Reglur um atvinnustarfsemi í Íbúðum Búfesti hsf.

Staðfestar heimildir til að reka starfsemi í íbúðum félagsins eru ekki fyrir hendi í gildandi búsetusamningum. Eftirfarandi reglum er ætlað að ramma inn afgreiðsluferli varðandi umsóknir búseta um að reka tiltekna og takmarkaða starfsemi í húsnæði félagsins.

1. Sá sem hug hefur á að reka einhverja tiltekna starfsemi í íbúð félagsins skal sækja um slíkt til stjórnar með amk. 3ja mánaða fyrirvara. Jafnframt skal skila inn nákvæmum upplýsingum um fyrirhugaða starfsemi, umfang hennar og leggja fram mat á því hvert verði fyrirséð álag vegna umferðar, orkunotkunar og annarra þátta sem fara umfram allan venjulegan rekstur fjölskyldu.

2. Áður en stjórn tekur umsókn til afgreiðslu skal öðrum íbúum – í sambýli/fjölbýli – sem viðkomandi starfsemi sannanlega getur haft áhrif á - gefinn kostur á að láta í ljós álit á umsókninni. Skal stjórn taka allar málefnalegar ábendingar eða fyrirvara til greina við afgreiðslu umsóknar. Við sérstakar aðstæður getur stjórn veitt slíkt leyfi til bráðabirgða án þess að afla fyrirfram álits annarra íbúa – en þá skal jafnframt upplýsa aðra íbúa um slíka leyfisveitingu jafnhliða því sem gefinn er kostur á að koma athugasemdum á framfæri.

3. Leyfi til atvinnustarfsemi verða einungis veitt tímabundið en hyggist leyfishafi halda áfram starfsemi skal viðkomandi endurnýja umsókn sína og sér Búseti þá um að afla álits og þar með eftir atvikum samþykkis allra íbúa í viðkomandi fjölbýli/stigagangi – til áframhaldandi starfsemi – áður en stjórn getur tekið umsókn um framlengingu til afgreiðslu. Berist engar neikvæðar athugasemdir eða ábendingar um þegar heimilaða starfsemi getur framkvæmdastjóri veitt framlengingu á leyfi til jafnlengdar þess tíma sem stjórn hafði áður heimilað.

4. Leyfishafi skal fara eftir öllum þeim skilmálum sem stjórn setur í leyfisveitingu sinni – ella missir hann heimildir til starfsemi sinnar – og ef um er að ræða grófar vanefndir eða óviðunandi framferði af einhverju tagi skal veita viðkomandi aðvörun og segja síðan upp búsetusamningi viðkomandi ef ekki er úr bætt innan gefins frests.

5. Leyfishafi skal greiða aukalega vegna rafmagns, hita og húsvörslu – samkvæmt málefnalegu mati á því álagi/þeirri auknu notkun sem af starfseminni leiðir.

6. Leyfishafi skuldbindur sig til að kaupa aukalega ábyrgðartryggingu vegna starfsemi sinnar – er bætir mögulegar skemmdir á húsnæði og búnaði í eigu Búseta.

7. Leyfishafi hefur ekki aðgang að sérbúnum hluta sameignar né leiksvæðum Búseta vegna starfsemi sem hann tekur sjálfur gjald fyrir.

8. Leyfishafi skal kappkosta að stýra umgengni þannig að sem minnstu álagi og ónæði valdi fyrir aðra íbúa – sérstaklega ber að virða umgengnisstýringu um aðaldyr eins og hún er sett upp á hverjum tíma.