Lóðir, plön og hús - tiltekt og þrif

Á fundi framkvæmdaráðs og stjórnar Búseta á Norðurlandi 14.apríl 2015 var lagt upp plan um að stjórn og starfsmenn félagsins reyndu að kalla eftir beinni þátttöku búsetanna og íbúða í einstökum hverfum við tiltekt og hreinsun í kring um hús og á plönum.  Með þessu mætti ná fram bæði þrifalegra umhverfi og ódýrari framkvæmd á tiltekt að vori.

Starfsmenn félagsins munu í því samhengi mæta á fyrirfram auglýstum degi kl 16-19 – með sópa og skóflur og tæki til flutninga þannig að sameiginleg vinna íbúanna skili sem bestum árangri með lágmarksfyrirhöfn hvers og eins.


Umsjónarmaður hefur undir höndum slöngur og kústa á löngu skafti til gluggaþvotta og er sjálfsagt að hafa samband við hann um aðgang að slíkum áhöldum til gluggaþvotta.

Við erum ekki að gera ráð fyrir runnaklippingum – með aðkeyptri vinnu – á fyrrihluta sumars 2015, en ef einhverjir búsetar hafa tök á að leggja að mörkum til slíks og þar sem það virðist brýnt þá er mikilvægt að menn verði í sambandi við framkvæmdastjóra um það nánar – og þá mundum við vera innan handar um verkfæri og/eða flutningatæki.

Um leið og vorar í alvöru förum við af stað með áburðargjöf á lóðir og bletti.   Við erum að skoða að kaupa öflugra sláttutæki – sem saxar og ekki þarf að taka upp eftir nema í undantekningartilfellum.  Með slíku tæki á að vera mögulegt að slá miklu oftar og spara um leið kostnað af förgun á grasi.

Við þvott á gluggum og veggjum Kjarnagötu 12-14-16 þarf að hafa öflug tæki og því er ekki unnt að ætla einstökum búsetum að sinna því.  Hins vegar er mikilvægt að allir leggi að mörkum til að þrífa aðkomu og við eigin dyr.    

Dagsetningar fyrir þrifadag í einstökum húsum/hverfum/kjörnum verða auglýstar nánar og með hliðsjón af veðri – og aðgangi að tækjum og mannskap okkar nánar.  

Vegna leiðindaveðurfars og álags í öðrum verkum hafa starfsmenn ekki getað fylgt þessum eftir sem skyldi.

Hvatt er til þess að búsetar í einstökum hverfum taki frumkvæði og setji sig í samband við framkvæmdastjóra eða umsjónarmann til að kalla eftir verkfærum og aðstoð.

 

Áréttað af framkvæmdastjóra 2.júní