Fréttir

Góð mæting á aðalfundi Búseta á Norðurlandi

Góð mæting var á aðalfund Búseta á Norðurlandi sem haldinn var í gærkvöld (21.apríl).

 

 

Þróun rekstrar og efnahags félagsins endurspeglar þær  breytingar sem orðið hafa í rekstrarumhverfi félagsins síðustu mánuði.    

 

Þegar aðalfundur Búseta á Norðurlandi  var haldinn á árinu 2007 voru horfur og spár í efnahagsmálum afar ólíkar því  sem þær eru um þessar mundir.   Upp úr miðju síðasta ári var spáð áframhaldandi háu húsnæðisverði og góðum aðgangi að fjármagni – á alþjóðavettvangi.    Auk þess hafði ný ríkisstjórn gefið fyrirheit um aukinn sveigjanleika á húsnæðismarkaðnum – m.a. með sérstakri nefndaskipan félagsmálaráðherra.   Fjármagnskostnaður og verð nýbygginga hafði að vísu hækkað verulega.   Þá gerðum við hjá Búseta á Norðurlandi metnaðarfullar áætlanir um frekari sókn og þróun bygginga og þjónustu félagsins.

 

Nú er öldin nokkuð önnur;  svartsýnustu spár gera ráð fyrir 15-30% raunlækkun húsnæðis á næstu tveimur árum.   Stýrivextir hækka enn og þar með framkvæmdafjármögnun.   Bankakerfið hefur fryst ný lán – amk. í bili og enn er beðið eftir niðurstöðum nefndar félagsmálaráðherra og þróun hámarkslána og lánaflokka hjá Íbúðalánasjóði lætur á sér standa.   Ef peningakrísan í bönkunum verður viðvarandi kann Búseti að þurfa að fresta öllum nýjum framkvæmdum og það geta auk þess komið einhverjar tafir á frágang yfirstandandi bygginga.    

 

 

Félagið hefur aukið þjónustu sína með ráðningu umsjónarmanns og hafði þegar sett í gang umtalsverð verkefni við viðhald eldri eigna.   Áhugi virðist vera fyrir hendi á félagsforminu og eftirspurn eftir íbúðum félagsins hefur verið mikil allt síðasta ár.   Einnig hafa sveitarstjórnir í nágrannabyggðum sýnt áhuga á að fá félagið til samstarfs um byggingar og/eða rekstur íbúða á nýjum stöðum.

 

 

Sú óvissa sem er á fjármálamörkuðum gerir félaginu erfitt fyrir að stíga markviss skref á næstu vikum og mánuðum - - og í því umhverfi er aðalfundur haldinn að þessu sinni.

 

 

Á aðalfundinum voru stjórnarmenn Ingi Rúnar Eðvarðsson og Hrafn Hauksson endurkjörnir, en fyrir voru í stjórn Guðlaug Kristinsdóttir formaður, Ingvar Björnsson varaformaður og Helgi Már Barðason.   Varstjórn var öll endurkjörin, en hana skipa,  Hermann Árnason, Áslaug Stefánsdóttir, Þorsteinn E Arnórsson, Sigríður María Bragadóttir og Guðbjörn Þorsteinsson.

 

 

Á síðasta ári voru gerðar ýmsar breytingar á samþykktum félagsins og regluverki.  M.a. var heimilað takmarkað dýrahald og einnig voru gerðar breytingar á gjaldtöku í viðhaldssjóð og gjaldskrá félagsins var breytt að því er varðar skil á íbúðum við endursölu búseturéttar.    Þá var einnig gerð breyting á skiptingu fjármagnskostnaðar félagsins.    Farið var yfir þessa þætti á fundinum.  

 

 

Engar breytingar á samþykktum eða regluverki félagsins voru á dagskrá að þessu sinni.   Einnig var samþykkt að félagsgjöld og stjórnarlaun skyldi vera óbreytt frá fyrra ári.

 

Framkvæmdastjóri