Fréttir

Eldvarnir - í aðdraganda jóla

Á næstunni verður unnið að því að skoða eldvarnir í eignum félagsins.

Sérstakt átak verður gert í því að fara yfir slökkvitæki og reykskynjara í eldri eignum í samstarfi við fagaðila og búsetana.

Í Kjarnagötu 12-16 verður send út árétting á leiðbeiningum vegna viðvörunarkerfis og rýmingu í neyðartilvikum.    Að því verður unnið í samstarfi við Securitas og Slökkvilið Akureyrar.

Búsetar eru beðnir um að taka þátt í að efla öryggi íbúa og eigna og fara yfir mikilvæg neyðarviðbrögð með sínu fólki.

Framkvæmdastjóri

Úttekt á íbúðum í Kjarnagötu 12-16 og við Brekatún 1-19

Nú er lokið við úttekt íbúðum félagsins við Kjarnagötu og Brekatún.  Nánari greining á frágangsgöllum og samstarf við verktaka um viðgerðir stendur yfir.   

Stærri lagfæringar inni í einstökum íbúðum látum við bíða fram yfir jól og áramót.     Í gangi er að setja inn sólbekki í opnanlega glugga og lagfæra málningu í því samhengi - í einstökum íbúðum.

Boðum til fundar með búsetunum þegar við erum búin að fá gleggri mynd af því hvernig við tímasetjum lagfæringar.

Búsetum og íbúum er þakkað fyrir sérlega góðar móttökur og samstarf við úttektina og væntir félagið þess að unnt verði að vinna að nauðsynlegum lagfæringum í sama anda.

Afsláttur á fasteignagjöldum lífeyrisþega

 Samkvæmt gildandi reglum hjá Akureyrarbæ geta lífeyrisþegar sótt um lækkun fasteignagjalda vegna 2010 (Eyðublað HÉR).

Reglurnar gilda fyrir hjón/sambúðarfólk og þess vegna er mikilvægt að búsetar í íbúðum félagsins fylgi þessu eftir hver fyrir sig þar sem félagið hefur ekki allar upplýsingar um réttarstöðu einstaklinga eða annarra heimilismanna.

Uppgjör miðast við búsetu í október og hlutfallslega fyrir þá sem hafa setið í íbúðum einungis hluta úr ári.

Búsetar í íbúðum félagsins eru hvattir til að kynna sér gildandi reglur (HÉR) og hafa samband við fjárreiðudeild Akureyrarbæjar vegna nánari upplýsinga.

 

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi var haldinn 13. Október.   Á fundinn mættu tæplega 40 félagsmenn.

 

Formaður félagsins Guðlaug Kristinsdóttir setti fundinn og flutti skýrslu stjórnar.  Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri gerði grein fyrir starfsemi félagsins og lagði fram reikninga.    Rekstrarniðurstaða ársins 2009 einkennist af því efnahagsástandi sem ríkir.   Hagnaður fyrir fjármagnsgjöld var 140 milljónir, en áfallnar verðbætur  og niðurfærsla eigna námu tæplega 700 milljónum og félagið var því gert upp með tapi upp á 548 milljónir. 

 

Unnið er að því með lánardrottnum að ná fram endurskipulagningu skulda og skilmála með það að markmiði að treysta rekstur félagsins og viðunandi verðlagningu fyrir búsetana.

 

Íbúðalánasjóður veitti félaginu svigrúm til viðbragða með tímabundinnu frystingu hluta af lánum.   Brugðist var við efnahagshruni gagnvart búsetum með því að mánuðina janúar-júní 2009 var mánaðargjaldið fryst og síðan frá 1. Júlí lækkað um 3-5%.   Jafnframt var komið til móts við einstaka félagsmenn sem misstu vinnu eða afkomu vegna hrunsins.    

 

Á fundinum kom fram að þær aðgerðir sem gripið var til á árinu 2009  hafa skilað árangri, og nú eru allar íbúðir félagsins á Akureyri í nýtingu og eftirspurn umfram framboð.

 

Búseti á Norðurlandi á og rekur 234 íbúðir á Akureyri og Húsavík.   Félagið er sjálfstætt húsnæðisamvinnufélag í eigu allra félagsmanna.

 

Stjórn félagsins sem kjörin var á fundinum skipa Guðlaug Kristinsdóttir formaður, Ingvar Björnsson varaformaður, Helgi Már Barðason, Ingi Rúnar Eðvarðsson og Stefán Einar Jónsson.   Varastjórn skipa Tómas Sævarsson, Hermann Árnason,  Hildur Eir Bolladóttir,  Sigríður María Bragadóttir og Guðbjörn Þorsteinsson, 

 

Eftirfarandi tillaga var samþykkt á fundinum

 

       Aðalfundur Búseta á Norðurlandi haldinn 13. október 2010 skorar á stjórnvöld að efla Íbúðalánasjóð til að takast á við nauðsynlega endurskipulagningu á húsnæðiskerfi landsmanna.  Fundurinn fagnar því að almennur skilningur virðist vera að skapast á því að sjálfseignarstefna í íbúðarhúsnæði gengur ekki upp í þeim mæli sem hún hefur verið rekin hér á  landi.

       Fundurinn lýsir stuðningi við áform ríkisstjórnarinnar  um að efla leigumarkað og styrkja fjárhagsgrunn húsnæðissamvinnufélaga.   

       Búseti á Norðurlandi getur lagt að mörkum til að auka framboð af hagkvæmu húsnæði á NA-landi og styrkja um leið rekstur félagsins.

       Fundurinn hvetur til þess að húsaleigubætur og vaxtabætur verði samhæfðar þannig að tekið verði mið af tekjum og framfærslu allra sem njóta aðstoðar á húsnæðismarkaði.

       Aðalfundur Búseta á Norðurlandi áréttar vilja félagsins til að eiga aðild að víðtæku samstarfi við sveitarfélög og önnur stjórnvöld og félagasamtök um hagkvæmara og öflugra húsnæðiskerfi til framtíðar.

Dýrahald í húsnæði Búseta á Norðurlandi

 

Frá árinu 2007 hefur Búseti á Norðurlandi heimilað takmarkað dýrahald í sérbýlisíbúðum og fjórbýl/fjölbýli þar sem inngangur að íbúðum fer ekki í gegn um sameiginlega forstofu og ganga.

Hundahald er ekki heimilað í fjölbýli með sameiginlegum inngangi.

Gert er ráð fyrir að sótt sé um leyfi fyrir öllu dýrahaldi og búsetar uppfylli tiltekin skilyrði varðandi merkingar, tryggingar, heilsufarseftirlit og önnur leyfi í samræmi við almennar reglur Akureyrarbæjar/Norðurþings.

Ennþá virðist einhverjum íbúum hafa yfirsést að takmarkanir eru í gildi og sækja þarf um leyfi/skráningu.   

Biðjum við nú um sameiginlegt átak íbúa til að kippa þessu í lið - og forðast með því öll frekari óþægindi og ástæðulaust ónæði fyrir nágranna.

Skoðið gildandi reglur til að glöggva ykkur á því hvaða gögnum beri að skila til skrifstofunnar:  http://www.busetiak.is/page/reglur_um_dyrahald 

Enginn titill

Óbreytt gjaldskrá

Allt frá því á fyrstu mánuðum eftir bankahrun hefur Búseti á Norðurlandi kappkostað að koma til móts við félagsmenn með hófsömum breytingum á gjaldskrá.  Einnig hefur stjórn veitt framkvæmdastjóra heimildir til að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með sveigjanlegum úrræðum.

Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum og nú síðast er til afgreiðslu lagabreyting sem mun styrkja rekstrarlega stöðu húsnæðissamvinnufélaganna til framtíðar; - t.d.  með lögfestum heimildum til 90% lánshlutfalls og með heimildum til að endurfjármagna eldri eignir félaganna.

Enn er hins vegar óvissa um uppgjör gengistryggðra lána.  Á sama hátt hefur erindum félagsins varðandi breytta skilmála og fjármögnun ekki verið svarað að fullu.    Stjórnendur félagsins munu vinna áfram með það markmið að ná fram hagstæðri niðurstöðu fyrir félagið og fyrir félagsmennina.

Meðan unnið er að frekari endurskipulagningu, í samstarfi við lánastofnanir, stendur sú ákvörðun stjórnar að gjaldskrá skuli vera óbreytt í grunninn.  

Mánaðargjald verður þannig óbreytt í júlí og á meðan þessi vinna stendur yfir.

Framkvæmdastjóri

Vorverkin

Hirðing á grasblettum og gróðri er að komast í gang með þessarri viku.  

Klipping á runnum er í höndum verktaka undir stjórn umsjónarmanns en áburðargjöf og síðan sláttur verður unnin af lausráðnum starfsmönnum félagsins.

Úðun fyrir roðamaur verður gerð einn umgang á næstunni og runnaúðun einnig.    Búsetar ættu að koma upplýsingum á framfæri ef vart verður við verulegan ófögnuð af skordýrum - og ekki sljákkar við úðun.

Félagið mun vinna að merkingu á stæðum og afmörkun á leiksvæðum og geymslum fyrir hjól eftir því sem ráðrúm verður til, en ekki verður staðið í stórvirkjum á því sviði um sinn.   Mikilvægt er engu síður að allir leggi að mörkum til að munaðarlausir hlutir verði fjarlægðir, samhliða íbúaskiptum, eftir því sem hægt er.

Þrif á stæðum og húsum gengur auðvitað þeim mun betur og hraðar fyrir sig eftir því sem fleiri leggja jákvætt að mörkum.

Viðhald og endurbætur húsnæði verður á lágu nótunum, en þó munum við skipta um gler í nokkrum húsum og leggja út fyrir pöllum þar sem íbúar eiga sjálfir frumkvæði að því að byggja skjólveggi.

 

Til allra búseta og íbúa

Við sl. áramót tók gildi breytt fasteignamat og brunabótamat.   Þannig að tryggingar og fasteignagjöld hækka vegna þessa – og einnig hækkar fjármagnskostnaður þeirra íbúða sem fengu hækkað mat.   Breytingar eru mismunandi eftir aldri og gerð íbúða og nú kemur t.d. fram verðmunur milli íbúða í Kjarnagötu 12-14 eftir hæðum.   Jafnstórar íbúðir á 1. hæð og 4. og 5. hæð eru metnar hærra en íbúðir á 2.-3.hæð og íbúðir í Kjarnagötu 16 eru verðmetnar örlítið hærra en jafnstórar íbúðir í Kjarnagötu 12-14.   Örfáar íbúðir voru lækkaðar í fasteignamati.

 

Á síðustu mánuðum hefur félagið leitað leiða til að lágmarka greiðslubyrði félagsins þannig að hægt væri að halda mánaðargjaldinu niðri.   Félagið hefur fengið tímabundna frystingu á lánum hjá Íbúðalánasjóði og með því varð mögulegt að frysta gjaldskrá frá janúar 2009 og síðan að lækka gjaldskrá í júli-desember 2009.   Frysting á hluta af lánum kom til góða fyrir alla búseta í íbúðum félagsins, en einnig var gerð sú breyting að viðhaldsgjald var fest við 0,3% af brunabótamati á ári, sem þýddi umtalsverða lækkun hjá öllum sem búa í eldri íbúðum félagsins.

 

Stjórn ákvað að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með tímabundinni  innheimtu á skertu mánaðargjaldi en lækka á móti inneign í búseturétti.   Nokkrar íbúðir hafa einnig verið leigðar félagsmönnum þar sem búseturéttur seldist ekki.

Stjórn félagsins leggur áherslu á að ná samkomulagi við lánastofnanir um breytta skilmála lána, með frestun afborgana, greiðslujöfnun lána  og lækkun  vaxta og alla mögulega endurskipulagningu skulda þannig að rekstur félagsins verði tryggður til frambúðar og greiðsluþoli búsetanna jafnframt ekki ofboðið.    Að því er unnið og á meðan verður gengið útfrá óbreyttri verðlagningu, en miðað við greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs ef til hækkunar þarf að koma.

Áætlanir gera nú ráð fyrir að verðbólga gangi niður þegar líður á árið og greiðslujöfnunarvísitala hækki því takmarkað.

Þess er þannig vænst að breytingar á mánaðargjaldi verði einungis minniháttar – frá og með febrúar 2010 og allt til ársloka.

 

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Framkvæmdastjóri

Mánaðargjaldið - lítið breytt

Mánaðargjaldið í janúar-febrúar verður óbreytt í grunninn samkvæmt ákvörðun stjórnar 26. janúar 2010.   Lítilsháttar breytingar koma fram vegna hækkunar á fasteignamati og brunabótamati og samsvarandi breytinga á tryggingum og fasteignagjöldum.

Íbúðalánasjóður hefur veitt félaginu tiltekna frestun afborgana af hluta af lánum og meðan unnið verður nánar að endurskipulagningu á greiðslubyrði félagsins mun mánaðargjaldið verða tengt við greiðslujöfnunarvísitölu til hækkunar milli mánaða.

Búsetum/leigjendum verður sent bréf til nánari upplýsinga um verðlagningu og þjónustu.

Framkvæmdastjóri