Fréttir

Endurnýjun eldri búsetusamninga - uppfært verðmæti

Í kjölfar lagabreytinga á árinu 2016 hefur Búfesti hsf(áður Búseti á Norðurlandi) breytt samþykktum sínum og þar með breytast skilmálar búsetusamninga til samræmis við ákvæði gildandi laga nr 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög.

Eldri samningar halda gildi sínu varðandi viðskipti með búseturétt og endurkaupaskyldu félagsins gagnvart óseldum búseturétti.  Nýir samningar hins vegar fela ekki í sér endurkaupaskyldu af hálfu félagsins – en gefa hins vegar rétthöfum óselds búseturéttar heimild til tímabundinnar leigu viðkomandi íbúðar og einnig heimila þeir að búseturétti sé skilað til félagsins án endurgreiðslu eða endurkröfu á hendur fyrri búseturéttarhafa.  

Allir rétthafar eldri samninga eiga val um hvort þeir skipta út samningum sínum og eignast þannig meiri sveigjanleika í viðskiptum þegar kemur að sölu á búseturétti – með því að ganga inn í skilmála nýrra samninga.

Stjórn Búfesti hsf hefur ákveðið að nýta tímabundna heimild í samþykktum félagsins til að bjóða öllum félagsmönnum og rétthöfum eldri samninga að skipa út samningi sínum og fá uppfærslu á væntu verðmæti búseturéttarins við sölu.   Sú uppfærsla miðast við miðgildi á milli núverandi framreiknaðs verðmætis og þess söluverðs sem búseturéttur viðkomandi íbúðar ber væri hann auglýstur til sölu í dag.    Heimildin er tímabundin og gildir til og með október 2017.  Áhugasamir búseturéttareigendur ættu að hafa samband við framkvæmdastjóra og meta hvernig slík breyting kemur út.   Ákveði félagsmaður að nýta sér þennan  tímabundna möguleika þarf að koma þeirri ósk skriflega á framfæri við félagið (með tölvupósti). 

Félagið mun annast skjalagerð og þinglýsingu endurnýjaðra samninga án sérstakrar gjaldtöku. (Grunntexti nýs samnings hér)

 

Akureyri 1.11.2016 (uppfært 30.1.2017)

F.h. Búfesti hsf

 Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri