Aðalfundur Búseta á Norðurlandi var haldinn 21.október

Búseti á Norðurlandi senn 30 ára.

 

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi var haldinn mánudaginn 21.október 2013.

 

Guðlaug Kristinsdóttir formaður setti fundinn og minntist Guðbjörns Þorsteinssonar varastjórnarmanns sem lést á árinu.

 

Á fundinum fluttu formaður félagsins Guðlaug Kristinsdóttir og framkvæmdastjóri Benedikt Sigurðarson skýrslur sínar og reikningar félagsins fyrir árið 2012 voru lagðir fram og samþykktir.

 

Við árslok voru skráðir félagsmenn 838 -  og hafði fjölgað um 66 frá síðasta ári.

 

Á árinu 2012 var gengið frá samkomulagi við Íbúðalánsjóð og Íslandsbanka um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins.   Uppgjör ársins er miðað við efndir þess samkomulags.

 

Niðurstöðutölur rekstrarreiknings sýna rekstrarhagnað upp á 194 milljónir og að teknu tilliti til matsbreytinga fasteigna og fjármagnsliða þá er hagnaður ársins 1.664 milljónir.

 

Með þessu uppgjöri kemur fram viðsnúningur á efnahag félagsins til hins betra þar sem leiðréttingar gengisbundins lánasamnings og afskrift á eftirstöðvum koma fram í lækkun skulda og tilsvarandi tekjufærslu.

 

Langtímalán félagsins eru bókfærð um áramót á 5.081 milljónir og matsvirði eigna á sama tíma 5.368 milljónir.   Veðsetningarhlutfall íbúða er þannig rúmlega 94%.  

 

Innlausnarvirði búseturéttar er  uppreiknað 505 milljónir og bókfært eigið fé neikvætt um 212 milljónir.

 

Á fundinum kom fram að félagið heldur á varasjóði til að mæta skammtíma sveiflum í rekstri og uppsafnaðri þörf fyrir viðhald.   Rekstrarstaðan verður áfram mjög þröng meðan verðbólga hækkar greiðslubyrði verðtryggðra lána og vaxtastigi er haldið svo háu sem raun ber vitni.

 

Fastar greiðslur til viðhalds voru hækkaðar í 0,45% af brunabótamatsverði sem dreifist á 12 mánuði og við skil íbúðar í 1,8% brunabótamats.    Með þessu reikna stjórnendur með að fjármagna 0,7% jafnaðarviðhald eigna á árinu 2014 með samtímainnheimtum, en að auki er svigrúm til ráðstöfunar úr varasjóði þannig að viðhald árin 2013-2014 ætti að geta náð verðmæti allt að 0,8%.

 

Að mati framkvæmdastjóra og stjórnar  er staða félagsins og kjör búsetanna ásættanleg miðað við þá þröngu stöðu sem skapaðist í kjölfar Hrunsins.     Árangur af endurskipulagningu verður að teljast góður.    Eftir sem áður er stórt hlutfall lána félagsins með allt of háa verðtryggða vexti (4,95%) og því mikilvægt að unnt verði að endurfjármagna þau lán eða knýja fram lækkun vaxta.   Um leið mun félagið að sjálfsögðu leita allra leiða til að kalla eftir efndum á fyrirheitum ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu stökkbreyttra lána.

 

Á fundinum var samþykkt eftirfarandi ályktun um það efni;

 

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi, haldinn 21.október 2013 skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja að markmið um sanngjarna leiðréttingu verðtryggðra lána nái fram að ganga sem fyrst.   Fundurinn treystir því  að sambærilegar leiðréttingar nái til húsnæðissamvinnufélaganna og sjálfseignarfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni eins og til einstaklinga í eigin íbúðum.

 

Mikil eftirspurn er eftir hagkvæmu húsnæði á Akureyri um þessar mundir.   Með vísan til þess og almennt jákvæðari skilnings á þörfum húsnæðisfélaga sem rekin eru án hagnaðarkröfu munu stjórnendur Búseta á Norðurlandi leita allra leiða til að ná fram hagstæðari lánakjörum fyrir félagið og freista þess að kaupa eða byggja nýjar íbúðir um leið og hagkvæm fjármögnun stendur til boða.

 

Framkvæmdastjóri minnti á að 27.mars 2014 verður Búseti á Norðurlandi 30 ára.  Á fyrsta mánuðinum skráðu sig  138 stofnfélagar.     Á ýmsu gekk í starfsemi húsnæðissamvinnufélaganna og harkaleg pólitísk andstaða var rekin gegn félagsforminu lengi vel.    Framkvæmdastjóri taldi að nú væru framtíðarhorfur hagstæðar húsnæðissamvinnufélögum og rekstri íbúðafélaga  án hagnaðarkröfu.

 

 Í stjórn félagsins voru kjörin á fundinum;  Guðlaug Kristinsdóttir (endurkjörin) formaður,  Ingvar Björnsson (endurkjörinn) varaformaður, Sigríður María Bragadóttir, Hákon Hákonarson og Stefán Einar Jónsson.    Í varastjórn voru kjörin; Halldór Már Þórisson, Hanna Dóra Markúsdóttir, Hildur Eir Bolladóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir og Jón Ingi Einarsson.

 

Fundarstjóri á fundinum var Sigmundur Guðmundsson lögmaður og Halla Björk Garðarsdóttir ritaði fundargerð.

 

Nánari upplýsingar hjá framkvæmdastjóra

 

Benedikt Sigurðarsyni í síma 869-6680

(Ritað 22.10.2013, framkvæmdastjóri)