Óbreytt gjaldskrá
Allt frá því á fyrstu mánuðum eftir bankahrun hefur Búseti á Norðurlandi kappkostað að koma til móts við félagsmenn með hófsömum breytingum á gjaldskrá. Einnig hefur stjórn veitt framkvæmdastjóra heimildir til að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með sveigjanlegum úrræðum.
Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum og nú síðast er til afgreiðslu lagabreyting sem mun styrkja rekstrarlega stöðu húsnæðissamvinnufélaganna til framtíðar; - t.d. með lögfestum heimildum til 90% lánshlutfalls og með heimildum til að endurfjármagna eldri eignir félaganna.
Enn er hins vegar óvissa um uppgjör gengistryggðra lána. Á sama hátt hefur erindum félagsins varðandi breytta skilmála og fjármögnun ekki verið svarað að fullu. Stjórnendur félagsins munu vinna áfram með það markmið að ná fram hagstæðri niðurstöðu fyrir félagið og fyrir félagsmennina.
Meðan unnið er að frekari endurskipulagningu, í samstarfi við lánastofnanir, stendur sú ákvörðun stjórnar að gjaldskrá skuli vera óbreytt í grunninn.
Mánaðargjald verður þannig óbreytt í júlí og á meðan þessi vinna stendur yfir.
Framkvæmdastjóri