Fréttir

Ráðstöfun séreignar-lífeyrissparnaðar til kaupa á búseturétti

Nú liggur fyrir túlkun Rikisskattstjóra á lögum og reglum sem gilda fyrir ráðstöfun séreignarlífeyrissparnaðar vegna öflunar húsnæðis að því er kaup á búseturétti varðar.

Samkvæmt því leikur ekki vafi á að félagsmenn í Búseta á Norðurlandi geta nýtt sér þennan möguleika - bæði til að ráðstafa inn á niðurgreiðslu eldri lána sem tekin hafa verið til að kaupa búseturétt og einnig til að stofna nýjan búseturétt.

Nánari leiðsögn frá Ríkisskattstjóra er að finna hjá starfsfólki og á upplýsingasíðumwww.leiðrétting.is.

Umsókn um ráðstöfun séreignarlífeyrissparnaðar, bæði til greiðslu inn á fasteignaveðlán og vegna útgreiðslu í formi húsnæðissparnaðar, skal í öllum tilvikum koma fram með rafrænum hætti í gegnum umsóknarsvæði umsækjanda á leidretting.is. 

Hyggist umsækjandi sækja um ráðstöfun á séreignarlífeyrissparnaði inn á fasteignaveðlán verður hann, eðli málsins samkvæmt, að hafa tekið fasteignaveðlán til kaupa á búseturéttinum og getur hann eingöngu ráðstafað inn á það lán. Þá er jafnframt áskilið að það lán sé talið fram í kafla 5.2. á skattframtali sem lán til öflunar íbúðarhúsnæðis. Hafi það ekki verið gert er möguleiki á að óska eftir framtalsbreytingu, þ.e. að umrætt lán sé fært inn í kafla 5.2 á seinasta skattframtali. Það er gert með því að senda tölvupóst á adstod@leidretting.is

Sé hins vegar ekki komið að því að lán sé talið fram sökum þess að um nýtt fasteignaveðlán sé að ræða, sem nýtt hefur verið til öflunar íbúðarhúsnæðis frá seinustu framtalsskilum, óskar Ríkisskattstjóri við sérstaklega eftir gögnum um viðkomandi lán, þ.e. afriti af skuldabréfi lánsins og þinglýstum samningi um búseturéttinn.

Hyggist umsækjandi sækja um útgreiðslu séreignarlífeyrissparnaðar í formi húsnæðissparnaðar þarf ekki að liggja fasteignaveðlán að baki þeirri umsókn. Í umsóknarferlinu er óskað eftir eftirfarandi upplýsingum frá umsækjanda: fastanúmeri eignar, staðsetningu eignar, kaupdegi samkvæmt kaupsamningi og þinglýstum búsetusamningi.

Umsóknarferlið er mjög aðgengilegt, en alltaf er hægt að fá aðstoð frá starfsfólki Ríkisskattstjóra í síma 442-1900 á milli 9:30 og 15:30 eða á starfsstöðvum ríkisskattstjóra víðsvegar um landið. 

Ritað af framkvæmdastjóra 19.mars 2014 (á grundvelli upplýsinga frá Ríkisskattstjóra vegna höfuðstólsleiðréttingar.)