Fréttir

Aðalfundur

 

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi fór fram miðvikudaginn 12.september.     Á fundinum gerði formaður félagsins Guðlaug Kristinsdóttir grein fyrir störfum stjórnarinnar.   Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri rakti helstu viðfangsefni félagsins á liðnu starfsári.      Félagið skilaði taprekstri upp á 270 milljónir árið 2011.    

 

Rekstur félagsins hefur verið afar þungur frá 2008 – og hefur verði unnið að lausnum í samstarfi við Íbúðalánasjóð og Íslandsbanka.  

 

Á fundinum var kynnt undirskrifað samkomulag aðila um fjárhagslega endurskipulagningu Búseta á Norðurlandi.   Samkomulagið gengur út á að Íbúðalánasjóður greiðir út lán vegna síðustu framkvæmda félagsins og nýtir sínar heimildir til skuldbreytinga og mögulegrar niðurfærslu á höfðustól  lána sem eru umfram endurmetið markaðsvirði eigna.   Búseti greiðir Íslandsbanka inn á lánasamninga í samræmi við samkomulag aðila og bankinn mun með því loka samningum og aflétta veðböndum af eignum félagsins.

 

Hækkun á mánaðargjaldi mun koma til framkvæmda frá 1. október 2012 í samræmi við verðbólguþróun ársins (upp á 4,5-6%) - og gert er ráð fyrir að innbyrðis leiðrétting á verðlagningu muni taka gildi frá 1. janúar 2013 - og þá að teknu tilliti til endurmats á verðmæti einstakra eignaflokka.

 

Með samkomulaginu er gert ráð fyrir að mánaðargjald búseta í íbúðum félagsins fylgi verðbólguþróun á meðan verðtrygging lána er í óbreyttri framkvæmd.

 

Stjórn og framkvæmdastjóri lögðu fram ársreikning og skýrslur sínar í trausti þess að þar með sé fengin ásættanleg niðurstaða og traustur rekstrargrundvöllur fyrir félagið.   Um leið er rökrétt að gera ráð fyrir því að félagið fái fyrirgreiðslu og samstarf við Íbúðalánasjóð og opinbera aðila til að takast á við rekstur nýrra/fleiri íbúða til að svara verulegri eftirspurn eftir hagkvæmum íbúðum til leigu eða með búseturétti á Akureyri.

 

Hákon Hákonarson og Stefán Einar Jónsson voru kjörnir í stjórn félagsins til tveggja ára. 

 

Varastjórn var endurkjörin til eins árs.

 

Fundurinn var fámennur að þessu sinni.

 

Fundarstjóri var Ingvar Þóroddsson hdl. og fundarritari Halla Björk Garðarsdóttir.