Félagsmenn öðlast rétt til kaupa á búseturétti í þeirri röð sem þeir ganga í félagið (félagsnúmer). Félagsmenn geta sagt sig úr félaginu hvenær sem er, en tapa þá um leið rétti sínum til að búa í íbúðum félagsins eða fá úthlutað íbúð í eigu félagsins.
Allar íbúðir félagsins sem losna eru auglýstar lausar til umsóknar. Að jafnaði myndast biðlisti vegna viðkomandi auglýsingar sem gildir aðeins um þessa tilteknu íbúð.
Íbúðum félagsins er úthlutað í samræmi við almennar reglur sem staðfestar eru af stjórn félagsins. Þegar íbúðum er úthlutað að undangenginni auglýsingu er henni úthlutað til þess aðila sem hefur lægst félagsnúmer af þeim sem sækja um. Sá sem fengið hefur úthlutun kaupir búseturétt í íbúðinni. Búseturéttur er í flestum tilfellum 10% af stofnverði eða markaðsverðmæti eignarinnar. Með kaupum á búseturétti er viðkomandi félagsmaður þannig búinn að tryggja sér búsetu í viðkomandi íbúð svo lengi sem hann óskar að búa í íbúðinni og/eða félagið hefur hana í rekstri.
Búsetar geta flutt sig á milli íbúða félagsins eftir sömu reglum og gilda um úthlutanir - með þeim fyrirvara þó að um "sambærilegar íbúðir" getur stjórn sett takmarkanir.