Búfesti í hnotskurn

Hvað viltu vita um Búfesti?

Búfesti er spennandi kostur fyrir fjölskyldur og einstaklinga á öllum aldri.
Fasteignirnar eru af fjölbreyttum stærðum og gerðum á Akureyri og Húsavík
Fyrirkomulagið er ekki flókið en þó er mikilvægt að kynna sér vel hvað það felur í sér.
Hér er að finna svörin við þeim spurningum sem kunna að vakna.

Félagsaðild

Félagsaðild í Búfesti er öllum opin, óháð aldri eða búsetu. Með því að gerast félagsmaður í Búfesti átt þú möguleika á fjölbreyttu úrvali íbúða á Akureyri og Húsavík.

http://bufesti.is.dragora.stefna.is/is/ganga-i-felagid 

Allir félagsmenn fá úthlutað félagsnúmeri þegar þeir ganga í félagið. Númerið sem úthlutað er tekur mið af hvenær gengið er í félagið

Hvað er Búseturéttur?

Búseturéttur er millivegur milli leigu og eignar. Lagt er fram eigið fé til að kaupa búseturéttinn og svo greitt mánaðarlegt búsetugjald. Aðeins þú sem búseturéttarhafi getur ákveðið að selja búseturéttinn. Búseturéttur er óuppsegjanlegur að hálfu félagsins nema búsetuhafi standi ekki við skilmála búsetusamnings.  Ef þú ákveður að selja er búseturétturinn uppreiknaður á grundvelli vísitölu neysluverðs.

Kaup á Búseturétti og úthlutanir

Félagsmenn öðlast rétt til kaupa á búseturétti í þeirri röð sem þeir ganga í félagið (félagsnúmer). Félagsmenn geta sagt sig úr félaginu hvenær sem er, en tapa þá um leið rétti sínum til að búa í íbúðum félagsins eða fá úthlutað íbúð í eigu félagsins.

Allar íbúðir félagsins sem losna eru auglýstar lausar til umsóknar á vef Búfesti undir "íbúðir í boði" sem og á samfélagsmiðlum.  Að jafnaði myndast biðlisti vegna viðkomandi auglýsingar sem gildir aðeins um þessa tilteknu íbúð.

Þegar íbúðum er úthlutað að undangenginni auglýsingu er henni úthlutað til þess aðila sem hefur lægst félagsnúmer af þeim sem sækja um. Sá sem fengið hefur úthlutun kaupir búseturétt í íbúðinni. Búseturéttur er í flestum tilfellum 10% af fasteignaverði eignarinnar en getur þó verið á bilinu 5% - 30%.   Með kaupum á búseturétti er viðkomandi félagsmaður þannig búinn að tryggja sér búsetu í viðkomandi íbúð svo lengi sem hann óskar að búa í íbúðinni og/eða félagið hefur hana í rekstri.

Búsetar geta flutt sig á milli íbúða félagsins eftir sömu reglum og gilda um úthlutanir.

Mánaðarlegt búsetugjald

Búseturéttarhafar greiða mánaðarlegt búsetugjald sem samanstendur af fjármagnskostnaði íbúðar, skyldutryggingum, fasteignagjöldum, hússjóði, þjónustugjöldum og framlagi í viðhaldssjóði. Almenna reglan er að rafmagn og hiti í sameign fjöl-/fjórbýlishúsa og hiti í íbúð er innheimt með búsetugjaldinu. Rafmagn vegna búsetuíbúða greiða búsetar sjálfir samkvæmt mæli á eigin kennitölu. Þó eru undantekningar á þessu og er það tekið fram í auglýsingu hverju sinni hvernig þessu er háttað.  Þegar horft er til alls sem er innifalið í mánaðargjaldinu sést að um hagkvæman kost er að ræða.

Viðhald og endurbætur

Búseturéttarhafi getur staðið að minniháttar breytingum og eða endurbótum án sérstaks samráðs við Búfesti svo fremi sem þær rýri ekki gæði íbúðar.

Allar meiriháttar breytingar á búseturéttaríbúðum eru háðar fyrirfram samþykki félagsins

Mikilvægt er að hafa í huga að sú meginregla gildir ávallt að skila skal íbúð í sambærilegu ástandi og tekið var við henni að teknu tilliti til aldurs og eðlilegs slits.

Íbúum er skylt að tilkynna skriflega til Búseta tjón og/eða skemmdir á fasteigninni sem þeir verða varir við eða valda á netfangið bufesti@bufesti.is Sérstaklega er mikilvægt að kalla til aðstoð ef um leka er að ræða eða annað tjón sem veldur skaða. Vanræksla íbúa getur skapað honum skaðabótaskyldu ef ekki er brugðist við.

Framleiga búseturéttar

Búsetuhafa er ekki heimilt að framleigja íbúð með búseturétti nema með samþykki stjórnar Búfesti og þá því aðeins að búseturéttarhafi hafi brýna þörf fyrir hana, svo sem vegna tímabundins starfs eða náms annars staðar. Leigutími skal vera í mesta lagi eitt ár í senn og almennt aldrei lengur en í tvö ár samtals. Framleiga breytir í engu skyldum búseturéttarhafa samkvæmt búsetusamningi, þar á meðal skyldu hans til greiðslu búsetugjalds. 

Hafi búseturéttarhafi í hyggju að framleigja íbúðina er umsókn þess efnis send á netfangið bufesti@bufesti.is

Ef stjórn Búfesti veitir slíkt samþykki skal leigusamningur áritaður af félaginu. Leigusamningur sem gerður er án samþykkis Búfesti er ógildur og getur félagið rift búsetusamningi við viðkomandi búseturéttarhafa, vikið honum úr félaginu og krafist útburðar leigjanda og/eða búseturéttarhafa.

Sala á búseturétti

Búsetusamningur er óuppsegjanlegur af hálfu félagsins. 

Búsetar í íbúðum félagsins geta sagt upp búsetusamningi hvenær sem er með sex mánaða fyrirvara.

Um styttri fyrirvara til sölu búseturéttar getur alltaf verið að ræða en tæplega styttri en þrír mánuðir, eða sá lágmarkstími sem nota þarf við íbúaskipti og til auglýsingar og úthlutunar, heilmálunar og lagfæringa á íbúðinni eftir því sem slíkt er nauðsynlegt.

Allar íbúðir félagsins eiga að vera í góðu ástandi miðað við aldur þeirra á hverjum tíma þegar íbúaskipti fara fram.

Fráfarandi búseti fær greitt fyrir búseturétt það kaupverð sem hann upphaflega greiddi framreiknað með verðbótum, að frádregnu skilagjaldi,  4-6 vikum eftir að nýr búseti hefur tekið við - og handhafar eldri samninga aldrei seinna en tólf mánuðum eftir uppsögn þó ekki hafi tekist að selja búseturéttinn.

Það sem getur rýrt búseturéttareign félagsmanna er slæm umgengni og vanskil á lögbundnum greiðslum félags- og búsetugjalds.

Ég var í félaginu, get ég endurvirkjað gamla félagsnúmerið mitt?

Ef félagsmaður greiðir ekki árgjald tvö ár í röð eða skráir sig úr félaginu verður númerið ógilt og ekki enduropnað.  Óskir þú eftir að ganga í félagið aftur færðu úthlutað nýju félagsnúmeri gegn greiðslu árgjalds og skráningargjalds.

Hvernig er greiðslu á félagsgjöldum háttað?

Félagsgjaldið er kr. 7.500 fyrir einstakling og kr. 1.000 fyrir maka, krafa er send einu sinni á ári í heimabanka.

 

Ég gleymdi að borga félagsgjaldið, er ég þá ekki lengur félagsmaður?

Hafi félagsmaður ekki greitt árgjald tvö ár í röð er hann strikaður af félagaskrá, sinni hann ekki ítrekunum.  Það gerist þó ekki fyrr en í lok síðara ársins sem hann greiðir ekki félagsgjaldið.

Geta börnin mín notað mitt númer?

Nei, félagsnúmer eru tengt við kennitölu og ganga ekki milli einstaklinga. Þess vegna er tilvalið að skrá barnið þitt í félagið. Þannig á það möguleika á að eignast búseturétt síðar á lífsleiðinni. Börn greiða ekki árgjöld fyrr en á 19. ári.

Erfist félagsnúmer?

Nei, félagsnúmer eru tengt við kennitölu og ganga ekki milli einstaklinga. Við mælum því alltaf með að maki skrái sig einnig í félagið og fái við það félagsnúmer. Einnig er tilvalið að skrá barnið þitt í félagið. Þannig á það möguleika á að eignast búseturétt síðar á lífsleiðinni. Börn greiða ekki árgjald fyrr en á 19. aldursári.

Hvaða áhrif hef ég sem félagsmaður?

Lögráða félagsmenn hafa atkvæðisrétt á fundum félagsins og geta boðið sig fram í stjórn þess. Framboð þarf að berast skriflega til stjórnar félagsins a.m.k. 10 dögum fyrir aðalfund. Framboð til formanns þarf að tilkynna sérstaklega.

Fer ég skjalfkrafa úr félaginu þegar ég sel búseturéttinn?

Nei, félagsmaður þarf sjálfur að segja sig úr félaginu, sú ákvörðun er aldrei tekin fyrir fólk. Þótt farið sé á almennan markað eða félagsmaður flytur á hjúkrunarheimili þarf að segja upp félagsaðild, kjósi félagsmaður að hætta í félaginu.

Ég hef keypt mér íbúð á almennum markaði. Er ástæða til að vera áfram í félaginu?

Já, það er gott að eiga þennan möguleika í framtíðinni, t.d. ef þú þarft að stækka eða minnka við þig vegna breyttra fjölskylduaðstæðna. Það felast verðmæti í lágu félagsnúmeri.