Íbúðalánasjóður fjármagnar lokaáfanga Kjarnagötu og Brekatúns
Síðustu mánuðir hafa verið áfallasamir í efnahagslífi og peningmálum Íslands. Vextir hafa ekki sést svo háir um langa tíð og skortur á lánsfé setur mark sitt á framkvæmdaáform. Fasteigna- og byggingamarkaðurinn hefur tekið mikla dýfu.
Búseti á Norðurlandi fer ekki varhluta af þessu. Áformum um nýja áfanga hefur m.a. verið slegið á frest meðan þetta ástand varir. Áhöld hafa verið um hvort félaginu tækist að ljúka þeim framkvæmdum sem eru í gangi á reitnum við Kjarnagötu og Brekatún.
Það er þess vegna fagnaðarefni að Íbúðalánasjóður skuli nú fá aukið svigrúm til að tryggja íbúðabyggjendum og kaupendum fjármögnun. Viðskiptabankarnir eiga um leið kost á fyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs í þeirri þröng sem að fjármálakerfinu steðjar.
Búseti á Norðurlandi hefur fengið lánsvilyrði Íbúðalánasjóðs fyrir þeim íbúðum sem eru á frágangsstigi við Kjarnagötu 16 og einnig þeim sem tekið hefur verið fyrir við Brekatún 1-19. Ekkert ætti því endilega að vera til fyrirstöðu að viðskiptabankinn brúi fjármögnun þessarra verkefna. Félagið gerir þannig ráð fyrir að unnt verði að staðfesta samkomulag við verktaka og kynna áform um afhendingu og verklok á næstu dögum.
Búseti hlýtur að reiða sig á samstillt átak allra lykilaðila í efnahagslífi og stjórnmálum þannig að komast megi hjá öllu harkalegri dýfu en þegar hefur komið fram.