Fréttir

Endurnýjun eldri búsetusamninga - uppfært verðmæti

Í kjölfar lagabreytinga á árinu 2016 hefur Búfesti hsf(áður Búseti á Norðurlandi) breytt samþykktum sínum og þar með breytast skilmálar búsetusamninga til samræmis við ákvæði gildandi laga nr 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög.

Eldri samningar halda gildi sínu varðandi viðskipti með búseturétt og endurkaupaskyldu félagsins gagnvart óseldum búseturétti.  Nýir samningar hins vegar fela ekki í sér endurkaupaskyldu af hálfu félagsins – en gefa hins vegar rétthöfum óselds búseturéttar heimild til tímabundinnar leigu viðkomandi íbúðar og einnig heimila þeir að búseturétti sé skilað til félagsins án endurgreiðslu eða endurkröfu á hendur fyrri búseturéttarhafa.  

Allir rétthafar eldri samninga eiga val um hvort þeir skipta út samningum sínum og eignast þannig meiri sveigjanleika í viðskiptum þegar kemur að sölu á búseturétti – með því að ganga inn í skilmála nýrra samninga.

Stjórn Búfesti hsf hefur ákveðið að nýta tímabundna heimild í samþykktum félagsins til að bjóða öllum félagsmönnum og rétthöfum eldri samninga að skipa út samningi sínum og fá uppfærslu á væntu verðmæti búseturéttarins við sölu.   Sú uppfærsla miðast við miðgildi á milli núverandi framreiknaðs verðmætis og þess söluverðs sem búseturéttur viðkomandi íbúðar ber væri hann auglýstur til sölu í dag.    Heimildin er tímabundin og gildir til og með október 2017.  Áhugasamir búseturéttareigendur ættu að hafa samband við framkvæmdastjóra og meta hvernig slík breyting kemur út.   Ákveði félagsmaður að nýta sér þennan  tímabundna möguleika þarf að koma þeirri ósk skriflega á framfæri við félagið (með tölvupósti). 

Félagið mun annast skjalagerð og þinglýsingu endurnýjaðra samninga án sérstakrar gjaldtöku. (Grunntexti nýs samnings hér)

 

Akureyri 1.11.2016 (uppfært 30.1.2017)

F.h. Búfesti hsf

 Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri 

 

 

Selma Aradóttir er nýr starfsmaður á skrifstofu

Selma Aradóttir hefur verið ráðin í hlutastarf sem bókari.     Selma mun taka þátt í upplýsingagjöf og afgreiðslu í forföllum eða fjarveru framkvæmdastjóra.
Selma er boðin velkomin til starfa.

Halla Björk Garðardóttir hefur látið af störfum.   Við þökkum Höllu fyrir prýðilegt samstarf óskum henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Framkvæmdastjóri
(19.september 2016) 

Búseti á Norðurlandi verður Búfesti hsf

Búseti á Norðurlandi verður Búfesti hsf.

Á aðalfundi sínum 28.september 2016 samþykktu félagsmenn Búseta á Norðurlandi að félagið skyldi framvegis heita Búfesti.  Félagið er  húsnæðissamvinnufélag og starfar eftir lögum nr. 66/2003; skammstafað Búfesti hsf

Nafnbreytingin er hluti af endurskipulagningu vegna lagabreytinga og einnig til aðgreiningar frá Búseta í Reykjavík sem telur til skráðra réttinda gagnvart nafninu.

Nýjar samþykktir fela í sér talsverða breytingu gagnvart viðskiptum með búseturétti og kalla á ítarlega útfærslu á upplýsingagjöf til félagsmanna.    Lögin um húsnæðissamvinnufélög gera kröfu til þess  að félögin tryggi sjálfbæran rekstur og ábyrgt viðhald eigna.  Jafnfram leggja lögin  formlega lagt bann við því að greiða arð eða hagnað út úr félaginu til einstakra félagsmanna.

Á aðalfundinum voru reikningar ársins 2015 samþykktir.   Reikningurinn staðfestir batnandi rekstur og aukið verðmæti eigna.   Veðsetningarhlutfall íbúða er komið niður fyrir 80%.   Framkvæmdastjóri lagði áherslu á að enn sé alltof hátt vaxtastig á lánum frá Íbúðalánasjóði og óviðunandi að félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögunum sitji einir eftir án nokkurrar leiðréttingar sinna mála í kjölfar stökkbreytingar á verðtryggðum lánum.  Það verður áfram forgangsmál stjórnenda að knýja á um leiðréttingu á kjörum og skilmálum lána eða leita endurfjármögnunar svo unnt verði að létta  greiðslubyrði félagsmanna. 

Fyrir liggur að næstu 4 ár verða veittir stofnstyrkir til byggingar 2300 leiguíbúða fyrir lágtekjufólk.   Búseti á Norðurlandi/Búfesti  hsf hefur komið á framfæri áskorun til sveitarfélaga  á svæðinu um að koma til samstarfs um undirbúning og útfærslu á hagkvæmum íbúðabyggingum  í þeim ramma. Markmið félagsins er að nýta samlegð þannig að samhliða  verði unnt að byggja nokkurn fjölda íbúða fyrir breiðan hóp einstaklinga og fjölskyldna – til leigu og í búseturétti – og vinna með því að hagfelldri blöndun fólks í hverfum og kjörnum og  fjölbýlishúsum.

Félaginu er mikilvægt að geta þróast áfram til að bæta við hagkvæmum íbúðum og fjölga félagsmönnum og verða með því sterkari rekstrareining og hagkvæmari á flesta kanta.

Stjórn félagsins var endurkjörin en formaður er Guðlaug Kristinsdóttir, aðrir í stjórn eru Ingvar Björnsson varaformaður, Halldór Már Þórisson, Sigríður María Bragadóttir og Stefán Einar Jónsson.  Í Varastjórn sitja Baldur Ingi Karlsson, Hanna Dóra Markúsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Höskuldur  V Jóhannesson og Inda Björk Gunnarsdóttir.

 Framkvæmdastjóri félagsins er Benedikt Sigurðarson (869-6680)

 

 

 

 

Möguleikar á samstarfi við sveitarfélög

Á vorþingi 2016 voru samþykkt lög um svokallaðar "almennar íbúðir" sem byggðar verða með stofnstyrkjum ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar lágtekjufólki.

Á næstunni mun Íbúðalánasjóður auglýsa slíka stofnstyrki -  en styrkveiting getur gengið til opinberra íbúðafélaga/sveitarfélaga eða til annarra félaga neytenda sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Á fjórum árum verða byggðar 2300 íbúðir skv. samkomulagi verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnar og er styrkur háður því að sveitarfélag veiti slíkan stuðning af sinni hálfu og sæki um með viðkomandi íbúðafélagi.

Í þessu samhengi hefur framkvæmdastjóri fyrir hönd Búseta á Norðurlandi sent sveitarfélögum áskorun um að setja þessi byggingarmál á dagskrá sem fyrst og hefur boðið upp á samstarf af hálfu félagsins.    

Markmið Búseta á Norðurlandi er í þessu samhengi einkum að leita samstarfs um hagkvæma hönnun íbúða og vel undirbúin útboð þannig að unnt verði að byggja samhliða nokkurn fjölda íbúða fyrir almennan leigu og búseturéttarmarkað -  og jafnvel til að selja einstaklingum.

Ef vel tekst til ætti að vera möguleiki að nýta samlegð af útboðum og raðsmíði  með byggingu íbúða með stofnstyrk til að lækka kostnað og byggja ódýrari íbúðir sem unnt væri að staðsetja í fleiri sveitarfélögum þótt flestar slíkar íbúðir væru væntanlega byggðar á Akureyri ef til kemur. 
Félagið mundi þannig geta mætt fleiri hópum og aukið framboð ódýrari íbúða heldur en nú eru á markaðnum.

Afgreiðsla opin mánudaga-fimmtudaga kl 10-12


Afgreiðslan verður  opin mánudaga til fimmtudaga  - kl 10-12 -  en lokað á fostudögum.

Bent er á að tölvupósturinn vakir 24 tíma á sólarhring 7 daga vikunnar.

Áríðandi bilanatilkynningar berist á tölvupósti eða beinist til umsjónarmanns (898-3389) eða  framkvæmdastjóra í (SMS) 869-6680 Framkvæmdastjóri (uppfært 31.ágúst 2016)

Breyting á mánaðargjaldinu

Á fundi sínum 13.júní 2016 samþykkti stjórn að hækka fjármagnshluta mánaðargjaldsins um 1,5%.   Þannig hækkar heildargreiðsla rétt um 1% hjá flestum og kemur til framkvæmda með næstu innheimtu.
Vonandi helst verðbólgan lág út árið 2016 og þá mun ekki þurfa að koma til frekari hækkana.

Framkvæmdastjóri
(20.júní 2016)

Lagabreytingar kalla á endurskipulagningu

Nýsamþykktar lagabreytingar breyta talsvert miklu fyrir Búseta á Norðurlandi.

Nauðsynlegt verður að setja félaginu nýjar samþykktir og einnig þarf að endurmeta allan grunn að búsetusamningum.

Hvort breytingar ná til eldri samninga er ekki alveg ljóst á þessarri stundu - en stjórn félagsins fundar með lögmanni og endurskoðanda í næstu viku þar sem lagt verður mat á hvernig bregðast þurfi við.

Einnig er ljóst að félagið þarf að taka afstöðu til þess hvernig nauðsynlegt verður að aðgreina félagið frá Búseta í Reykjavík sem telur sig einan geta ráðstafað nafni sem inniheldur "búseta-hugtakið" vegna skráningar nafnsins.

Ákveðið verður með boðun aðalfundar um leið og því mati miðar áleiðis sem hér að ofan er vísað til.

(Framkvæmdastjóri 30.apríl 2016) 

Skrifstofan verður áfram í Skipagötu 14 - nú á 3ju hæð að norðan

Skrifstofa félagsins er flutt á 3.hæð - að Norðan (NV)  - og þar leigjum við rými af stéttarfélaginu Kjölur.   Við verðum sem sagt áfram í Alþýðuhúsinu við Skipagötu 14.

Opnunartími skrifstofunnar verður óbreyttur kl 10-12 virka daga.

Við erum með þessu að minnka verulega rými og spara í kostnaði í samræmi við ákvarðanir stjórnar frá síðasta ári.

(Framkvæmdastjóri uppfært 30.apríl 2016)

Lagabreytingar?

Óvissa ríkir nú um afgreiðslu frumvarps um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003.

Á síðustu dögunum fyrir páska komum við hjá Búseta á Norðurlandi ítrekuðum (sjá hér) skilaboðum til velferðarnefndar Alþingis sem vonandi mun skila því að við lokaafgreiðslu (ef til kemur) verði horfið frá kröfu um þvingaða markaðsvæðingu allra viðskipta með búseturétti.  

Vonandi mun alþingi einnig formfesta farveg fyrir samstarf neytenda við sveitarfélög og fyrirtæki um byggingu og rekstur leiguíbúða í húsnæðissamvinnufélagi - hvort sem væri eingöngu eða samhliða rekstri búsetuíbúða.

Búseti á Norðurlandi bíður átekta með ákvarðanir um aðalfund og félagsfundi -  þar til starfsáætlun alþingis liggur fyrir -  en þá fyrst væri unnt að ákveða hvenær aðalfundur félagsins yrði haldinn -  þar sem samþykktarbreytingar (vegna lagabreytinga) yrðu á dagskrá.

Ástæða er til þess að félagsmenn húsnæðissamvinnufélaganna fylgist með þessum hræringum og kynni sér gögnin sem tengt er við í þessum pistli.

(Framkvæmdastjóri 14.apríl 2016)

Til búseta og íbúa í Kjarnagötu 12-16


Ágætu búsetar og íbúar í Kjarnagötu 12-14-16

Kaupendur búseturéttar í íbúð Kjarnagötu 14-101 eru  þrír fatlaðir einstaklingar (með Downs), sem kaupa búseturéttinn sameiginlega.

Stjórn félagsins samþykkti að heimila þeim að starfrækja í íbúðinni sambýli fyrir sig (og mögulega með fjórða einstaklingi).   Heimilismenn njóta þjónustu alla daga allt að 24 tímum.  Á virkum dögum munu þeir dvelja í þjónustumiðstöð og ferðast með ferliþjónustu fatlaðra.

Til að gera þeim auðveldara að njóta þjónustunnar á eigin forsendum hefur verið sótt um heimild til að gera minniháttar breytingar innan dyra í íbúðinni.  Fyrir hönd félagsins hefur verið lögð áhersla á að opna á sérinngang í íbúðina  -  beint frá gangstétt framan við húsið -  þannig að þeim verði auðveldað aðgengi og öllum öðrum auðveldað að njóta bestu skilyrða í þessum húsum við Kjarnagötu 12-16.

Á húsunum í Kjarnagötu 12-16 hvílir sú kvöð að félaginu ber skylda til að laga einhvern lágmarksfjölda íbúða að sértækum þörfum fatlaðra og þessi heimild til að starfrækja sambýli er liður í því að rækja þá skyldu.

11.apríl 2016

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (869-6680)