Fréttir

Eldvarnir


Til allra búseta/íbúa í  húsnæði félagsins:

Búseti á Norðurlandi hefur kappkostað að efla brunavarnir í öllum íbúðum félagsins.   Í því skyni eru nú settir reykskynjarar í öll svefnherbergi og þvottahús í eldri íbúðum þegar skipt er um búseta og eldvarnarteppi ættu að verða sjálfsagður búnaður einnig.

Slökkvitæki(duftslökkvitæki) eiga að vera í öllum íbúðum.

Félagið gerir þjónustusamning við Eldvarnamiðstöð Norðurlands um að annast reglubundna yfirferð/endurhleðslu slökkvitækja.  

Þegar nýir búsetar flytja inn þá ætlumst við til þess að slökkvitæki séu yfirfarin/endurhlaðin.  Í Kjarnagötu 12-16 gilda sérstakar reglur um brunavarnir og þar verður félagið að eiga frumkvæði að því að brunavarnarkerfi og slökkvitækjum sé viðhaldið í samræmi við skilmála.

Í eldri íbúðum ætlumst við til þess að hver og einn búseti sjái um að skipta um rafhlöður í reykskynjurum eftir því sem hljóðgjafar láta vita.   Félagið reiknar einnig með því að búsetarnir sjálfir eigi frumkvæði að því að fylgjast með því að slökkvitæki séu yfirfarin og komi með tæki til hleðslu og fái yfirfarin tæki í staðinn.  Umsjónarmaður annast slíka þjónustu og miðað við að hleðsla sé endurnýjuð á 18 mánaða fresti.

Jafnframt hvetur félagið alla til að huga vel að tryggingum sínum – og skoða hvort „slysatrygging við heimilisstörf“ - sem hægt er að tryggja sér með skilum á skattframtali – er ekki hagkvæm fyrir alla sem standa fyrir heimili.

Á næstunni förum við skipulega í gegnum stöðuna í Kjarnagötu 12-16 varðandi slökkvitækin.

Skoðið endilega ástand eldvarna í ykkar íbúðum, (reykskynjara, slökkvitæki og teppi) og kallið eftir úrbótum og yfirferð búnaðarins eftir því sem þörf er fyrir.  Ræðið einnig við börnin um rétt viðbrögð við eldsvoða eða boðum frá reykskynjara og tryggið flóttaleiðir.

Sameiginlega getum við örugglega fækkað áhættuþáttunum og dregið úr þeim tjónum sem ekki reynist unnt að koma með öllu í veg fyrir.

 

Akureyri 15.maí 2012

Framkvæmdastjóri 869-6680/umsjónarmaður 898-3389

Vorverkin - sumarþjónustan - utanhússviðhald


Á næstunni mun félagið taka til við vorverk og hefja sumarþjónustuna.  

Skorað er á búsetana að standa sameiginlega að því að laga til á nærsvæðum húsa og á lóðum og tína fokdrasl úr runnum og af girðingum.

Settar hafa verið á dagskrá minniháttar lagfæringar á girðingum og viðhald á gróðri á eldri lóðum.   Leiktækjum verður bætt á lóðir við Klettaborg og Skessugil.

Lokafrágangur á lóðum við Brekatún er kominn á dagskrá og vænst er góðs samráðs við búsetana við það verkefni.    Ekki verður þó hægt að lofa að endanlega muni gengið frá öllum gróðri  á þessu sumri.

Sláttur og hirðing á sameiginlegum lóðum og svæðum verður á höndum starfsmanna félagsins.     Afar gott er að vita til þess að allmargir búsetar leggja hönd að verki og auka við þrifnað og slátt.   Slíkt er virkilega þakkarvert.

Unnið verður að málun og merkingu bílastæða og utanhússviðhaldi eftir því sem tekst að manna slík verkefni.  Brýn verkefni hafa safnast upp á því sviði á síðustu nokkrum árum.

Treystum því að betri og bjartari tímar séu í vændum.

Gleðilegt sumar