Fréttir

Leiðrétting verðtryggðra lána;

 

Tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána liggja fyrir Alþingi.    Því miður virðist sem einhver misskilningur hafi undið upp á sig og ekki er gert ráð fyrir að búsetar í almennum íbúðum húsnæðissamvinnufélaganna njóti leiðréttinga.

Stjórnendur Búseta í Reykjavík, Búmanna og Búseta á Norðurlandi hafa átt fundi með áhrifa-aðilum síðustu daga og væntum við þess að sá skilningur á  málinu sem komið hefur fram hjá húsnæðisráðherra og forsætisráðherra muni skila sér í jákvæðri niðurstöðu.

Áfram munum við freista þess að krefjast jafnræðis fyrir þetta eignarform íbúða í samvinnufélagi til samræmis við séreignarformið -  eins og gildir um vaxtabótaréttinn.

Hvetjum við alla félagsmenn og búsetana til að minna Alþingismenn sína og ráðherra á að lán á búseturéttaríbúðunum stökkbreyttust líka og búsetarnir verðskulda sama réttlæti og aðrir landsmenn.

(Framkvæmdastjóri 31.mars 2014)

Búseti á Norðurlandi 30 ára

Afmæliskaffið og vöfflurnar féllu í góðan jarðveg á afmælisdaginn. 

Í tilefni afmælisársins:

Þann 27. mars voru 30 ár liðin frá stofnun Búseta á Akureyri.    Frumkvæði að stofnun félagsins var borið uppi af Landssambandi Samvinnustarfsmanna og í góðu samstarfi við þáverandi stjórnendur KEA.   Fundarstjóri á stofnfundinum var Valur Arnþórsson kaupfélagsstjóri.

 

Búseti á Norðurlandi varð til með sameiningu félaga á Akureyri og Húsavík.   Félagið á og rekur 234 íbúðir (219 á Akureyri).   Húsnæðis- og byggingamarkaðurinn hefur gengið í gegn um erfiða tíma frá 2007 – og stökkbreyting verðtryggðra lána þrengir að rekstri fjölskyldna og félaga.   Hertar lánareglur gera fjölmennum hópum ókleift að taka lán til kaupa á eigin íbúðarhúsnæði.

 

Nú eru þannig krefjandi tímar í húsnæðismálum – ekkert síður en fyrir 30 árum.

 

Viðburðir á afmælisári - stefnumótun

Stjórn Búseta á Norðurlandi hefur lagt drög að verkefnum til að fagna þessum tímamótum.  

Leitað hefur verið til Akureyrarbæjar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og KEA um samstarf til að takast á við breyttar aðstæður á húsnæðismarkaði.  Markmið slíks samstarfs væri að greina þörfina fyrir hagkvæmt húsnæði með leigu- og búseturéttarkjörum og koma á fót öflugum félögum til að byggja og reka slíkt húsnæði.    Slíkt er væntanlega hagstæðast að gera  í nánu samstarfi við Búseta á Norðurlandi og með það fyrir augum um leið að félagið geti vaxið og aukið framboð af íbúðum á Akureyri - og þar sem eftirspurn verður eftir í nágrannabyggðum.

Þessum tímamótum mun félagið þannig fagna með því að leggja upp plön um aukinn og hagkvæmari rekstur til lengri tíma.

Um leið gerum við okkur dagamun;

  • 20. mars mun Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðingur og fyrsti formaður Búseta í Reykjavík fjalla um sögulega þróun húsnæðismálanna á 20 öld og stofnun Búseta.  (Staður Alþýðuhúsið; Lionssalurinn kl 15-18)
  • 27.mars - AFMÆLISKAFFI  opið hús í Lionssalnum í Skipagötu 14 -  fyrir félagsmenn og áhugasama
  • 10. apríl  kynning á húsnæðissamvinnufélögum -  og rekstri leigu- og búseturéttarfélaga án hagnaðarkröfu (not-for-profit) - alþjóðasamband húsnæðissamvinnufélaga (ICA-Housing). (Staður Alþýðuhúsið; Lionssalurinn kl 16-18).
  • Áformum um ráðstefnu 30 apríl er frestað (-  Húsnæðismál og skipulagsmál á Akureyri -  ráðstefna fyrir almenning - nýjar og neytendadrifnar lausnir í samstarfi við aðila - stefnumótun Búseta á Norðurlandi kynnt. Dagskráin auglýst síðar  ). 

(Skrifað 10.mars 2014 - Framkvæmdastjóri)

 

 

Búseti á Norðurlandi er húsnæðissamvinnufélag;

 

·       félagsmenn eiga félagið og bera ábyrgð á stjórnun þess

 

·       félagsmaður greiðir fyrir búseturétt sem svarar 10% af verðmæti íbúðar

 

·       og ávinningur af rekstri félagsins skilar sér beint til búsetanna í íbúðum félagsins

 

Markmið Búseta á Norðurlandi eru;

 

·       að byggja og kaupa hagkvæmar íbúðir af fjölbreyttum gerðum og stærðum

 

·       að reka íbúðirnar með lágmarkskostnaði

 

·       að vinna að því að félagsmenn njóti bestu kjara á húsnæðismarkaði

 

Búseti á Norðurlandi kallar eftir því að aukinn sveigjanleiki í byggingarreglum og skipulagi geri það áhugavert að byggja nýjar íbúðir sem geta verið ódýrar og hagstæðar í rekstri.   Bæði litlar íbúðir fyrir einstaklinga og einnig stærri íbúðir fyrir ólíkar fjölskyldugerðir.

 

Nýjar aðstæður á húsnæðismarkaði skapa tækifæri fyrir húsnæðissamvinnufélögin til að bjóða upp á hagkvæmar lausnir fyrir stækkandi hópa fólks;

 

·       fyrir einstaklinga

 

·       fyrir ungar fjölskyldur sem vilja búa sjálfstætt

 

·       fyrir fólk sem vill eiga kosta á hreyfanleika og valkostum á markaði

 

·       fyrir fólk sem hefur reynslu af öruggum leigu- og búseturéttarmarkaði í öðrum löndum

 

·       fyrir fólk sem er brennt af áföllum síðustu ára

 

·       fyrir alla sem vilja hámarka hagkvæmni í heimilisrekstri sínum

 

 

 

Búseti á Norðurlandi vinnur að því að stofnað verði félag um nýbyggingar og rekstur leiguíbúða fyrir almenning -  og einnig verði aukið við framboð búseturéttaríbúða félagsins.

 

·       Búseti á Norðurlandi hvetur til þess að leiguíbúðir í eigu fjármálafyrirtækja verði settar inn í framtíðarfélag og boðnar almenningi á langtímaleigusamningi og án hagnaðarkröfu

 

·       Búseti á Norðurlandi hefur leitað til opinberra aðila  -  til velvildaraðila og til fagaðila um aðstoð við að stofna og fjármagna félag til að byggja verulegan fjölda hagkvæmra leigu- og búseturéttaríbúða fyrir almenning

 

·       Til þess þarf að lækka byggingarkostnað – og einnig að tryggja fjármagn til að kosta þróun og undirbúning -  en umfram allt þarf að finna lánsfé með ásættanlegum vaxtakjörum.