Fréttir

Breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003


Eins og flestir félagsmenn hafa eflaust tekið eftir þá eru búnar að vera í gangi breytingartillögur á gildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003.

Þeir aðilar sem hafa unnið á móti samvinnufélögum og vilja markaðsvæða öll viðskipti og rekstur - hafa því miður reynst mjög áhrifamiklir í því vinnuferli sem þegar hefur staðið yfir hátt á þriðja ár.

Framkvæmdastjóri og formaður Búseta á Norðurlandi hafa tekið þátt í mörgum fundum til undirbúnings á mótun húsnæðisstefnu til framtíðar - sem skilaði sér í skýrslu verkefnisstjórnar til ríkisstjórnar í maí 2014 (HÉR) 

Einnig hafa fulltrúar félagsins fylgt eftir sjónarmiðum og áherslum um "jafngildi og jafnræði allra félagsmanna óháð efnahag" - og því að viðskipti með búseturétti fari fram á föstu verði þannig að ekki komi til þess að einstakir félagsmenn hagnist umfram hlutdeild sína á kostnað annarra félagsmanna.
Einnig hefur verið haldið á lofti sjónarmiðum varðandi mikilvægi þess að félög af mismunandi stærð og á ólíkum markaðssvæðum fái skýran en jafnframt sveigjanlegan ramma í lögunum til að útfæra samstarf við sveitarfélög og velvildarfjárfesta (fyrirtæki) um stofnun og sjálfbæran rekstur húsnæðissamvinnufélaga sem stjórnað verður áfram af félagsmönnum sjálfum.

Harðdrægir hagsmunaaðilar vilja klárlega hrekja íbúðfélög neytenda sem rekin eru án hagnaðarkröfu (not-for-profit) út af markaðnum  -  og það þótt auðvelt sé að rökstyðja að skilvirkasta leiðin til að viðhalda "séreignarkerfi" á húsnæðismarkaði gæti einmitt verið að auðvelda ibúðafélögum almennings að koma inn á byggingamarkaðinn til að framleiða ódýrar og hagkvæmar íbúðir  -  sem mundu veita markaðsaðhald og þá lækka húsnæðiskostnað allra.   Slík félög gætu jafnvel fengið að selja einstaklingum takmarkaðan fjölda íbúða í hverjum kjarna - gegn kvöðum um að söluhagnaður síðar gangi allur til baka til félagsins sem lagði af mörkum í upphafi.

Stjórn Búseta á Norðurlandi fjallaði um stöðu mála á fundi sínum mánudaginn 21.03.2016.

Líklegt er að 3ja umræða um lagafrumvarp húsnæðisráðherra fari fram fljótt eftir páska -  og þá reynir á hvort síðustu "nánast neyðarköll"  frá Búseta á Norðurlandi - hafi náð eyrum þingmanna í velferðarnefnd - þannig að það takist að breyta frumvarpinu aftur í átt til grundvallarsjónarmiða 1)um rekstur án hagnaðarkröfu/hagnaðartækifæra einstakra félagsmanna 2) þar sem þinglýstur búsetusamningur er grundvallarplagg í réttarsambandi aðila -  3)og allir félagsmenn geta notið fyllsta jafnræðis í viðskiptum án yfirboða þeirra fjársterkari.

Fyrir þá félagsmenn sem vilja kynna sér nánar þær athugasemdir sem framkvæmdastjóri og formaður  -  hafa komið á framfæri við Alþingi -  með góðu samstarfi við stjórn félagsins - þá er gögn málsins að finna á vef alþingis á slóðinni sem er HÉR undir.  Þar er einnig að finna skriflegar ábendingar annarra og fundargerðir velferðarnefndarinnar.

Með góðri páskakveðju

(Framkvæmdastjóri 23.mars 2016)

Skattframtölin - forskráðar upplýsingar

Skattframtölin eru til frágangs þessa dagana.    Félagið hefur sent inn forskráningu á upplýsingum varðandi greiddan fjármagnskostnað (vexti+verðbætur) og áhvílandi eftirstöðvar lána á viðkomandi íbúðum.    Það skiptir máli vegna útreiknings á vaxtabótum fyrir alla sem sitja í almennum íbúðum.
Uppreiknað innlausnarverð búseturéttar mv.31.12.2015 er einnig skráð á framtöl (eignamegin).

Þeir sem selt hafa búseturétt á árinu 2015 þurfa að gera nánari grein fyrir viðskiptum - og leita upplýsinga um eftirstöðvar lána þegar uppgjör fór fram.
Einnig geta þeir sem hafa keypt búseturétt talið fram kostnað þess vegna - og mögulegan viðbótarkostnað vegna lána fyrir búseturétti.

Búsetar í félagslegum búsetuíbúðum eiga ekki rétt á vaxtabótum og fá ekki að draga fjármagnskostnað frá skattskyldum tekjum.    Verðmæti búseturéttar 31.12.2015 er skráð á þeirra framtöl einnig.

Ef eitthvað skortir á skráningu þá vinsamlega hafið samband við félagið - og best að senda tölvupóst þannig að auðvelt verði að svara þá leiðina.

Framkvæmdastjóri (9.mars 2016)