Reglur um dýrahald

Reglur um dýrahald í íbúðum Búfesti hsf   

Eyðublað til umsóknar um dýrahald/skráningareyðublað

Reglur og samþykktir Akureyrarbæjar um dýrahald má sjá hér:  https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/reglur-og-samthykktir/annad/samthykkt-um-kattahald-i-akureyrarkaupstad  

https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/reglur-og-samthykktir/annad/samthykkt-um-hundahald-i-akureyrarkaupstad

 (Gildandi og svobreyttar reglur fela í áfram í sér að búsetar geta  fengið takmarkaðar heimildir til dýrahalds í íbúðum félagsins.) 


Reglur um dýrahald í íbúðum Búfesti hsf                           

1.    Dýrahald í íbúðum Búfesti hsf er því aðeins heimilt að stjórn félagsins hafi veitt til þess leyfi í samræmi við samþykktir félagsins og reglur þessar.  Framkvæmdastjóri fer með umboð stjórnar gagnvart leyfisveitingum nema þegar einhver sértæk frávik eða viðbrögð koma til þar sem umfjöllun stjórnar er nauðsynleg.

2.    Samþykki eiganda íbúðar er almennt forsenda fyrir því að leyfi til dýrahalds sé veitt hjá viðkomandi sveitarfélagi.  Því skal sækja um leyfi til skrifstofu félagsins og leggja fram öll þau gögn sem almennt er krafist í samræmi við gildandi lög og reglur um dýrahald, ss. vottorð frá dýralækni og staðfestingu á tryggingum - samhliða eða áður en sótt er um til sveitarfélags.    Eldri skráning hunda sem skráðir voru í öðrum íbúðum halda ekki gildi og þarf nýja umsókn þegar flutt er inn í nýja íbúð eða milli íbúða Búfesti hsf.

3.    Leyfisskyld dýr eru eftirfarandi;

a.    a. Hundar

b.    b. Kettir

c.    Fuglar (sem ekki eru eingöngu hafðir í búrum)

d.    Nagdýr (sem ekki verða eingöngu höfð í búrum)

 Ekki er gert ráð fyrir heimildum fyrir öðrum dýrategundum í húsnæði félagsins. Rétt  er að tilkynna og skrá dýr sem haldin eru í húsnæði félagsins þó þau séu eingöngu höfð í búrum, þar með talda fugla og einnig nagdýr og öll stærri fiskabúr. Viðkomandi búseti skal skrá dýr sem haldin verða og skal þar með vera viðbúinn því að umsjónarmaður/starfsmenn félagsins sinni eftirliti með dýrahaldinu – og komi inn á heimili í því skyni.

4.    Tímabundið leyfi til dýrahalds fæst gagnvart einhverjum eða öllum eftirfarandi skilyrðum;

a.    Að góðar ástæður séu til dýrahaldsins; þ.e. ef viðkomandi hyggst halda björgunarhund, þarfnast aðstoðar frá blindrahundi eða aðrar jafngildar.

b.    Mikilvægir hagsmunir liggi í því fyrir viðkomandi fjölskyldu t.d. vegna uppeldis barns eða umönnunar fatlaðra og/eða aldraðra.

c.    Að búseturéttarhafi geti tryggt að dýrahald hans valdi ekki ónæði fyrir nágranna – né að það valdi skemmdum á húsnæði og umhverfi.

Umsækjandi skilar mynd af viðkomandi dýri sem leyfis er óskað fyrir. Leyfi til dýrahalds gildir í eitt ár í senn.  Komi ekki fram kvartanir eða vandkvæði sem leitt geta til afturköllunar leyfisins framlengist leyfið sjálfkrafa meðan dýrið lifir og ekki skapast einhverjar aðrar aðstæður sem leiða til leyfissviptingar.    

5.    Leyfi til hundahalds fæst ekki í  fjölbýlishúsaíbúðum Búfesti hsf sem eru fyrir ofan jarðhæð og ekki heldur á jarðhæð nema íbúðir  hafi sérinngang – óháðan öðrum íbúðum.   Um leyfi til að halda kött eða önnur gæludýr í fjölbýlishúsum sem ekki hafa sérinngang skulu gilda þrengri takmarkanir en í öðru húsnæði félagsins.   

6.    Sækja þarf um leyfi til dýrahalds í einstökum íbúðum til skrifstofu félagsins/framkvæmdastjóra í umboði stjórnar.  Félagið gerir öðrum íbúum fjöleignarhúss þar sem aðkoma er sameiginleg grein fyrir umsókn og gefur kost á athugasemdum og aflar eftir atvikum skriflegs samþykkis áður en afgreiðsla á leyfisbeiðni - eða ósk um framlengingu er tekin fyrir.  Samþykkis íbúa er óheimilt að afla með því að ganga í íbúðir og hitta búsetana  fyrir einn og einn.  Framkvæmdastjóri/starfsmenn félagsins hafa samráð við umsjónarmenn dýraleyfa  hjá Akureyrarbæ/Norðurþingi varðandi leyfisveitingu í öllum tilvikum.

7.    Félagsmenn geta ekki gengið að því vísu að leyfi fáist fyrir hundahaldi í öllum íbúðum sem uppfylla almenn skilyrði þar um.  Markmið félagsins er að félagsmenn sem einhverra hluta vegna vilja forðast að búa í næsta nágrenni við hunda eigi kost á íbúðum í húsum án hundahalds.    Framkvæmdastjóri Búfesti hsf  skal fylgja því eftir að allt að þriðjungur fjórbýlishúsa félagsins þar sem inngangur er án aðgreiningar sé án hundaleyfa.  Ekki verða gerðar sérstakar takmarkanir af hálfu félagsins varðandi hundahald í raðhúsum eða sérbýlisíbúðum með afmarkaða lóð til sérnota eða þar sem inngangur er skilinn frá öðrum íbúðum.

8.    Leyfi til að halda dýr í íbúðum Búfesti hsf skulu án undantekninga háð eftirfarandi skilyrðum:

a.    Farið verði að öllu leyti eftir almennum skilmálum laga og eftir reglum viðkomandi sveitarfélags.

b.    Dýrið verði aldrei haft úti við nema í/á aflokuðu rými/svæði og annars aldrei laust.

c.    Dýrið valdi ekki ónæði eða skemmdum

Komi upp einhver skilgreindur og alvarlegur vandi meðal nágranna, t.d. bráðaofnæmi – skal framkvæmdastjóri félagsins afturkalla leyfi til dýrahalds og gefa  búsetum sanngjarnan fyrirvara til flutnings eða viðbragða. 

9.    Leyfi til dýrahalds í almennum íbúðum er veitt til eins árs í senn og framlengist sjálfkrafa ef ekki koma upp kvartanir eða vandkvæði.  Komi fram kvartanir getur félagið kallað eftir því að  umsókn sé endurnýjuð árlega með staðfestum gögnum.  Framkvæmdastjóri getur síðan veitt framlengingu á gildandi leyfum í eitt ár ef skilyrðum hefur verið fullnægt.   Berist alvarlegar athugasemdir vegna dýrahalds skal framkvæmdastjóri taka afstöðu til afturköllunar á leyfi viðkomandi – og/eða meta hvort forsendur séu til framlengingar á leyfinu. Framkvæmdastjóri tilkynnir þá umsjónaraðilum dýrahalds hjá Akureyrarbæ/Norðurþingi um afturköllun ef til slíks kemur en gerir almennt grein fyrir athugasemdum og kvörtunum sem berast vegna leyfisskyldra dýra.

10. Stjórn Búfesti hsf skal leggja á leyfisgjald þar sem dýr eru haldin og skal einnig ákvarða fjárhæð og form trygginga sem leyfishöfum er  gert að setja fyrir dýrahaldi sínu.

11. Haldi búsetar/leigjendur í íbúðum félagsins dýr án tilskilinna leyfa og skráningar ber framkvæmdastjóra að aðvara viðkomandi og gera stjórn félagsins jafnframt aðvart um hið ósamþykkta dýrahald.  Verði ekki bætt úr án tafa eða eðlilegar skýringar gefnar skal framkvæmdastjóri  Búfesti hsf grípa til ítrustu viðurlaga – og uppsagnar á búseturétti í samræmi við skilmála búsetusamnings aðila ef nauðsyn krefur. 

12. Ákvæði til bráðabirgða; Þar sem þegar hefur verið veitt leyfi til hundahalds til búseta sem búa fyrir ofan jarðhæð skal leyfi fyrir viðkomandi hundi halda gildi á meðan dýrið lifir og ekkert kemur upp á sem réttlætir eða krefst þess að það verði afturkallað.

Til staðfestingar í stjórn Búfesti hsf