Í kjölfar lagabreytinga á árinu 2016 hefur Búfesti hsf(áður Búseti á Norðurlandi) breytt samþykktum sínum og þar með breytast skilmálar búsetusamninga til samræmis við ákvæði gildandi laga nr 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög.
Eldri samningar halda gildi sínu varðandi viðskipti með búseturétt og endurkaupaskyldu félagsins gagnvart óseldum búseturétti. Nýir samningar hins vegar fela ekki í sér endurkaupaskyldu af hálfu félagsins – en gefa hins vegar rétthöfum óselds búseturéttar heimild til tímabundinnar leigu viðkomandi íbúðar og einnig heimila þeir að búseturétti sé skilað til félagsins án endurgreiðslu eða endurkröfu á hendur fyrri búseturéttarhafa.
Allir rétthafar eldri samninga eiga val um hvort þeir skipta út samningum sínum og eignast þannig meiri sveigjanleika í viðskiptum þegar kemur að sölu á búseturétti – með því að ganga inn í skilmála nýrra samninga.
Stjórn Búfesti hsf hefur ákveðið að nýta tímabundna heimild í samþykktum félagsins til að bjóða öllum félagsmönnum og rétthöfum eldri samninga að skipa út samningi sínum og fá uppfærslu á væntu verðmæti búseturéttarins við sölu. Sú uppfærsla miðast við miðgildi á milli núverandi framreiknaðs verðmætis og þess söluverðs sem búseturéttur viðkomandi íbúðar ber væri hann auglýstur til sölu í dag. Heimildin er tímabundin og gildir til og með október 2017. Áhugasamir búseturéttareigendur ættu að hafa samband við framkvæmdastjóra og meta hvernig slík breyting kemur út. Ákveði félagsmaður að nýta sér þennan tímabundna möguleika þarf að koma þeirri ósk skriflega á framfæri við félagið (með tölvupósti).
Félagið mun annast skjalagerð og þinglýsingu endurnýjaðra samninga án sérstakrar gjaldtöku. (Grunntexti nýs samnings hér)
Akureyri 1.11.2016 (uppfært 30.1.2017)
F.h. Búfesti hsf
Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri
Búseti á Norðurlandi verður Búfesti hsf.
Á aðalfundi sínum 28.september 2016 samþykktu félagsmenn Búseta á Norðurlandi að félagið skyldi framvegis heita Búfesti. Félagið er húsnæðissamvinnufélag og starfar eftir lögum nr. 66/2003; skammstafað Búfesti hsf
Nafnbreytingin er hluti af endurskipulagningu vegna lagabreytinga og einnig til aðgreiningar frá Búseta í Reykjavík sem telur til skráðra réttinda gagnvart nafninu.
Nýjar samþykktir fela í sér talsverða breytingu gagnvart viðskiptum með búseturétti og kalla á ítarlega útfærslu á upplýsingagjöf til félagsmanna. Lögin um húsnæðissamvinnufélög gera kröfu til þess að félögin tryggi sjálfbæran rekstur og ábyrgt viðhald eigna. Jafnfram leggja lögin formlega lagt bann við því að greiða arð eða hagnað út úr félaginu til einstakra félagsmanna.
Á aðalfundinum voru reikningar ársins 2015 samþykktir. Reikningurinn staðfestir batnandi rekstur og aukið verðmæti eigna. Veðsetningarhlutfall íbúða er komið niður fyrir 80%. Framkvæmdastjóri lagði áherslu á að enn sé alltof hátt vaxtastig á lánum frá Íbúðalánasjóði og óviðunandi að félagsmenn í húsnæðissamvinnufélögunum sitji einir eftir án nokkurrar leiðréttingar sinna mála í kjölfar stökkbreytingar á verðtryggðum lánum. Það verður áfram forgangsmál stjórnenda að knýja á um leiðréttingu á kjörum og skilmálum lána eða leita endurfjármögnunar svo unnt verði að létta greiðslubyrði félagsmanna.
Fyrir liggur að næstu 4 ár verða veittir stofnstyrkir til byggingar 2300 leiguíbúða fyrir lágtekjufólk. Búseti á Norðurlandi/Búfesti hsf hefur komið á framfæri áskorun til sveitarfélaga á svæðinu um að koma til samstarfs um undirbúning og útfærslu á hagkvæmum íbúðabyggingum í þeim ramma. Markmið félagsins er að nýta samlegð þannig að samhliða verði unnt að byggja nokkurn fjölda íbúða fyrir breiðan hóp einstaklinga og fjölskyldna – til leigu og í búseturétti – og vinna með því að hagfelldri blöndun fólks í hverfum og kjörnum og fjölbýlishúsum.
Félaginu er mikilvægt að geta þróast áfram til að bæta við hagkvæmum íbúðum og fjölga félagsmönnum og verða með því sterkari rekstrareining og hagkvæmari á flesta kanta.
Stjórn félagsins var endurkjörin en formaður er Guðlaug Kristinsdóttir, aðrir í stjórn eru Ingvar Björnsson varaformaður, Halldór Már Þórisson, Sigríður María Bragadóttir og Stefán Einar Jónsson. Í Varastjórn sitja Baldur Ingi Karlsson, Hanna Dóra Markúsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Höskuldur V Jóhannesson og Inda Björk Gunnarsdóttir.
Framkvæmdastjóri félagsins er Benedikt Sigurðarson (869-6680)