Fréttir

Lagabreytingar kalla á endurskipulagningu

Nýsamþykktar lagabreytingar breyta talsvert miklu fyrir Búseta á Norðurlandi.

Nauðsynlegt verður að setja félaginu nýjar samþykktir og einnig þarf að endurmeta allan grunn að búsetusamningum.

Hvort breytingar ná til eldri samninga er ekki alveg ljóst á þessarri stundu - en stjórn félagsins fundar með lögmanni og endurskoðanda í næstu viku þar sem lagt verður mat á hvernig bregðast þurfi við.

Einnig er ljóst að félagið þarf að taka afstöðu til þess hvernig nauðsynlegt verður að aðgreina félagið frá Búseta í Reykjavík sem telur sig einan geta ráðstafað nafni sem inniheldur "búseta-hugtakið" vegna skráningar nafnsins.

Ákveðið verður með boðun aðalfundar um leið og því mati miðar áleiðis sem hér að ofan er vísað til.

(Framkvæmdastjóri 30.apríl 2016) 

Skrifstofan verður áfram í Skipagötu 14 - nú á 3ju hæð að norðan

Skrifstofa félagsins er flutt á 3.hæð - að Norðan (NV)  - og þar leigjum við rými af stéttarfélaginu Kjölur.   Við verðum sem sagt áfram í Alþýðuhúsinu við Skipagötu 14.

Opnunartími skrifstofunnar verður óbreyttur kl 10-12 virka daga.

Við erum með þessu að minnka verulega rými og spara í kostnaði í samræmi við ákvarðanir stjórnar frá síðasta ári.

(Framkvæmdastjóri uppfært 30.apríl 2016)

Lagabreytingar?

Óvissa ríkir nú um afgreiðslu frumvarps um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003.

Á síðustu dögunum fyrir páska komum við hjá Búseta á Norðurlandi ítrekuðum (sjá hér) skilaboðum til velferðarnefndar Alþingis sem vonandi mun skila því að við lokaafgreiðslu (ef til kemur) verði horfið frá kröfu um þvingaða markaðsvæðingu allra viðskipta með búseturétti.  

Vonandi mun alþingi einnig formfesta farveg fyrir samstarf neytenda við sveitarfélög og fyrirtæki um byggingu og rekstur leiguíbúða í húsnæðissamvinnufélagi - hvort sem væri eingöngu eða samhliða rekstri búsetuíbúða.

Búseti á Norðurlandi bíður átekta með ákvarðanir um aðalfund og félagsfundi -  þar til starfsáætlun alþingis liggur fyrir -  en þá fyrst væri unnt að ákveða hvenær aðalfundur félagsins yrði haldinn -  þar sem samþykktarbreytingar (vegna lagabreytinga) yrðu á dagskrá.

Ástæða er til þess að félagsmenn húsnæðissamvinnufélaganna fylgist með þessum hræringum og kynni sér gögnin sem tengt er við í þessum pistli.

(Framkvæmdastjóri 14.apríl 2016)

Til búseta og íbúa í Kjarnagötu 12-16


Ágætu búsetar og íbúar í Kjarnagötu 12-14-16

Kaupendur búseturéttar í íbúð Kjarnagötu 14-101 eru  þrír fatlaðir einstaklingar (með Downs), sem kaupa búseturéttinn sameiginlega.

Stjórn félagsins samþykkti að heimila þeim að starfrækja í íbúðinni sambýli fyrir sig (og mögulega með fjórða einstaklingi).   Heimilismenn njóta þjónustu alla daga allt að 24 tímum.  Á virkum dögum munu þeir dvelja í þjónustumiðstöð og ferðast með ferliþjónustu fatlaðra.

Til að gera þeim auðveldara að njóta þjónustunnar á eigin forsendum hefur verið sótt um heimild til að gera minniháttar breytingar innan dyra í íbúðinni.  Fyrir hönd félagsins hefur verið lögð áhersla á að opna á sérinngang í íbúðina  -  beint frá gangstétt framan við húsið -  þannig að þeim verði auðveldað aðgengi og öllum öðrum auðveldað að njóta bestu skilyrða í þessum húsum við Kjarnagötu 12-16.

Á húsunum í Kjarnagötu 12-16 hvílir sú kvöð að félaginu ber skylda til að laga einhvern lágmarksfjölda íbúða að sértækum þörfum fatlaðra og þessi heimild til að starfrækja sambýli er liður í því að rækja þá skyldu.

11.apríl 2016

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (869-6680)