Vorverkin
Hirðing á grasblettum og gróðri er að komast í gang með þessarri viku.
Klipping á runnum er í höndum verktaka undir stjórn umsjónarmanns en áburðargjöf og síðan sláttur verður unnin af lausráðnum starfsmönnum félagsins.
Úðun fyrir roðamaur verður gerð einn umgang á næstunni og runnaúðun einnig. Búsetar ættu að koma upplýsingum á framfæri ef vart verður við verulegan ófögnuð af skordýrum - og ekki sljákkar við úðun.
Félagið mun vinna að merkingu á stæðum og afmörkun á leiksvæðum og geymslum fyrir hjól eftir því sem ráðrúm verður til, en ekki verður staðið í stórvirkjum á því sviði um sinn. Mikilvægt er engu síður að allir leggi að mörkum til að munaðarlausir hlutir verði fjarlægðir, samhliða íbúaskiptum, eftir því sem hægt er.
Þrif á stæðum og húsum gengur auðvitað þeim mun betur og hraðar fyrir sig eftir því sem fleiri leggja jákvætt að mörkum.
Viðhald og endurbætur húsnæði verður á lágu nótunum, en þó munum við skipta um gler í nokkrum húsum og leggja út fyrir pöllum þar sem íbúar eiga sjálfir frumkvæði að því að byggja skjólveggi.