Fréttir

Íbúðalánasjóður fjármagnar lokaáfanga Kjarnagötu og Brekatúns

Síðustu mánuðir hafa verið áfallasamir í efnahagslífi og peningmálum Íslands.   Vextir hafa ekki sést svo háir um langa tíð og skortur á lánsfé setur mark sitt á framkvæmdaáform.  Fasteigna- og byggingamarkaðurinn hefur tekið mikla dýfu.

Búseti á Norðurlandi fer ekki varhluta af þessu.   Áformum um nýja áfanga hefur m.a. verið slegið á frest meðan þetta ástand varir.   Áhöld hafa verið um hvort félaginu tækist að ljúka þeim framkvæmdum sem eru í gangi á reitnum við Kjarnagötu og Brekatún.

Það er þess vegna fagnaðarefni að Íbúðalánasjóður skuli nú fá aukið svigrúm til að tryggja íbúðabyggjendum og kaupendum fjármögnun.   Viðskiptabankarnir eiga um leið kost á fyrirgreiðslu Íbúðalánasjóðs í þeirri þröng sem að fjármálakerfinu steðjar.

Búseti á Norðurlandi hefur fengið lánsvilyrði Íbúðalánasjóðs fyrir þeim íbúðum sem eru á frágangsstigi við Kjarnagötu 16 og einnig þeim sem tekið hefur verið fyrir við Brekatún 1-19.   Ekkert ætti  því endilega að vera til fyrirstöðu að viðskiptabankinn brúi fjármögnun þessarra verkefna.  Félagið gerir þannig ráð fyrir að unnt verði að staðfesta samkomulag við verktaka og kynna áform um afhendingu og verklok á næstu dögum.  

Búseti hlýtur að reiða sig á samstillt átak allra lykilaðila í efnahagslífi og stjórnmálum þannig að komast megi hjá öllu harkalegri dýfu en þegar hefur komið fram.

Roðamaur - eiturúðun!

Roðamaurinn er þrálátur á svæðum félagsins þetta árið.  Næstu daga mun umsjónarmaður fylgja því eftir að eitrað verði fyrir þessum ófögnuði - einu sinni enn og nú með sterkara eitri.  Biðjum búseta að vera vakandi fyrir því og fylgjast með merkingum og beina börnum frá svæðum á meðan.

Umsjónarmaður

Stjórinn húsumsjónarkerfi

Félagið kynnir notkun á umsjónarkerfi fyrir viðhald íbúða og hirðingu svæða og þjónustu við búsetana.     Framvegis biðjum við um að allir sem nota tölvupóst komi óskum um viðgerðir og tilkynningum um bilanir eða brýna þjónustuþörf til félagsins á netfangið busetiak@stjorinn.is     Þeim sem ekki nota tölvupóst er bent á að hringja má til félagsins á skrifstofutíma (452-2888) – og í síma framkvæmdastjóra (869-6680) eða síma umsjónarmanns (898-3389).   

 

Síðan á að verða auðvelt að fylgja eftir þeim þjónustubeiðnum sem skráðar eru inn í tilkynningarkerfið og skoða stöðu málsins þar til verkefninu hefur verið lokið eða það tekið út af dagskrá af starfsmönnum félagsins.

 

Óskir og ábendingar um stærri verkefni og langtímaviðhald eða umbætur svæða ættu að berast félaginu í gegn um stjórnir búsetufélaganna.  Óskir um sérlausnir kynnu hins vegar að eiga erindi við framkvæmdaráð og stjórn – og ættu þá að berast með öðrum leiðum.

 

Það er von félagsins  að með Stjóranum - takist að auka og bæta þjónustu við búsetana og halda skilvirkar utan um viðhald einstakra eigna.   Jafnframt er þess vænst að búsetar verði upplýstir reglulega um framvindu verkþátta.    Einhvern tíma mun taka að slípa þessi samskipti en við treystum á vilja félagsmanna til að þróa þjónustuna í samstarfi við stjórn og starfsmenn.       Við biðjum einnig um að menn sýni sveigjanleika gagnvart viðbragðshraða starfsmanna á meðan við erum að ná utan um það sem brýnast er í bili.