Fréttir

Aðalfundur

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi 

var haldinn mánudaginn 3. Nóvember 2014.

Á fundinum flutti Guðlaug Kristinsdóttir skýrslu stjórnarinnar og rakti helstu viðfangsefni félagsins á liðnu starfsári.   Fyrirferðarmest hefur verið glíman við frágang á endurskipulagningu lána í samstarfi við Íbúðalánasjóð.   Einnig minntist formaðurinn á 30 ára afmælisárið og tímamót í sögu húsnæðissamvinnufélaganna á Íslandi.    Guðlaug sagði frá starfi með „samvinnunefnd um mótun húsnæðisstefnu“ sem Eygló Harðardóttir húsnæðisráðherra kallaði til, en fulltrúar Búseta á Norðurlandi voru næstum þeir einu í samstarfinu  sem bjuggu lengra frá Austurvelli en á Akranesi eða utan við leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur. 

Þakkað hún Hákoni Hákonarsyni sérstaklega fyrir störf hans í stjórn félagsins sl.3 ár, en hann gaf ekki  kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri fór yfir meginverkefni félagsins.   Fagnaði hann þeim áfanga að lokið væri við uppgjör lána og endurskipulagningu í samstarfi við Íbúðalánasjóð.   Jafnframt gagnrýndi hann Íbúðalánasjóð harðlega og taldi að félagið hefði ekki notið sannmælis í samskiptum við sjóðinn.   Neikvætt viðhorf einstakra stjórnenda Íbúðalánasjóðs til húsnæðissamvinnufélaga hefði gert erfitt fyrir og misvísandi, og jafnvel röng upplýsingagjöf frá sjóðnum um málefni Búseta á Norðurlandi (eins og lesa má í Skýrslu Alþingis um Íbúðalánasjóð), sé stóralvarlegur hlutur.   

Íbúðalánasjóður neitaði félaginu um „greiðslujöfnun á lánum“ sem hefði getað létt greiðslubyrði búsetanna umtalsvert. Benedikt sagði einnig ámælisvert og raunar óskiljanlegt að Íbúðalánasjóður skuli ekki lækka breytilega vexti á lánum sem nú bera 4,95% verðtryggða vexti og eru orðnir verulega íþyngjandi fyrir félagið.   Á sama hátt rakti hann að félagið hefði margsinnis gert athugasemdir við ráðherra og stjórnmálamenn um rekstur Íbúðalánasjóðs á leigufélaginu Kletti  - þar sem eignir væru settar inn í félag í eigu ríkisins, án skuldsetningar, og síðan leigðar á grundvelli upplýsinga sem Íbúðalánasjóður aflaði sér frá lántökum sjóðsins (m.a. Búseta á Norðurlandi).  Taldi hann starfsemi Kletts skorta heimildir þar sem engin reglugerð hefði verið sett og ástæða væri til að bera fram formlega kvörtun við Umboðsmann Alþingis og Eftirlitsstofnun EFTA.

Benedikt fór yfir það hvernig „pólitísk bellibrögð“ á Alþingi leiddu til þess að leiðrétting verðtryggðra lána var ekki látin ná til búseta í almennum íbúðum húsnæðissamvinnufélaganna.  Sagði hann frá því að félagið héldi áfram að berjast fyrir því að þau fyrirheit sem ráðherrar og alþingismenn hefðu gefið um það efni yrðu efnd og ynni félagið að því í samstarfi við Búseta í  Reykjavík og Búmenn.

Lýsti framkvæmdastjóri sérstakri ánægju með störf „samvinnunefndar um mótun húsnæðisstefnu“ – og fagnaði tillögum nefndarinnar sem kynntar voru sl. vor.  Þar er gert ráð fyrir að leigufélög og húsnæðissamvinnufélög verði efld verulega og skapaður grundvöllur til hagkvæmari framleiðslu og fjármögnunar íbúða sem reknar verða í þágu almennings og án hagnaðarkröfu (not-for-profit).

Ársreikningur 2013

Framkvæmdastjóri fór yfir ársreikning félagsins 2013.   Tekjur félagsins voru 391,76 milljónir og hagnaður ársins 367,5 milljónir að teknu tilliti til matsbreytinga fasteigna og fjármagnsgjalda.

Bókfært virði eigna var 6.073 milljónir og staða lána hjá Íbúðalánasjóði 5.319 milljónir. Veðsetningarhlutfall íbúða félagsins er að meðaltali um 88,5%.   Að teknu tilliti til inneignar í búseturétti félagsmanna er eigið fé félagsins 155 milljónir.

Framkvæmdastjóri kynnti á fundinum að óhjákvæmilegt væri að hækka fjármagnshluta mánaðargjaldsins til samræmis við greiðslubyrði allra lána félagsins.  Hækkun um 4,83% umfram verðbólgu kæmi til framkvæmda um áramót – en á móti hefur stjórn félagsins ákveðið að skera niður fastan kostnað við skrifstofuhald og framkvæmdastjórn og lágmarka umfang viðhalds og þjónustu þannig að meðalhækkun mánaðargjaldsins um áramót verður óveruleg umfram verðbólguviðmið. Boðuð hækkun á fjármagnslið mánaðargjalds verður dregin til baka ef viðunandi árangur næst varðandi sanngirniskröfuna um að leiðrétting lána nái til búsetanna í samvinnufélögum  - eða ef breytilegir vextir verða lækkaðir til samræmis við þróun markaðsvaxta.

Framvegis mun fjármagnshluti mánaðargjaldsins fylgja vísitölu og verða leiðréttur tvisvar á ári miðað við greiðslubyrði allra lána félagsins.   Félög í íbúðarekstri miða almennt við að 1,6% af verðmæti eigna sé ráðstafað til viðhalds og endurnýjunar.   Búseti á Norðurlandi frestar endurnýjunarviðhaldi um sinn til að lágmarka kostnað meðan allra leiða er leitað varðandi bætt kjör á lánum. Viðhaldsgjald í félaginu skiptist árið 2015 þannig að 0,4% brunabótamats deilist á 12 mánuði ársins og 2% af brunabótamati kemur til greiðslu við rýmingu íbúðar.

Framkvæmdastjóri vakti athygli á upplýsingum Fasteignamats ríkisins um meðalleigu á Akureyri og með nokkrum dæmum af verðlagningu félagsins taldi hann augljóst að búsetar í íbúðum á Akureyri væru að greiða verulega lægra mánaðargjald miðað við gæði íbúða heldur en tíðkast á almennum leigumarkaði.

Skrifstofurekstur félagsins verður með næsta ári í lágmarki að umfangi og kostnaði og allt starfsmannahald félagsins verður stokkað upp til að lækka rekstrarkostnað í samræmi við áætlanir.

Framkvæmdastjóri þakkaði stjórn félagsins alveg sérstaklega fyrir gott samstarf og það traust sem hann hefði notið við afar erfiðar aðstæður í rekstri félagsins síðustu árin.   Einnig þakkaði hann félagsmönnum fyrir samstarf og samskipti sem hann sagði að hefðu að langmestu leyti verið jákvæð og uppbyggileg.

Framkvæmdastjóri hét á félagsmenn að taka höndum saman um að efla félagið og kalla bæjarstjórn, önnur stjórnvöld og velvildaraðila til samstarfs um að gera Búseta á Norðurlandi að kjölfestu í stórauknu framboði hagkvæmra leigu- og búseturéttaríbúða sem reknar verða án hagnaðarkröfu á Akureyri.

Stjórn;

Á fundinum var Halldór Már Þórisson kjörinn nýr í aðalstjórn,  aðrir í stjórninni eru Guðlaug Kristinsdóttir formaður, Ingvar Björnsson varaformaður, Sigríður María Bragadóttir og Stefán Einar Jónsson

Varamenn í stafrófsröð kjörnir á fundinum; Hanna Dóra Markúsdóttir, Hildur Eir Bolladóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Höskuldur V Jóhannesson, Jón Ingi Einarsson

Ágæt mæting var á fundinum.

Nánari upplýsingar;

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (869-6680)

 

Guðlaug Kristinsdóttir formaður ( 892-2097)