Fréttir

Ný ríkisstjórn kynnti málefnasamning; 30. Nóvember 2017


Húsnæðismál (Texti málefnasamnings. Leturbr. Framkvæmdastjóra BS)

 

 

Öruggt húsnæði, óháð efnahag og búsetu, er ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Í því samhengi skiptir hvað mestu að hagstjórn stuðli að áframhaldandi lækkun vaxta. Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir umbótum í húsnæðismálum sem stuðla að eflingu og auknu jafnvægi húsnæðismarkaðar. Litið verður til ólíkra áskorana eftir landsvæðum í þessu samhengi og vanda sem stafar frá fyrri tíð. Tryggja þarf að á hverjum tíma séu aðgengilegar greiningar og tölfræði um húsnæðisframboð og -þörf út frá lýðfræðilegri þróun og skipulagsforsendum.

 

 

Skammtímaleiga íbúðarhúsnæðis til ferðamanna hefur aukist mikið á undanförnum árum og hefur sú þróun haft afgerandi áhrif á húsnæðismarkað víða um land.

 

 

— Setja þarf skýrari reglur um slíka starfsemi, í samvinnu við sveitarfélögin og ferðaþjónustuna, ásamt því að efla eftirlit með leyfislausri starfsemi. Kanna þarf forsendur þess að sveitarfélög hafi ríkari heimildir til að stýra leigumarkaði. Stuðla þarf að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa og samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, auknu gagnsæi á leigumarkaði og aukinni upplýsingagjöf um húsnæðismál.

 

 

Ríkisstjórnin mun fara í aðgerðir sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verða stuðningskerfi hins opinbera endurskoðuð þannig að stuðningurinn nýtist fyrst og fremst þessum hópum. Meðal annars verða skoðaðir möguleikar á því að hægt verði að nýta lífeyrissparnað til þessa. Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og fjárhagsmál verður aukið lóðaframboð og gjaldtaka vegna nýbygginga á dagskrá ásamt því að yfirfara stjórnsýslu vegna byggingaframkvæmda. Styðja þarf áfram við leigufélög sem eru rekin á félagslegum forsendum án hagnaðarsjónarmiða með stofnstyrkjum ríkisins.

 

 

Ríkisstjórnin mun taka markviss skref á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum en samhliða þeim verður ráðist í mótvægisaðgerðir til að standa vörð um möguleika ungs fólks og tekjulágra til að eignast húsnæði. Sérstök áhersla verður lögð á að gæta efnahagslegs stöðugleika. Ríkisstjórnin vill enn fremur skapa hvata og stuðning til þess að heimili sem það kjósa geti breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

 

 

Fasteignaverð er liður í neysluvísitölu hér á landi og mikil hækkun þess á undanförnum árum hefur af þeim sökum leitt til þess að höfuðstóll verðtryggðra lána hefur hækkað meira en ella. Ríkisstjórnin mun hefja skoðun á því hvernig megi fjarlægja fasteignaverð úr mælingu neysluvísitölunnar.

 

 

Þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn verður lækkaður

 

 

Markviss skref verða tekin á kjörtímabilinu til afnáms verðtryggingar á lánum og samhliða hugað að mótvægisaðgerðum í þágu ungs fólks og tekjulágra —

 

 

 

Umsögn:

 

 

Fyrir hönd Búfesti hsf  er ríkisstjórn boðin velkomin til starfa;  Eins og lesa má út úr textanum um húsnæðismál er ekki um að ræða neinar afmarkaðar aðgerðir og veltur því mjög á hvernig ráðherra málaflokksins tekst á við verkefnið – og ekki síst hvernig viðkomandi tekst til við að virkja almenning og fagaðila sem hafa þekkingu á húsnæðismálum til að leggja að mörkum.

 

 

Framkvæmdastjóri og stjórn Búfesti hsf munu hér eftir sem hingað til leita eftir jákvæðu samtali við ráðherra og velferðarnefnd ALþingis í því skyni að ná fram bættum starfsskilyrðum fyrir neytendadrifnum rekstri íbúðarhúsnæðis fyrir allar gerðir fólks og ólíka tekjuhópa.  

 

 

Þar væri um að ræða leiguhúsnæði, búseturéttaríbúðir og séreignaríbúðir – þar sem hagræði af samtakamætti og félagslegum lausnum verður skilað beint til neytenda.

 

 

Minnisblað 19.09.2017

Minnisblað 19.09.2017

Við ríkjandi  aðstæður á húsnæðismarkaði leitar Búfesti eftir samstarf við stéttarfélög og sveitarfélög og mögulega “velvildarfjárfesta” um átak til að efla og koma á fót neytendadrifnum íbúðafélögum sem víðast um landið.   Markmið slíkra íbúðafélaga;
  • Að skapa öllum skilvísum félagsmönnum/neytendum húsnæðisöryggi í búseturétti og leigurétti – þar sem engum er sagt upp nema menn brjóti af sér gagnvart nágrönnum og eignum félagsins.
  • Sjálfbær rekstur íbúða og án hagnaðarkröfu  -  þar sem ávinningi er skilað beint til neytendanna
  • Að lágmarka byggingarkostnað íbúða – og halda rekstrarkostnaði í hófi
Búfesti hsf hefur lýsir sig reiðubúið til samstarfs um þróun og nánari útfærslu slíkra hugmynda og vísar jafnframt til þess að Samtök Leigjenda á Íslandi (SLI) haf unnið að undirbúningi að stofnun íbúðafélaga.    Í september 2017 var formlega gengið til stofnunar á íbúðafélagi í Reykjanesbæ þar sem unnið verður að staðbundnum rekstri íbúða fyrir neytendur í nánara samstarf við sveitarfélagið og velvildafjárfesta.

Breyting á mánaðargjaldi - verðbólguspá

Verðbólga mælist allt að 2% það sem af er ári og er spáð svipaðri áfram. Greiðslubyrði allra lána Búfesti hækkar tilsvarandi.   

Stjórn Búfesti hsf tók ákvörðun á síðasta fundi (4./7.2017) um að meðalhækkun á fjármagnshluta mánaðargjalds verði 1,88% og kemur til framkvæmda með næstu innheimtu.

Einnig hækkar innheimta vegna þrifa í Kjarnagötu 12-14-16 um kr 200 pr íbúð á mánuði frá sama tíma.


Framkvæmdastjóri 25.júlí

KJARNAGATA 12-14-16

Talsvert átak hefur þegar verið gert við hreinsun á lóð og í kring um hús.   Við þökkum leið íbúum sem lögðu þar hönd að verki - með jákvæðum hætti.   Allt skiptir það máli.

Næstu daga verður unnið að því að þrífa húsið/gler að utan - og biðjum við um að íbúar sýni tillitssemi og varkárni í umgengni kring um lyftur og tæki.

Þegar lokið verður við þrifin utan við þá leggjum við áherslu á að eiturúðun vegna köngullóa fari fram -  eftir því sem meindýraeyðir metur þá þörf - og unnt verður að komast að.     

Enn er eftir að taka syrpu í að hreinsa út óskilamuni úr sameiginlegum geymslum.  Framkvæmdastjóri mun fylgja því eftir í nánara samstarfi við umsjónarmann og íbúana - -  en það mun því miður dragast fram á mánaðamótin.

Múrviðgerðir í undirgangi í gegn um húsið - eru komnar af stað.  Biðjum við um tillitssemi þess vegna en vonandi tekur það ekki alltof langan tíma.

Framkvæmdastjóri 24.júlí

Slátturinn og hirðing lóða

Þetta sumar byrjaði snemma og sprettan fer framúr öllum fyrri metum.
Við vorum sein út með okkar græjur og fengum bleytur sem tefja mikið fyrir og blokkera sláttinn einstaka daga alveg.
Erum undirmönnuð og leitum að liðsauka til að ná betur utan um verkefnið og höfum þegar auglýst.
Biðjum búsetana að sýna okkur þolinmæði - þótt ekki sé allt komið í topplag með hirðingu og hreinsun lóða  - -  menn gera sitt besta og við reynum að hleypa kostnaðinum ekki upp úr öllu valdi.

Framkvæmdastjóri 12.júní

Aðalfundur miðvikudag 7.júní kl 20


 

 

Aðalfundur

 

 Aðalfundur Búfesti hsf var haldinn 7.júní.  Á fundinum gerði stjórn og framkvæmdastjóri grein fyrir rekstri félagsins og þeim plönum sem eru uppi varðandi mögulegar byggingaframkvæmdir.

 

Hagnaðar Búfesti hsf árið 2016 nam 482 milljónum sem skýrist einkum af verulega hækkuðu eignaverði.  Bókfært verðmæti íbúða félagsins nam kr. 7.495.606.192 og áhvílandi veðskuldir kr. 5.520.035.073.

 

Félagsmenn eru 788 og íbúðir í rekstri eru 234 – á Akureyri og Húsavík (15).

 

Rekstrarstaða félagsins er í ágætu jafnvægi eftir endurskipulagningu í kjölfar Hrunsins 2008.  Áfram er unnið að því að leita hagræðingar og betri kjara á lánum – með endurfjármögnun eftir því sem mögulegt getur orðið.

 

Búfesti hefur leitað samstarfs við Akueyrarbæ og sveitarfélögin á NA-landi um byggingu leiguíbúða fyrir lágtekjufólk með stofnstyrkjum. Auk þess áformar félagið að byggja hagkvæmar íbúðir fyrir almenning og selja búseturétt sem nemur 5-30% af verðmæti eigna. Búfesti hefur boðið Félagi Eldri Borgara á Akureyri upp á samstarf   um byggingu leigu- og búseturéttaríbúða sem eldri borgarar mundu eignast forgang að.

 

Stjórn og varastjórn félagsins var öll endurkjörin á fundinum.   Formaður er Guðlaug Kristinsdóttir og aðrir í stjórn eru Ingvar Björnsson varaformaður, Halldór Már Þórisson, Sigríður María Bragadóttir og Stefán Einar Jónsson. Varastjórn skipa Baldur Ingi Karlsson, Höskuldur V Jóhannesson, Hanna Dóra Markúsdóttir, Inda Björk Gunnarsdóttir og Hólmfríður Guðmundsdóttir.

 

Framkvæmdastjóri Búfesti hsf er Benedikt Sigurðarson

Sumarstörfin; sláttur og hirðing - eiturúðun - viðhaldsverk

Sumarið er óvenjusnemma á ferðinni 2017.    

Nú þarf að hefja slátt með hraði - eftir því sem mannskapurinn okkar ræður við.

Meindýraeyðing/úðun er komin af stað -  og við biðjum um að íbúar upplýsi ef roðamaurinn heldur áfram að verða til vandræða.   Köngullær eru í verulegu magni - og verður tekin staða á þeim búskap mjög fljótlega með það fyrir augum að eitra þar sem nauðsyn virðist á.

Meiningin er að í sumar verði unnið að utanhússviðgerðum og málningu með meiri krafti en síðustu sumur.   Sama er að segja með lagfæringar á lóðum og köntum.     Það ræðst nánar af þeim mannskap sem við getum fengið til liðs við okkur.

Skorað er á alla íbúa að leggja að mörkum til að þrífa og sópa nærsvæði húsanna.

Gleðilegt sumar

Framkvæmdastjóri 22.maí

Aðalskipulag Akureyrar 2018-2030

Drög að aðalskipulagi Akureyrar 2018-2030 hafa legið fyrir um skeið.

Stjórn Búfesti hefur fjallað um drögin og fyrir hönd félagsins var meðfylgjandi áliti skilað innan auglýsts frests á sumardaginn fyrsta.

Stjórn Búfesti hsf 19.04.2017
Búfesti hsf ábendingar vegna vinnu við aðalskipulag Akureyrar 2018-2030
1
Varðar fyrirliggjandi gögn vegna vinnu við aðalskipulag 2018-2030
Búfesti hsf kt. 560484-0119/Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri
Fyrir hönd félagsins er því fagnað að fá tækifæri til að leggja inn hugmyndir og beinar tillögur í skipulagsferlinu – eða áður en endanlegar tillögur verða teknar til nánari og formlegri vinnslu.
Búfesti hsf er samvinnufélag neytenda sem byggt er utan um hugmyndir um hagkvæmni og öryggi með lágmarkskostnaði af sjálfbærum íbúðarekstri einstaklinga og fjölskyldna. Félagið er rekið án hagnaðarkröfu og með fortakslausu banni við að fjármagn sé tekið út úr félaginu í formi persónulegs hagnaðar einstakra félagsmanna. Rekstur félagsins skal vera sjálfbær til lengri tíma og félaginu verður ekki lokað eða slitið nema því aðeins að rekstrargrunnur félagsins verði úr sögunni – og þó aldrei þannig að þáverandi félagsmenn geti hagnast á slíkri rekstrarstöðvun. Félagið er opið öllum, því er stjórnað af félagsmönnum sjálfum og það starfar undir eftirliti opinberra aðila.
Staðan á húsnæðismarkaði 2017;
Verulegur íbúðaskortur er til staðar á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu eftir djúpa niðursveiflu og framkvæmdafrost 2009-2012.
Afkastageta byggingarfyrirtækja er takmörkuð – skortur á iðnaðarmönnum og fækkun fyrirtækja eftir Hrunið - - og að umtalsverðu leyti bundin öðru en íbúðabyggingum. Auk þess hafa fáeinir fjárfestar keypt verulegan hluta af nýsmíði og eldri eignum og nokkuð virðist um að einstaklingar séu “að hamstra” íbúðir.
Verðbóla er raunveruleg og leigumarkaðurinn er með augljós fákeppniseinkenni og þar er öryggi leigjenda afar takmarkað.
Takmarkað framboð húsnæðis hamlar nær örugglega hagstæðri íbúafjölgun á svæðinu þótt erfitt kunni að vera að leggja mat á slíkt.
Áfram heldur grisjun lögheimilisíbúða – með því að gistiþjónusta (AirB&B) og orlofsíbúðarekstur og kaup frítímabústaða innan bæjar fer einungis vaxandi meðan ekki eru settar neinar formlegri hömlur í skipulagi eða eftirfylgni skipulagskrafna aukin.
Búfesti hsf/áður Búseti á Norðurlandi/Akureyri, byggði umtalsvert hlutfall allra íbúða sem byggðar voru á árabilinu 2001-2010. Frá þeim tíma hefur félagið ekkert aukið við íbúðafjöldann, sem enn stendur í 219 (þar af 28 félagslegar búsetuíbúðir). Búmenn sem þjóna eldri borgurum hafa heldur ekki byggt upp á síðkastið. Félagsstofnun stúdenta á Akureyri rekur takmarkaðan fjölda íbúða en hefur ekki aukið við fjöldann um árabil.
Enginn aðili er í NFP-rekstri almennra leiguíbúða á Akureyri.
Stjórn Búfesti hsf 19.04.2017
Búfesti hsf ábendingar vegna vinnu við aðalskipulag Akureyrar 2018-2030
2
Forsendur, íbúasamsetning og mannfjöldaspár;
Mannfjöldaþróun á Akureyri sl 20 ár hefur ekki verið neitt óralangt frá íbúaþróun landsins í heild og er raunar eina byggðarlag utan 100 km Höfuðborgar-radíuss sem hefur notið einhverrar mannfjölgunar óslitið síðustu 25 ár. Aldurssamsetning íbúanna hefur hins vegar skekkst í öldrunarátt þannig að nauðsynlegt er að bregðast við þeirri þróun til að tryggja að á Akureyri verði áfram forsendur fyrir sjálfbært samfélag og hagfellda efnahags-/tekju-veltu.
Mjög mikilvægt er að forsendur aðalskipulags og einkum mannfjöldaspár verði endurmetnar miðað við að Akureyri setji sér markmið um aukna hlutdeild tiltekinna aldurshópa (yngri en 50 ára) – og beinlínis verði stefnt að aukinni fjölgun og umfram landsmeðaltal. Slík markmið þarf að útfæra með því að merkja byggingarland og þéttingarreiti til að taka við slíkri fjölgun umfram það sem fyrirliggjandi drög/tillögur gera ráð fyrir.
Til að almenningur og aðrir hagsmunaaðilar eigi auðveldara með að taka þátt í rökræðu um forsendur og markmið er einnig afar brýnt að framsetning með töflum og gröfum dragi fram mismunandi sviðsmyndir. Þar verði sýnt fram á hvernig mismunandi fjölgunarforsendur og íbúaþéttni og íbúðastærð kemur fram í mismunandi mikilli þörf fyrir nýjar íbúðir. Þannig verður undirbygging markmiða aðalskipulagsins gegnsæ og greinileg öllum sem vilja taka þátt í stefnumótun bæjarfélagsins.
Samkvæmt opinberum tölum Þjóðaskrár og Hagstofunnar voru íbúar á Akureyri 1. Desember 2016 18.294 og íbúðir í árslok 2016 voru 7748. Með einföldum útreikningi gerir það 2,3611 íbúar pr. íbúð. Í forsendum aðalskipulags bls. 78, kafla 3.2.3. er sagt að unnið sé með íbúaþéttni 2,7 einstaklingar pr íbúð og að sú þéttni muni í lok spátímans verða 2,4 pr íbúð. Þarna er um að ræða misræmi sem þörf er að rýna í og gera nánari grein fyrir ef ekki er verið að vinna með opinberar heildartölur fyrir bæjarfélagið.
Fyrir hönd Búfesti eru látnar í ljósi efasemdir um að grisjun íbúða muni ekki fremur aukast heldur en hitt frá því sem verið hefur síðustu 25 ár - ef engum almennum forsendum skipulags verður breytt. Heildarþörf fyrir nýjar íbúðir kynni því að vera verulega vanmetin og þörf fyrir byggingarsvæði umfram það sem fyrirliggjandi skipulagsdrög gera ráð fyrir. Búfesti hsf vísar til meðfylgjandi gagna varðandi þetta efni nánar. (Pdf.skjal).
Hvatt er til þess að eldri fjölbýlishúshverfi verið tekin til endurmats að því er varðar íbúðagerð og nýtingu svæða. Nefna má sérstaklega blokkir með 3,5-4 hæðir og án lyftu.
• Við Víðilund má t.d. mögulega auka byggingarmagn með því að byggja þvert á/við enda fjölbýlishúsanna (samhliða Þingvallastræti) og bæta um leið við 1-2 hæðum ofan á núverandi hús – um leið og byggðir verða nýir stigagangar með lyftu í húsunum. Auðvelt er að bæta tengingar og aðgengi þessa kjarna að verslunarmmiðstöðvum Kaupangi og Hrísalundi – stutt er í þjónustukjarna aldraðra við Víðilund og um leið góð nánd við Lundarskóla, íþróttahús, KA-svæðið og stutt í Sundlaug og framhaldsskóla.
Stjórn Búfesti hsf 19.04.2017
Búfesti hsf ábendingar vegna vinnu við aðalskipulag Akureyrar 2018-2030
3
Markmið aðalskipulagsins;
Fyrir hönd Búfesti hsf er hvatt til að eftirfarandi verði útfært í markmiðum aðalskipulags og nánar endurspeglað í framsetningu og rökstuðningi heildartillagna;
• Markmið um að laða kynslóðahópa á barneignaraldri 25-45 ára til búsetu á Akureyri verði lýst í aðalskipulagi – og það útfært nánar með því að lýsa nánar hvernig slíkt verður látið koma fram í tiltekinni íbúðagerð og rekstrarformum húsnæðis.
o Með nýju framboði á ódýrum íbúðum og/eða öríbúðum (undir 40 fm) mætti auka hreyfanleika eldri aldurshópa í húsnæði
o Með því að tryggja að á Akureyri verði til nýtt framboð hagkvæmra íbúða í félögum neytenda NFP – Þannig að ekki bara “fyrstu kaupendur” mundu njóta hagkvæmni og hagræðis af ódýrari byggingum í samfloti með byggingu stofnstyrkjaíbúða.
• Leigu og búseturéttaríbúðum sem reknar eru af neytendafélögum og án hagnaðarkröfu (NFP) verði gefinn skilgreindur forgangur að tilteknu hlutfalli lóða – í nýjum hverfum og/eða á þéttingarreitum - þannig að aðalskipulagið auðveldi aukið eða alveg nýtt framboð á ódýrum íbúðum sem reknar verða með lágmarkskostnaði og til frambúðar.
o Þar verði um að ræða íbúðir fyrir stúdenta
o Íbúðir fyrir aldrað
o Íbúðir fyrir lágtekjufólk samkvæmt skilgreiningu laga nr 52/2016
o Almennar íbúðir fyrir félög neytenda NFP þannig að hagfelld félagsleg blöndun verði tryggð í hverfum og kjörnum/fjölbýlishúsum
• Verðlagning lóða og gjaldskrá fyrir leigu- og búsetuíbúðir NFP verði þannig að hún fari aldrei uppfyrir 50% af lóðakostnaði vegna íbúða sem byggðar eru til að ganga kaupum og sölum í hagnaðarskyni.
• Formleg skilgreining verði tekin upp í skipulagi á því hvort íbúð er ætlað að vera leiguíbúð (í atvinnuskyni), leigu eða búsetuíbúð NFP eða hvort henni er ætað að vera í séreignarnýtingu sem eignaríbúð. Mögulega þarf að lýsa því nánar hvernig unnt væri og hvað þyrfti til að flytja íbúðir á milli slíkra eignaflokka.
• Að settar verði formlegar hömlur á heimildir íbúðareigenda til að breyta þeim úr séreign eða lögheimilsíbúð í íbúð þar sem rekin verður gistiþjónusta eða meiningin er að nýta sem frítímaíbúð.
• Byggingafélögum neytenda NFP verði gefið umtalsvert frelsi til að útfæra deiliskipulag byggingarreita og nýta mögulegan sveigjanleika í byggingarreglugerð til að ná markmiðum um ódýrari íbúðir fyrir almenning - jafnhliða því sem forgangshópum (lágtekjufólki, fötluðum, öldruðum og stúdentum) er tryggður virkari aðgangur að hagkvæmu húsnæði.
Stjórn Búfesti hsf 19.04.2017
Búfesti hsf ábendingar vegna vinnu við aðalskipulag Akureyrar 2018-2030
4
Almennt um áherslur Búfesti hsf árið 2017
Búfesti hsf leggur áherslu á að tryggt verði að íbúðagerðir verði mismunandi - í einstökum fjölbýlishúsum og íbúðakjörnum - - þannig að blöndun íbúa/félagsleg samsetning verði í góðu jafnvægi.
Samhliða íbúðum sem verða sérmerktar fyrir stúdenta, aldraða og/eða lágtekjuhópa verði byggðar amk. jafnmargar íbúðir (helst 3:1 sbr. Danska Almen Bolig kerfið) fyrir almenning án þess að flokkun væntanlegra íbúa verði byggð á tekjum við upphaf búsetunnar.
Félagið vill kanna möguleika á byggingu “öríbúða” sem nýta virka sameign - og hugsanlega einnig breytileg form af óhefðbundnum/fjölskylduíbúðum (samloku/með aukarými).
Félagið vill byggja sérbýlisíbúðir/sérbýlislíkar íbúðir - og minna fjölbýli (3-4 hæðir max) – í þéttri byggð þar sem lögð er áhersla á auðvelt aðgengi og hálkuvarnir - og mögulega bílskýli (ekki bílskúra eða dýran bílakjallara).
Búfesti hsf hefur lýst vilja til að eiga langtíma-samstarf við bæjaryfirvöld varðandi byggingu stofnstyrkjaíbúða skv. lögum nr 52/2016. Nú er lagt upp með það í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar (apríl 2017) að tímabil og umfang stofnstyrkjaprógramsins verði framlengt amk. til næstu 5 ára og umfang þess aukið.
Búfesti hsf hefur boðið upp á samstarf við Félag Eldri borgara um mögulega byggingu leigu- og búsetuíbúða og mögulega eignaríbúða innan félags – sem ráðstafað er með kvöðum um að byggingafélagið hafi fortakslaust endurkauparétt á íbúðum sem boðnar verða til sölu – og miðað við fast verð.
Miðað við gríðarlegan skort á íbúðarhúsnæði sem getur talist bæði hagkvæmt og ódýrt þá kappkostar Búfesti hsf að ná formbundnu samstarfi, annars vegar við Akureyrarbæ og hins vegar við fleiri sveitarfélög NA-lands, um að laga deiliskipulag byggingarreita að óskum félagsins miðað við að með því verði auðveldara að flytja inn forsmíðaðar húseiningar/einingahús sem standast allar kröfur um gæði. Tækifæri felast í því að nýta innfluttar forsmíðaðar lausnir – einkum vegna styrkingar krónunnar – og mun það geta skilað sér í verulega lægra verði. Með því að vinnan við byggingar verður forunnin í verksmiðju og hönnun að verulegu leyti stöðluð þá mun einnig verða unnt að stytta mjög byggingartíma og losna jafnframt við að auka á spennu á vinnumarkaðinum.

Meðfylgjandi eru gögn um mannfjölda og íbúðabyggingar  -  og framreikningur miðað við ólíkar forsendur.

Dagleg þrif í Kjarnagötu 12-16 - breyting

Sveinmar og Kristín fara ekki lengur með reglubundin þrif í sameigninni.  Þeim eru þökkuð góð störf og hefðu gjarna viljað halda því áfram ef ekki væri fyrir umdeilanlegar breytingar á tekjumörkum fyrir lífeyrisþega gagnvart skerðingum og skatti.

Nýtt fólk tekur nú við reglubundnum þrifum og væntum við góðs samstarfs við Mörtu og Ágúst.   

Eins og áður hefur komið fram þá þurfum við að meta það nánar hvort við ráðum "húsvörð" í hlutastarf til að sinna öllum ræstingum og aukinni þjónustu við íbúana.   Slík breyting, ef af henni verður, mun hafa nokkurn viðbótarkostnað í för með sér.

Vísað er til dreifibréfs frá síðasta mánuði þar sem kom fram að í framkvæmd er að setja upp öryggismyndavélar við innganga/bílakjallara og rafræna opnun á aðgengisdyr í bílakjallara.

Íbúar eru beðnir að koma ábendingum á framfæri varðandi þjónustu og þrifnað/umgengni í húsinu.  

Framkvæmdastjóri 
6.03.2017

Mánaðargjaldið breytist.

Í samræmi við ákvarðanir síðasta aðalfundar kemur fram hækkun á viðhaldsgjöldum (úr 0,45% í 0,5%/12) frá og með 1.janúar 2017.

Einnig hækkar þjónustugjald til rekstrarins úr kr. 3.500 pr mán i kr 5.000 pr. mán.

Markaðsverð og fasteignamat einstakra eigna félagsins breytist mismunandi mikið -  minni eignirnar hækka meira en almennt gildir um stærri eignirnar -  sem kemur fram í örlítið mismunandi breytingum á fjármagnskostnaði einstakra íbúða.   Hækkun á fjármagnslið er á bilinu almennt um 1-3% af þessum ástæðum -  en nokkrar íbúðir lækka fjármagsnkostnað af sömu ástæðum.

Fasteignagjöld og hækkun á tryggingaiðgjöldum koma fram með innheimtu vegna febrúar.

í janúar og febrúar kemur einnig fram leiðrétting á orkureikningum miðað við mælda notkun 2016.

Innheimta vegna þjónustu við heimilistæki þar sem félagið á öll tæki í eldhúsi og þvottahúsi er gerð eftir á - þegar búið er að greina ástæður bilana.

30.janúar 2017
Framkvæmdastjóri