Fréttir

Möguleikar á samstarfi við sveitarfélög

Á vorþingi 2016 voru samþykkt lög um svokallaðar "almennar íbúðir" sem byggðar verða með stofnstyrkjum ríkis og sveitarfélaga og ætlaðar lágtekjufólki.

Á næstunni mun Íbúðalánasjóður auglýsa slíka stofnstyrki -  en styrkveiting getur gengið til opinberra íbúðafélaga/sveitarfélaga eða til annarra félaga neytenda sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni.

Á fjórum árum verða byggðar 2300 íbúðir skv. samkomulagi verkalýðshreyfingar og ríkisstjórnar og er styrkur háður því að sveitarfélag veiti slíkan stuðning af sinni hálfu og sæki um með viðkomandi íbúðafélagi.

Í þessu samhengi hefur framkvæmdastjóri fyrir hönd Búseta á Norðurlandi sent sveitarfélögum áskorun um að setja þessi byggingarmál á dagskrá sem fyrst og hefur boðið upp á samstarf af hálfu félagsins.    

Markmið Búseta á Norðurlandi er í þessu samhengi einkum að leita samstarfs um hagkvæma hönnun íbúða og vel undirbúin útboð þannig að unnt verði að byggja samhliða nokkurn fjölda íbúða fyrir almennan leigu og búseturéttarmarkað -  og jafnvel til að selja einstaklingum.

Ef vel tekst til ætti að vera möguleiki að nýta samlegð af útboðum og raðsmíði  með byggingu íbúða með stofnstyrk til að lækka kostnað og byggja ódýrari íbúðir sem unnt væri að staðsetja í fleiri sveitarfélögum þótt flestar slíkar íbúðir væru væntanlega byggðar á Akureyri ef til kemur. 
Félagið mundi þannig geta mætt fleiri hópum og aukið framboð ódýrari íbúða heldur en nú eru á markaðnum.

Afgreiðsla opin mánudaga-fimmtudaga kl 10-12


Afgreiðslan verður  opin mánudaga til fimmtudaga  - kl 10-12 -  en lokað á fostudögum.

Bent er á að tölvupósturinn vakir 24 tíma á sólarhring 7 daga vikunnar.

Áríðandi bilanatilkynningar berist á tölvupósti eða beinist til umsjónarmanns (898-3389) eða  framkvæmdastjóra í (SMS) 869-6680 Framkvæmdastjóri (uppfært 31.ágúst 2016)