Fréttir

Leiðbeinandi reglur vegna leiktækja í einkaeign


Þann 7. júní 2011 staðfesti stjórn leiðbeinandi reglur um fyrirkomulag leiktækja í einkaeign á lóðum og svæðum félagsins:  

  1. Varðandi tímabundna notkun á leiktækjum í einkaeign á lóðum og svæðum Búseta á Norðurlandi leggur félagið áherslu á að leitað sé góðs samstarfs milli nágranna um nýtingu sérlóðar einstakra húsa.  
  2. Eftir sem áður þarf ávallt að leita samráðs við umsjónarmann/framkvæmdastjóra félagsins varðandi fyrirkomulag stærri leiktækja sem valda  álagi og mögulegri hættu (trampoline-rólur).
  3. Umsjónarmaður/framkvæmdastjóri getur heimilað tímabundna uppsetningu leiktækja utan sérmerktra lóða einstakra húsa/íbúða.
  4. Uppsetning slíkra tækja skal ætið vera tímabundin og það undirtrikað að notkun þeirra sé á ábyrgð notenda sjálfra og eigenda tækjanna og þess gætt að ekki stafi hætta af þeim fyrir nágrennið t.d. vegna foks.
  5. Notendur og eigendur skulu í hvívetna virða nándarfrið – og undir öllum kringumstæðum gæta að því að næturró sé ekki raskað.
  6. Umsjónarmaður fylgist með því að viðunandi umgengni sé um lóðir og svæði og getur félagið hvenær sem er kallað eftir því að leiktæki verði flutt til eða fjarlægð þegar og ef hætta skapast, ef álag vegna notkunar reynist of mikið, eða ef umgengni er með einhverjum hætti ábótavant.

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi


Aðalfundur Búseta á Norðurlandi

Var haldinn miðvikudaginn 15.júní 2011,  kl. 20:00, í Skipagötu 14 á Akureyri.

Á fundinum kom fram að halli var á rekstri félagsins á síðasta ári um nærri 52 milljónir.  Jafnframt kom fram að vegna lækkandi fasteignaverðs og stökkbreytingar á verðtryggðum lánum félagsins er bókfærður efnahagur neikvæður.

Unnið er að endurskipulagningu lána og endurfjármögnun félagsins í samstarfi við Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð og er það markið aðila að ljúka þeirri endurskipulagningu mv. september 2011.  

Félagið hefur gripið til aðgerða til að lækka rekstrarkostnað og frestað öllum  áætlunum varðandi nýbyggingar og kostnaðarsamara viðhald.

Nýting íbúða félagsins er mjög góð og eftirspurn virðist vera talsvert meiri en framboð á leigu- og búseturéttaríbúðum á Akureyri um þessar mundir.

Frá janúar 2009 hefur mánaðargjald búseta/leigjenda ekki verið tengt vísitölu.   Nú gera áætlanir stjórnar hins vegar ráð fyrir nokkrum hækkunum umfram verðbólgu næstu mánaða.   Gjaldtaka vegna samtíðaviðhalds og íbúaskipta hefur verið hækkuð til að standa undir raunkostnaði.

Á fundinum var Guðlaug Kristinsdóttir endurkjörin formaður til tveggja ára og aðrir í stjórn eru Hákon Hákonarson, Helgi Már Barðason,  Ingvar Björnsson varaformaður og Stefán Einar Jónsson.
Varastjórn skipa Guðbjörn Þorsteinsson, Hildur Eir Bolladóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Sigríður María Bragadóttir og Tómas Sævarsson.

Fundurinn var fámennur að þessu sinni.