviptingar átt sér stað á fjármála- og bankamarkaði.  Félagsmenn hafa látið í ljós áhyggjur vegna stöðu framkvæmda og fjárhagslegs öryggis rekstrarins.   Íbúðalánasjóður hefur veitt lánsvilyrði fyrir öllum framkvæmdum félagsins við Kjarnagötu 12-14 og Kjarnagötu 16 og einnig við Brekatún 1-19.   Væntum við þess að á næstunni muni verulegur hluti þeirra lána koma til útborgunar.

 

 Neyðarlög Alþingis hafa einnig fært Íbúðalánasjóði auknar heimildir til að bregðast við um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.    Í þessum lögum er gert ráð fyrir að Íbúðalánasjóður geti með margvíslegum hætti brugðist við til að tryggja örugga búsetu allra skilvísra greiðenda.    Búseti á Norðurlandi mun kappkosta að starfa í sem bestu samræmi við gildandi lög og skilmála Íbúðalánasjóðs.

 

Með vísan til þess sem hér að ofan segir teljum við unnt að fullvissa félagsmenn um að félagið mun að óbreyttu  halda úti allri starfsemi sinni.    Varðandi frekari lagfæringar íbúða og  aðrar framkvæmdir er ástæða til að leita ítrustu leiða til að halda kostnaði í lágmarki á meðan hremmingar peningakerfisins ganga yfir.

 

 

Guðlaug Kristinsdóttir formaður

 

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri