Fréttir

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi 2015

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi 2015 fór fram miðvikudaginn 10.júní.

Guðlaug Kristinsdóttir formaður félagsins fagnaði því  sérstaklega að aðalfundur ársins 2015 færi fram á venjulegum tíma – en nokkur undanfarin ár hefur félagið staðið í samningum við Íbúðalánasjóð og unnið að endurskipulagningu sem hefur tafið uppgjör og skýrslugerð til félagsmanna.

Formaður lýsti ánægju með að félagið væri komið í þokkalega stöðu varðandi veðsetningarhlutfall eigna og með óbreyttri eftirspurn mundi takast á ná góðu jafnvægi í rekstri með þeim aðahaldsaðgerðum sem settar voru í gang í framhaldi af síðasta aðalfundi.   Hún þakkaði stjórnarmönnum og félagsmönnum fyrir gott samstarf.

 

Húsnæðismálin og lagabreytingar

Eygló Harðardóttir húsnæðisráðherra fylgdi eftir ákvörðun Alþingis frá því í júní 2013 varðandi aðgerðir í húsnæðismálum með því að kalla til víðtæks samráðs um mótun húsnæðisstefnu.

 

Fjöldamargir aðilar lögðu að mörkum í það samráð. Skýrsla verkefnisstjórnar var kynnt 6.maí 2014.

 

Margvísleg vinnugögn sem komu fram í vinnu samráðsnefndar um húsnæðisstefnu voru gerðaðgengileg á vef velferðarráðuneytisins, sem telja verður til fyrirmyndar.

 

Tillögur verkefnisstjórnar gáfu fyrirheit um að meiningin væri að stórefla almennan leigumarkað og styrkja starfsramma húsnæðissamvinnufélaga þannig að fleirum yrði kleift að njóta viðunandi húsnæðisöryggis.   Tillögur gengu í þá átt að íbúðarekstur „án hagnaðarkröfu“ fengi forgang um fjármögnun og ætti kost á ívilnandi stuðningi sveitarfélaga og velvildarfjárfesta.