Fréttir

Skrifstofan verður áfram í Skipagötu 14 - nú á 3ju hæð að norðan

Skrifstofa félagsins er flutt á 3.hæð - að Norðan (NV)  - og þar leigjum við rými af stéttarfélaginu Kjölur.   Við verðum sem sagt áfram í Alþýðuhúsinu við Skipagötu 14.

Opnunartími skrifstofunnar verður óbreyttur kl 10-12 virka daga.

Við erum með þessu að minnka verulega rými og spara í kostnaði í samræmi við ákvarðanir stjórnar frá síðasta ári.

(Framkvæmdastjóri uppfært 30.apríl 2016)

Lagabreytingar?

Óvissa ríkir nú um afgreiðslu frumvarps um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003.

Á síðustu dögunum fyrir páska komum við hjá Búseta á Norðurlandi ítrekuðum (sjá hér) skilaboðum til velferðarnefndar Alþingis sem vonandi mun skila því að við lokaafgreiðslu (ef til kemur) verði horfið frá kröfu um þvingaða markaðsvæðingu allra viðskipta með búseturétti.  

Vonandi mun alþingi einnig formfesta farveg fyrir samstarf neytenda við sveitarfélög og fyrirtæki um byggingu og rekstur leiguíbúða í húsnæðissamvinnufélagi - hvort sem væri eingöngu eða samhliða rekstri búsetuíbúða.

Búseti á Norðurlandi bíður átekta með ákvarðanir um aðalfund og félagsfundi -  þar til starfsáætlun alþingis liggur fyrir -  en þá fyrst væri unnt að ákveða hvenær aðalfundur félagsins yrði haldinn -  þar sem samþykktarbreytingar (vegna lagabreytinga) yrðu á dagskrá.

Ástæða er til þess að félagsmenn húsnæðissamvinnufélaganna fylgist með þessum hræringum og kynni sér gögnin sem tengt er við í þessum pistli.

(Framkvæmdastjóri 14.apríl 2016)

Til búseta og íbúa í Kjarnagötu 12-16


Ágætu búsetar og íbúar í Kjarnagötu 12-14-16

Kaupendur búseturéttar í íbúð Kjarnagötu 14-101 eru  þrír fatlaðir einstaklingar (með Downs), sem kaupa búseturéttinn sameiginlega.

Stjórn félagsins samþykkti að heimila þeim að starfrækja í íbúðinni sambýli fyrir sig (og mögulega með fjórða einstaklingi).   Heimilismenn njóta þjónustu alla daga allt að 24 tímum.  Á virkum dögum munu þeir dvelja í þjónustumiðstöð og ferðast með ferliþjónustu fatlaðra.

Til að gera þeim auðveldara að njóta þjónustunnar á eigin forsendum hefur verið sótt um heimild til að gera minniháttar breytingar innan dyra í íbúðinni.  Fyrir hönd félagsins hefur verið lögð áhersla á að opna á sérinngang í íbúðina  -  beint frá gangstétt framan við húsið -  þannig að þeim verði auðveldað aðgengi og öllum öðrum auðveldað að njóta bestu skilyrða í þessum húsum við Kjarnagötu 12-16.

Á húsunum í Kjarnagötu 12-16 hvílir sú kvöð að félaginu ber skylda til að laga einhvern lágmarksfjölda íbúða að sértækum þörfum fatlaðra og þessi heimild til að starfrækja sambýli er liður í því að rækja þá skyldu.

11.apríl 2016

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (869-6680)

Breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003


Eins og flestir félagsmenn hafa eflaust tekið eftir þá eru búnar að vera í gangi breytingartillögur á gildandi lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003.

Þeir aðilar sem hafa unnið á móti samvinnufélögum og vilja markaðsvæða öll viðskipti og rekstur - hafa því miður reynst mjög áhrifamiklir í því vinnuferli sem þegar hefur staðið yfir hátt á þriðja ár.

Framkvæmdastjóri og formaður Búseta á Norðurlandi hafa tekið þátt í mörgum fundum til undirbúnings á mótun húsnæðisstefnu til framtíðar - sem skilaði sér í skýrslu verkefnisstjórnar til ríkisstjórnar í maí 2014 (HÉR) 

Einnig hafa fulltrúar félagsins fylgt eftir sjónarmiðum og áherslum um "jafngildi og jafnræði allra félagsmanna óháð efnahag" - og því að viðskipti með búseturétti fari fram á föstu verði þannig að ekki komi til þess að einstakir félagsmenn hagnist umfram hlutdeild sína á kostnað annarra félagsmanna.
Einnig hefur verið haldið á lofti sjónarmiðum varðandi mikilvægi þess að félög af mismunandi stærð og á ólíkum markaðssvæðum fái skýran en jafnframt sveigjanlegan ramma í lögunum til að útfæra samstarf við sveitarfélög og velvildarfjárfesta (fyrirtæki) um stofnun og sjálfbæran rekstur húsnæðissamvinnufélaga sem stjórnað verður áfram af félagsmönnum sjálfum.

Harðdrægir hagsmunaaðilar vilja klárlega hrekja íbúðfélög neytenda sem rekin eru án hagnaðarkröfu (not-for-profit) út af markaðnum  -  og það þótt auðvelt sé að rökstyðja að skilvirkasta leiðin til að viðhalda "séreignarkerfi" á húsnæðismarkaði gæti einmitt verið að auðvelda ibúðafélögum almennings að koma inn á byggingamarkaðinn til að framleiða ódýrar og hagkvæmar íbúðir  -  sem mundu veita markaðsaðhald og þá lækka húsnæðiskostnað allra.   Slík félög gætu jafnvel fengið að selja einstaklingum takmarkaðan fjölda íbúða í hverjum kjarna - gegn kvöðum um að söluhagnaður síðar gangi allur til baka til félagsins sem lagði af mörkum í upphafi.

Stjórn Búseta á Norðurlandi fjallaði um stöðu mála á fundi sínum mánudaginn 21.03.2016.

Líklegt er að 3ja umræða um lagafrumvarp húsnæðisráðherra fari fram fljótt eftir páska -  og þá reynir á hvort síðustu "nánast neyðarköll"  frá Búseta á Norðurlandi - hafi náð eyrum þingmanna í velferðarnefnd - þannig að það takist að breyta frumvarpinu aftur í átt til grundvallarsjónarmiða 1)um rekstur án hagnaðarkröfu/hagnaðartækifæra einstakra félagsmanna 2) þar sem þinglýstur búsetusamningur er grundvallarplagg í réttarsambandi aðila -  3)og allir félagsmenn geta notið fyllsta jafnræðis í viðskiptum án yfirboða þeirra fjársterkari.

Fyrir þá félagsmenn sem vilja kynna sér nánar þær athugasemdir sem framkvæmdastjóri og formaður  -  hafa komið á framfæri við Alþingi -  með góðu samstarfi við stjórn félagsins - þá er gögn málsins að finna á vef alþingis á slóðinni sem er HÉR undir.  Þar er einnig að finna skriflegar ábendingar annarra og fundargerðir velferðarnefndarinnar.

Með góðri páskakveðju

(Framkvæmdastjóri 23.mars 2016)

Skattframtölin - forskráðar upplýsingar

Skattframtölin eru til frágangs þessa dagana.    Félagið hefur sent inn forskráningu á upplýsingum varðandi greiddan fjármagnskostnað (vexti+verðbætur) og áhvílandi eftirstöðvar lána á viðkomandi íbúðum.    Það skiptir máli vegna útreiknings á vaxtabótum fyrir alla sem sitja í almennum íbúðum.
Uppreiknað innlausnarverð búseturéttar mv.31.12.2015 er einnig skráð á framtöl (eignamegin).

Þeir sem selt hafa búseturétt á árinu 2015 þurfa að gera nánari grein fyrir viðskiptum - og leita upplýsinga um eftirstöðvar lána þegar uppgjör fór fram.
Einnig geta þeir sem hafa keypt búseturétt talið fram kostnað þess vegna - og mögulegan viðbótarkostnað vegna lána fyrir búseturétti.

Búsetar í félagslegum búsetuíbúðum eiga ekki rétt á vaxtabótum og fá ekki að draga fjármagnskostnað frá skattskyldum tekjum.    Verðmæti búseturéttar 31.12.2015 er skráð á þeirra framtöl einnig.

Ef eitthvað skortir á skráningu þá vinsamlega hafið samband við félagið - og best að senda tölvupóst þannig að auðvelt verði að svara þá leiðina.

Framkvæmdastjóri (9.mars 2016)

Hækkað fasteignaverð á Akureyri og Norðurlandi lítilsháttar breyting á mánaðargjaldi

Mánaðargjald vegna janúar og febrúar 2016 tekur litlum breytingum í flestum íbúðum félagsins.   

Stjórn ákvað að hækka þjónustugjald til rekstrar úr kr. 3000 pr. mán í kr. 3500 pr. mán og fast gjald vegna lóðahirðingar hækkar um 100 kr. pr.mán.   

Einnig hækkar gjald vegna ræstingar í Kjarnagötu 12-16 úr 1200 í 1400 pr. mán.

Eins og áður hefur verið rifjað upp með bréfi 1.desember sl. þá ákvað aðalfundur 2015 að hækkun yrði á viðhaldsgjaldi (í 0,45% úr 0,4% brunabótamats) frá 1.janúar 2016.   

Vegna mjög mikilla hækkana á markaðsverði fasteigna frá 2014 (11,3%) sem koma fram í fasteignamati sumra íbúða langt umfram aðrar -  þá hækkar verðlagning allmargra íbúða um 1-2%  á meðan einstakar aðrar íbúðir eru óbreyttar eða lækka.   

Samkvæmt greiningu frá ASÍ hækka fasteignarfjöld á Akureyri um 5-6% sem kemur fram í mánaðargjaldi með febrúar - um leið og leiðréttingar vegna hita og rafmagns og hússjóða koma inn að fullu.

Vonandi heldur verðbólguþróun áfram að vera langt undir hrakspám Seðlabanka Íslands þannig að ekki þurfi að hækka fjármagnsgjöldin þess vegna alvega á næstunni.

Framkvæmdastjóri (1.febrúar 2016)

Forskráning á skattframtöl búseta

Samkvæmt venju skilar félagið upplýsingum til Ríkisskattstjóra vegna forskráningar á skattframtöl.

Allir búsetar sem eru inni í íbúðum/með búseturétt eiga að sjá uppreiknað verðmæti búseturéttar mv.31.12.2015.

Vaxtagjöld/fjármagnsgjöld (vextir+verðbætur að frádregnum afborgunum nafnverðs) eru skráðar hjá öllum búsetum í almennum íbúðum - sem og áhvílandi eftirstöðvar á viðkomandi eign.

Þeir sem hafa keypt búseturétt og flutt inn í íbúð á árinu 2015 - geta gert nánari grein fyrir kostnaði af viðskiptum og mögulega vaxtagjöldum ef lán hefur verið tekið fyrir innborgun á búseturéttargjaldi.

Allir sem hafa selt búseturétt og/eða flutt út úr íbúð á árinu 2015 þurfa sjálfir að leita upplýsinga hjá félaginu um eftirstöðvar lána (við útflutning) og gera grein fyrir sölu á búseturétti.

Framkvæmdastjóri (21.01.2016)


Breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög nr 66/2003

Fyrir Alþingi liggur frumvarp frá húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttur um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Verulegar breytingar verða gerðar skv. frumvarpinu og hafa framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi og formaður reynt að leggja að mörkum til að hafa áhrif á vinnslu laganna.    Félagið hefur skilað greinargerð vegna breytinganna - þar sem andmælt er hugmyndum um "markaðsvæðingu" allra viðskipta með búseturétti og ítarlegar ábendingar um mikilvægi þess að félög sem starfa á landsbyggðinni fái ásættanlegan lagaramma - til jafns við félög á miðsvæðum Höfuðborgarinnar.

Varað er við miðstýringu og þrengdum og íþyngjandi fyrirmælum - og hvatt er til þess af hálfu Búseta á Norðurlandi að löggjöf fyrir húsnæðisfélög sé fremur "rammalöggjöf" þar sem gert er ráð fyrir að breytilegar áherslur einstakra félaga verði nánar útfærðar í samþykktum - sem síðan þurfa að hljóta samþykki eftirlitsaðila.

13. janúar 2016 voru fulltrúar húsnæðissamvinnufélaganna boðaðir á fund velferðarnefndar Alþingis til að fylgja athugasemdum félagsins eftir.  Greinilega höfðu einstakir nefndarmenn velferðarnefndar kynnt sér efni ábendinga okkar og sýndi því áhuga að leita hagfelldari niðurstöðu fyrir þarfir sjálfstæðra húsnæðissamvinnufélaga sem mundu starfa staðbundið í ólíkum sveitarfélögum og með mismunandi áherslur.

Skrifað 13.01.2016
(Framkvæmdastjóri)

Dreifibréf til búseta/íbúa


1.desember 2015

Félagið stendur enn í glímu við afleiðingar hrunsins eins og fjöldamörg fyrirtæki og heimili.  Með samningum við Íslandsbanka og Íbúðalánasjóð árið 2012 væntum við þess að það mundi rætast verulega úr.   Því miður stóð  Íbúðalánasjóður alls ekki nægilega með félaginu við frágang þess uppgjörs og enn stöndum við í ströggli við stjórnendur Íbúðalánasjóðs vegna vaxtakjara.  Sannarlega væntum við þess að nýr forstjóri sjóðsins muni breyta um takt og beita sér fyrir því að stjórn Íbúðalánasjóðs leiðrétti án frekari tafa vextina á stórum hluta lána Búseta á Norðurlandi – sem líkt og nokkur önnur íbúðafélög neytenda greiða 4,95% vexti í umhverfi þar sem almenn kjör verðtryggðra lána eru nú á milli 3 og 4%.

Stjórnvöld hafa heldur ekki staðið við endurtekin fyrirheit um að leiðrétting stökkbreyttra lána nái til félagsmanna í húsnæðissamvinnufélögunum til jafns við aðra eigendur íbúðarhúsnæðis.  Þeirri kröfu er áfram haldið á lofti gagnvart ríkisstjórninni.

Félagið vinnur þess vegna af fullri alvöru að því að leita leiða til að endurfjármagna óhagstæð lán – og láta reyna á hvort hækkandi íbúðaverð á Akureyri geti ekki skilað félagsmönnum betri kjörum með verulegri endurskipulagningu lána.

Framtíðin - lagabreytingar

Búseti á Norðurlandi þarf að geta þróast og fjölgað íbúðum til að taka á móti nýjum félagsmönnum – og einnig bætt hagkvæmni í rekstri og þjónustu.   Það er verulegur fjöldi fólks sem ekki hefur handbært fé til að kaupa dýrar íbúðir á markaði en verðskuldar engu að síður að búa við húsnæðisöryggi og hófleg útgjöld.   Til að unnt verði að bjóða almenningi upp á ódýrari íbúðir þá þurfa sveitarstjórnir að leggja að mörkum með ívilnunum og lágum lóðagjöldum.  Einnig þarf að styrkja starfsramma félaga sem rekin eru án hagnaðarkröfu og gera farvegi til samstarfs neytenda og sveitarfélaga – með velvildarfjárfestum – skilvirka og gagnsæja.     Það veldur því verulegum vonbrigðum að ráðherra húsnæðismála skuli endurflytja óbreytt frumvarp um breytingu á lögum um húsnæðissamvinnufélög þar sem m.a. er gert ráð fyrir að viðskipti með búseturétt verði markaðsvædd þannig að fjársterkari einstaklingar geti á öllum tímum stigið fram fyrir aðra félagsmenn með yfirboðum – og einnig er opnað á þann freistnivanda að einstakir félagsmenn taki til sín allan ávinning sem gæti komið fram með hækkuðu húsnæðisverði  -  í stað þess að slíkur ávinningur skilaði sér til allra félagsmanna – eins og nú er í okkar félagi – þar sem viðskipti með búseturétti fara fram á föstu verði og alfarið í gegnum félagið.

Rekstur – viðhald/ mánaðargjald

Aðalfundur 2014 ákvað að fast gjald til viðhalds skyldi vera 0,4% af verðmæti eignar og deilast á 12 mánuði 2015 og auk þess er “frestað viðhaldsgjald” – 2% af brunabótamati eignar  innheimt við sölu búseturéttar og rýmingu íbúðar.   Með þessu  er viðhald undir þeim mörkum sem getur kallast sjálfbært fyrir félagið – og þess vegna getur slíkt einungis verið tímabundið.   Við finnum fyrir því á árinu -  að ekki er auðvelt  að halda kostnaði innan þess ramma  -  en samt höldum við ekki í horfinu með stöðu einstakra eigna.  Síðasti aðalfundur samþykkti að frá  áramótum hækki viðhaldsgjaldið í 0,45% af brunabótamati -  en eftir sem áður þurfum við að herða okkur í sparnaði og fresta öllum meiriháttar viðhaldsverkefnum.

Sorpflokkun á Akureyri og Húsavík kallar á aukinn kostnað neytenda – miðað við að menn taki ílát til flokkunar inn á sín svæði.    Mögulegt er að spara með því að búsetarnir sinni sjálfir allri sorpflokkun og skili á móttökustöðvar  -  og auk þess eiga allir á Akureyri að hafa fengið “hin vinsælu klippikort” þannig að stærri hlutum sé hægt að koma í förgun án verulegra aukaútgjalda.   Mikilvægt er að ræða þessa tilhögun meðal búsetanna og taka ákvarðanir ef menn sjá fyrir sér að hægt sé að gera betur en nú er – í verði og/eða þjónustu.

Framundan er vetrartíð.   Við munum kappkosta að haga snjómokstri og hálkuvörnum í hóflegu samræmi við þarfir  - um leið og við reynum að lágmarka kostnaðinn.  (Nokkrir vetur á undan hafa verið alltof dýrir.)

Með nýju ári kemur fram hækkun á fasteignagjöldum vegna verðmætisaukningar eigna og álagningarforma.   Einnig fylgir breyting á viðhaldsgjaldi eins og áður er nefnt - og tryggingar kosta meira.   Við jöfnum reikninga vegna rafmagns og hita í samræmi við notkun einstakra eigna.    Þessar breytingar koma að fullu fram með innheimtu fyrir febrúar.

Vísitöluhækkanir halda áfram að hlaða á greiðslubyrðina hjá öllum með verðtryggð lán - og á meðan ekki  fást leiðréttingar á málum félagsmanna þá munu hækkanir á mánaðargjaldinu fylgja verðbólgunni að því er fjármagnskostnaðinn áhrærir.

Með innheimtu fyrir nóvember sendum við öllum sundurliðað yfirlit þannig að menn  geti glöggvað sig á samsetningu mánaðargjaldsins fyrir einstakar íbúðir.

Að lokum

Almennur rekstrarkostnaður félagsins miðað við óbreyttan rekstur er of hár;  meðan ekki lýkur verkefnum við endurskipulagningu lána og/eða nýframkvæmdir taka við þá verður  þetta býsna knappt.   Við höldum áfram að leita leiða; -  flytjum okkur í ódýrari skrifstofu og drögum úr kaupum á þjónustu.   Frekari endurskipulagning á starfsmannahaldi er til skoðunar. Miðað við óbreyttan fjölda íbúða í rekstri  er augljóst að félagið mun ekki hafa framkvæmdastjóra í fullu starfi og reka skrifstofu með sama hætti til frambúðar.

Stjórn og starfsmenn Búseta á Norðurlandi óska félagsmönnum og fjölskyldum þeirra velfarnaðar í jólaundirbúningi -  og gleði og friðar um hátíðirnar.

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri

 

Hækkun á mánaðargjaldi með nóvember

Stjórn Búseta á Norðurlandi ákvað á fundi 12. október að vegna hækkandi greiðslubyrði lána  muni fjármagnskostnaður í mánaðargjaldi hækka  um 1,5% með nóvember 2015 -  en það þýðir ríflega 1% hækkun fyrir allar íbúðir.