Dreifibréf til búseta/íbúa
1.desember 2015
Félagið stendur enn í glímu við afleiðingar hrunsins eins og fjöldamörg fyrirtæki og heimili. Með samningum við Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð árið 2012 væntum við þess að það mundi rætast verulega úr. Því miður stóð Íbúðalánasjóður alls ekki nægilega með félaginu við frágang þess uppgjörs og enn stöndum við í ströggli við stjórnendur Íbúðalánasjóðs vegna vaxtakjara. Sannarlega væntum við þess að nýr forstjóri sjóðsins muni breyta um takt og beita sér fyrir því að stjórn Íbúðalánasjóðs leiðrétti án frekari tafa vextina á stórum hluta lána Búseta á Norðurlandi – sem líkt og nokkur önnur íbúðafélög neytenda greiða 4,95% vexti í umhverfi þar sem almenn kjör verðtryggðra lána eru nú á milli 3 og 4%.
Stjórnvöld hafa heldur ekki staðið við endurtekin fyrirheit um að leiðrétting stökkbreyttra lána nái til félagsmanna í húsnæðissamvinnufélögunum til jafns við aðra eigendur íbúðarhúsnæðis. Þeirri kröfu er áfram haldið á lofti gagnvart ríkisstjórninni.
Félagið vinnur þess vegna af fullri alvöru að því að leita leiða til að endurfjármagna óhagstæð lán – og láta reyna á hvort hækkandi íbúðaverð á Akureyri geti ekki skilað félagsmönnum betri kjörum með verulegri endurskipulagningu lána.
Framtíðin - lagabreytingar
Búseti á Norðurlandi þarf að geta þróast og fjölgað íbúðum til að taka á móti nýjum félagsmönnum – og einnig bætt hagkvæmni í rekstri og þjónustu. Það er verulegur fjöldi fólks sem ekki hefur handbært fé til að kaupa dýrar íbúðir á markaði en verðskuldar engu að síður að búa við húsnæðisöryggi og hófleg útgjöld. Til að unnt verði að bjóða almenningi upp á ódýrari íbúðir þá þurfa sveitarstjórnir að leggja að mörkum með ívilnunum og lágum lóðagjöldum. Einnig þarf að styrkja starfsramma félaga sem rekin eru án hagnaðarkröfu og gera farvegi til samstarfs neytenda og sveitarfélaga – með velvildarfjárfestum – skilvirka og gagnsæja. Það veldur því verulegum vonbrigðum að ráðherra húsnæðismála skuli endurflytja óbreytt frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem m.a. er gert ráð fyrir að viðskipti með búseturétt verði markaðsvædd þannig að fjársterkari einstaklingar geti á öllum tímum stigið fram fyrir aðra félagsmenn með yfirboðum – og einnig er opnað á þann freistnivanda að einstakir félagsmenn taki til sín allan ávinning sem gæti komið fram með hækkuðu húsnæðisverði - í stað þess að slíkur ávinningur skilaði sér til allra félagsmanna – eins og nú er í okkar félagi – þar sem viðskipti með búseturétti fara fram á föstu verði og alfarið í gegnum félagið.
Rekstur – viðhald/ mánaðargjald
Aðalfundur 2014 ákvað að fast gjald til viðhalds skyldi vera 0,4% af verðmæti eignar og deilast á 12 mánuði 2015 og auk þess er “frestað viðhaldsgjald” – 2% af brunabótamati eignar innheimt við sölu búseturéttar og rýmingu íbúðar. Með þessu er viðhald undir þeim mörkum sem getur kallast sjálfbært fyrir félagið – og þess vegna getur slíkt einungis verið tímabundið. Við finnum fyrir því á árinu - að ekki er auðvelt að halda kostnaði innan þess ramma - en samt höldum við ekki í horfinu með stöðu einstakra eigna. Síðasti aðalfundur samþykkti að frá áramótum hækki viðhaldsgjaldið í 0,45% af brunabótamati - en eftir sem áður þurfum við að herða okkur í sparnaði og fresta öllum meiriháttar viðhaldsverkefnum.
Sorpflokkun á Akureyri og Húsavík kallar á aukinn kostnað neytenda – miðað við að menn taki ílát til flokkunar inn á sín svæði. Mögulegt er að spara með því að búsetarnir sinni sjálfir allri sorpflokkun og skili á móttökustöðvar - og auk þess eiga allir á Akureyri að hafa fengið “hin vinsælu klippikort” þannig að stærri hlutum sé hægt að koma í förgun án verulegra aukaútgjalda. Mikilvægt er að ræða þessa tilhögun meðal búsetanna og taka ákvarðanir ef menn sjá fyrir sér að hægt sé að gera betur en nú er – í verði og/eða þjónustu.
Framundan er vetrartíð. Við munum kappkosta að haga snjómokstri og hálkuvörnum í hóflegu samræmi við þarfir - um leið og við reynum að lágmarka kostnaðinn. (Nokkrir vetur á undan hafa verið alltof dýrir.)
Með nýju ári kemur fram hækkun á fasteignagjöldum vegna verðmætisaukningar eigna og álagningarforma. Einnig fylgir breyting á viðhaldsgjaldi eins og áður er nefnt - og tryggingar kosta meira. Við jöfnum reikninga vegna rafmagns og hita í samræmi við notkun einstakra eigna. Þessar breytingar koma að fullu fram með innheimtu fyrir febrúar.
Vísitöluhækkanir halda áfram að hlaða á greiðslubyrðina hjá öllum með verðtryggð lán - og á meðan ekki fást leiðréttingar á málum félagsmanna þá munu hækkanir á mánaðargjaldinu fylgja verðbólgunni að því er fjármagnskostnaðinn áhrærir.
Með innheimtu fyrir nóvember sendum við öllum sundurliðað yfirlit þannig að menn geti glöggvað sig á samsetningu mánaðargjaldsins fyrir einstakar íbúðir.
Að lokum
Almennur rekstrarkostnaður félagsins miðað við óbreyttan rekstur er of hár; meðan ekki lýkur verkefnum við endurskipulagningu lána og/eða nýframkvæmdir taka við þá verður þetta býsna knappt. Við höldum áfram að leita leiða; - flytjum okkur í ódýrari skrifstofu og drögum úr kaupum á þjónustu. Frekari endurskipulagning á starfsmannahaldi er til skoðunar. Miðað við óbreyttan fjölda íbúða í rekstri er augljóst að félagið mun ekki hafa framkvæmdastjóra í fullu starfi og reka skrifstofu með sama hætti til frambúðar.
Stjórn og starfsmenn Búseta á Norðurlandi óska félagsmönnum og fjölskyldum þeirra velfarnaðar í jólaundirbúningi - og gleði og friðar um hátíðirnar.
Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri