Fréttir

Til allra búseta og íbúa

Við sl. áramót tók gildi breytt fasteignamat og brunabótamat.   Þannig að tryggingar og fasteignagjöld hækka vegna þessa – og einnig hækkar fjármagnskostnaður þeirra íbúða sem fengu hækkað mat.   Breytingar eru mismunandi eftir aldri og gerð íbúða og nú kemur t.d. fram verðmunur milli íbúða í Kjarnagötu 12-14 eftir hæðum.   Jafnstórar íbúðir á 1. hæð og 4. og 5. hæð eru metnar hærra en íbúðir á 2.-3.hæð og íbúðir í Kjarnagötu 16 eru verðmetnar örlítið hærra en jafnstórar íbúðir í Kjarnagötu 12-14.   Örfáar íbúðir voru lækkaðar í fasteignamati.

 

Á síðustu mánuðum hefur félagið leitað leiða til að lágmarka greiðslubyrði félagsins þannig að hægt væri að halda mánaðargjaldinu niðri.   Félagið hefur fengið tímabundna frystingu á lánum hjá Íbúðalánasjóði og með því varð mögulegt að frysta gjaldskrá frá janúar 2009 og síðan að lækka gjaldskrá í júli-desember 2009.   Frysting á hluta af lánum kom til góða fyrir alla búseta í íbúðum félagsins, en einnig var gerð sú breyting að viðhaldsgjald var fest við 0,3% af brunabótamati á ári, sem þýddi umtalsverða lækkun hjá öllum sem búa í eldri íbúðum félagsins.

 

Stjórn ákvað að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með tímabundinni  innheimtu á skertu mánaðargjaldi en lækka á móti inneign í búseturétti.   Nokkrar íbúðir hafa einnig verið leigðar félagsmönnum þar sem búseturéttur seldist ekki.

Stjórn félagsins leggur áherslu á að ná samkomulagi við lánastofnanir um breytta skilmála lána, með frestun afborgana, greiðslujöfnun lána  og lækkun  vaxta og alla mögulega endurskipulagningu skulda þannig að rekstur félagsins verði tryggður til frambúðar og greiðsluþoli búsetanna jafnframt ekki ofboðið.    Að því er unnið og á meðan verður gengið útfrá óbreyttri verðlagningu, en miðað við greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs ef til hækkunar þarf að koma.

Áætlanir gera nú ráð fyrir að verðbólga gangi niður þegar líður á árið og greiðslujöfnunarvísitala hækki því takmarkað.

Þess er þannig vænst að breytingar á mánaðargjaldi verði einungis minniháttar – frá og með febrúar 2010 og allt til ársloka.

 

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Framkvæmdastjóri