Fréttir

Dreifibréf til allra búseta í íbúðum félagsins

(Verður borið í hús)

Akureyri 30.maí 2014

Til allra búseta/íbúa hjá Búseta á Norðurlandi;

Unnið hefur verið að endurskipulagningu á skuldum félagsins frá Hruni.  Á árinu 2012 var skrifað undir samkomulag við Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð sem tryggði rekstur félagsins.     Snemma árs 2013 var lokið uppgjöri við Íslandsbanka á grundvelli samkomulagsins.   Af hálfu Íbúðalánasjóðs hefur því miður dregist langt úr hömlu að standa við samkomulag aðila.  Ástæða er til að undirstrika að ekki var gert ráð fyrir neinni niðurfellingu lána félagsins hjá Íbúðalánasjóði, en ágreiningur hefur verið gerður um ósanngjarna rukkun á reiknuðum dráttarvöxtum og innheimtukostnaði vegna tafa á því að Íbúðalánasjóður sjálfur stæði við sínar skuldbindingar.

Leiðrétting verðtryggðra lána sem ríkisstjórnin fór með í gegn um Alþingi nú í maímánuði er því miður ekki látin ná til búsetanna í húsnæðissamvinnufélögunum þrátt fyrir að ábyrgðarmenn úr röðum ríkisstjórnarmeirihlutans hafi á fyrri stigum gefið slík fyrirheit.

Búseti á Norðurlandi vinnur í góðu samstarfi við Búmenn og Búseta í Reykjavík að því að knýja á um að sambærileg/sama leiðrétting nái til okkar félagsmanna í almennum íbúðum –og leiðrétting lána sem urðu fyrir stökkbreytingu 2008 og 2009 skili sér til búsetanna.  Leitað verður allra leiða til að knýja á um það.

Mjög mikilvægt er einnig að knýja á um að breytilegir vextir á lánum félaganna hjá Íbúðalánasjóði verði leiðréttir.   Umboð til slíkra leiðréttinga liggur ótvírætt í höndum húsnæðisráðherra og í gegn um reglugerð um lánaflokka íbúðalánasjóðs.   

Forsætisráðherra og húsnæðisráðherra hafa gefið fyrirheit um að leigumarkaðurinn og búsetar í húsnæðissamvinnufélögunum geti vænst þess að fá réttarbætur í samhengi við úrvinnslu á fyrirliggjandi tillögum um gerbreytta húsnæðisstefnu.     Skýrsla verkefnisstjórnarinnar sem kynnt var í byrjun maí (og finna má á heimasíðu velferðarráðuneytisins) – gerir ráð fyrir því að húsnæðissamvinnufélög og leigufélög sem rekin eru án hagnaðarkröfu – muni fá verulega aukið svigrúm með það fyrir augum að mæta vaxandi þörfum þess unga fólks sem ekki fær „greiðslumat“ -  eða vill ekki binda sig yfir skuldsettum kaupum á okurkjörum.    Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi mun kröfunni um sanngjarna og sambærilega leiðréttingu verða fylgt eftir gagnvart ríkisstjórninni.

 

Félagið frestaði verðtryggðum gjaldskrárbreytingum í upphafi ársins 2014 -  en þó komu fram mismunandi miklar breytingar vegna hækkunar á fasteignamati og brunabótamati eigna með febrúarinnheimtu. 

Til að mæta verðbólguhækkunum frá því í október 2013 mun 2% hækkun á fjármagnslið mánaðargjaldsins koma til framkvæmda með innheimtu vegna júnímánaðar (á eindaga 15.júlí).   

Meðan ekki er hægt að klára uppgjör við Íbúðalánasjóð verður aðalfundi félagsins frestað.  Vonandi samt ekki lengur en til september/október.

 

 

Á Akureyri (og í nágrenni) er skortur á hagkvæmu leigu- og búseturéttarhúsnæði.  

Verðlagning félagsins, og þar með greiðslubyrði félagsmanna, er pressuð áfram af verðtryggingu lána og alltof háum vöxtum og eltir óstöðugan leigumarkað.  Mánaðargjaldið má ekki hækka umtalsvert. 

Það er verkefni stjórnar og framkvæmdastjóra að leita allra leiða til að efla og bæta rekstur félagsins á hverjum tíma;   

Við vinnum að skoðun á því hvort unnt er að stofna leigufélag til langtímarekstrar og jafnhliða að fjölga eignum í rekstri félagsins.   Við brýnum Akureyrabæ til samstarfs en höfum einnig leitað til KEA, AFE og munum banka upp á hjá lífeyrissjóðum og bönkum og leita hófanna með fjármögnun.

·       Það er forgangsmarkmið að lækka mánaðarlega greiðslubyrði allra í núverandi kerfi, en tryggja jafnframt öruggan rekstur.   Það verður einungis mögulegt með leiðréttingu á stökkbreyttum lánum, lækkuðum vöxtum – eða mögulegri endurfjármögnun að hluta eða miklu leyti.

 

·       Annað markmið er að fjölga hagkvæmum leigu- og búseturéttaríbúðum til þess að mæta eftirspurn og auka valfrelsi þeirra sem búa á starfssvæði félagsins.   Slíkt verður tæplega að veruleika nema með samstarfi við Akureyrarbæ (önnur sveitarfélög), ríkisstjórn, velvildaraðila og með umtalsvert hagkvæmari fjármögnun heldur en staðið hefur til boða um langt skeið.

Að þessu verður áfram unnið af fullri einurð -  í gegn um sumarið.   

Þetta er verkefni sem í sjálfu sér endar aldrei -  en þörfin er brýnni nú en oft áður – bæði vegna þess að kjör margra hafa versnað umtalsvert og einnig vegna þess að reglur um greiðslumat lántakenda við íbúðakaup hafa verið hertar mjög mikið.    Eftirspurnin eftir hagkvæmu húsnæði vex þannig nokkuð hratt.   

Skuldbinding til lengri tíma,  milli skipulagsyfirvalda og félagsins  um sveigjanleika í skilmálum og byggingarhraða,  gefur færi á hagkvæmu samstarfi Búseta á Norðurlandi við hönnuði og byggingarfyrirtæki.   Slíkt samstarf mundi geta lækkað byggingarkostnað umtalsvert og skilað sér beint til allra félagsmanna.

Nánari upplýsingar á skrifstofunni 452-2888

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (869-6680) bensi@busetiak.is

Leiðrétting verðtryggðra lána


Nú liggur fyrir í afgreiðslu Alþingis að leiðrétting verðtryggðra lána mun EKKI ná til búsetanna í húsnæðissamvinnufélögunum.

Forsætisráðherra og húsnæðisráðherra hafa ítrekað lýst því að komið verði til móts við brýna hagsmuni leigjenda og búseta í tengslum við útfærslu á tillögum að gerbreyttri húsnæðisstefnu.

Stjórn og framkvæmdastjóri munu kappkosta að leggja að mörkum með það fyrir augum að unnt verði að lækka greiðslubyrði í okkar félagi varanlega.

Meðan ekkert er fast í hendi varðandi þessar leiðréttingar munum við eiga samstarf við Búseta í Reykjavík og Búmenn - og berjast fyrir því að sama eða sambærileg leiðrétting nái til allra búseta í almenna kerfinu og að almenn rekstrarskilyrði húsnæðissamvinnfélaganna verði bætt.      

Á þessu stigi gerum við ráð fyrir að boða til fundar með öllum búsetum í félaginu - til að fara yfir stöðuna eins og hún er og ræða möguleg viðbrögð og úrræði.

Framkvæmdastjóri 19.maí 2014

Efnahags og viðskiptanefnd Alþingis veldur vonbrigðum fyrir búseta í húsnæðissamvinnufélögunum

Stjórnendur húsnæðissamvinnufélaganna hafa átt margvísleg samskipti við ráðherra og Alþingismenn varðandi réttláta kröfu um að leiðrétting verðtryggðra fasteignalána næði til búseturéttaríbúða með sambærilegum hætti og um séreignaríbúðir væri að ræða. 

Forsætisráðherra sem einnig er 1. þingmaður NA-kjördæmis fékk ítarlega kynningu á stöðunni og sama með félags- og húsnæðismálaráðherra.

 Fjöldi Alþingismanna hefur einnig kynnt sér málið og lýst þeirri skoðun að það sé sjálfsögð krafa og eðlileg. 

Fulltrúar húsnæðissamvinnufélaganna hittu efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á fundi 30.apríl sl. og þar var farið ítarlega yfir málið. 

Það eru því gríðarleg vonbrigð að sjá í áliti meiri-hluta nefndarinnar sem skilað var Sl. föstudag 9.maí - er í engu komið til móts við þessar sanngirniskröfur félaganna. Búseti á Norðurlandi mun því ásamt systurfélögum leita allra leiða til að láta reyna á "jafnræðisreglu" og mögulegt ólögmæti þess að útiloka almenna búseturéttareigendur - sem allir eiga rétt til vaxtabóta - frá þessarri leiðréttingu. 

Úr áliti nefndarinnar; "Aðrir hópar. Fyrir nefndinni kom fram sjónarmið um að úrræði frumvarpsins ættu að ná til fleiri hópa en heimila með verðtryggð húsnæðislán. Hér ber að líta til þess að frumvarpið byggist á ályktun Alþingis nr. 1/142 frá 28. júní 2013 um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi sem leiddi af ófyrirsjáanlegri höfuðstólshækkun verðtryggðra húsnæðislána. Í 1. tölul. 1. mgr. þingsályktunarinnar var forsætisráðherra og ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna falið að setja á fót sérfræðingahóp sem skyldi útfæra og gera tillögur að mismunandi leiðum til að ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra húsnæðislána. Það er því ljóst að frumvarpið felur í sér úrræði sem ætluð eru þeim hópi sem var með verðtryggt fasteignalán vegna húsnæðis til eigin nota á tilteknu tímabili og varð fyrir skakkaföllum af þeim sökum. Þó að aðrir hópar telji að þeir eigi einnig tilkall til leiðréttingar verður að líta til þess að aðstæður þeirra voru aðrar. Ógerlegt er að leysa úr málum allra þessara ólíku hópa með sama úrræðinu. Meiri hlutinn vekur athygli á að félags- og húsnæðismálaráðherra var með ályktun Alþingis nr. 1/142 falið að skipa verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála. Verkefnisstjórnin skilaði skýrslu nýverið og leggur til að unnið verði að uppbyggingu á virkum leigumarkaði, m.a. með því að tryggja húsnæðisöryggi, sanngjarna leigu og fjölbreytt framboð húsnæðis fyrir ólíka hópa með mismunandi þarfir. Að þessu sögðu hvetur meiri hlutinn stjórnvöld til að koma til móts við aðra hópa með öðrum úrræðum sem miðast við þeirra aðstæður." 

Tengill á niðurstöðu nefndarinnar;http://www.althingi.is/altext/143/s/1069.html

Framkvæmdastjóri 12.maí 2014

Leiðrétting verðtryggðra lána

Guðlaug formaður félagsins og Benedikt framkvæmdastjóri áttu fund með húsnæðismálaráðaherra Eygló Harðardóttur og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis 30.apríl sl. 

Fundirnir voru í samstarfi við Búseta á Reykjavík og Búmenn og einkum til þess að fylgja eftir kröfunni um að leiðrétting verðtryggðra lána sem nú er til umfjöllunar á Alþingi nái jafnt til búsetanna í húsnæðissamvinnufélögunum eins og til annarra eigenda íbúða. 

Málið er nú í meðferð Alþingis og áfram verður haldið af hálfu félagsins og systurfélaganna að berjast fyrir sanngjörnum leiðréttingum.    Við getum amk. fullyrt að þessir ráðamenn skilja málið og þýðingu þess fyrir búsetana og fyrir rekstrarform samvinnufélaganna. 

Óskað hefur verið eftir fundum með þingflokkum stjórnarflokkanna til að herða enn á kröfum okkar. 

Jafnframt er félagið aðili að lögfræðilegri úttekt á því hvort ekki sé hægt að sækja málið til árangurs fyrir félagsmennina á grundvelli "jafnræðiskröfu" - ef annað þrýtur. 

Mikilvægt er að allir félagsmenn nýti sín pólitísku tengsl til að halda kröfum húsnæðissamvinnufélaganna á lofti. 

Á meðan þessi vinnsla er enn í gangi verður ekki farið í efnislegar breytingar á gjaldskrá félagsins. (Framkvæmdastjóri 5.5.2014)