Aðalfundur Búfesti var haldinn 6. júní 2019

Afkoma Búfesti hsf. á árinu 2018 var jákvæð sem nemur kr. 676.098.802. Samkvæmt efnahagsreikningi nemur bókfært virði íbúða félagsins kr. 9.116.910.809 og áhvílandi veðskuldir kr. 5.716.359.062. Veðsetningarhlutfall eigna er þannig 62,7%.

Félagið er með árinu 2018-2019 að segja má loks að stíga út úr skugga bankahrunsins 2008.   Með gífurlegri hækkun eignaverðs umfram verðbólgu skapast forsendur til að ná betri kjörum á langtímalánum.  Hagræðing í rekstri og aukin þjónustugjöld - ásamt sölu á stökum eignum - bætir lausafjárstöðu og eflir viðhald sem er orðið mjög brýnt.

Á fundinum lá fyrir staðfesting á að óhagstæðustu lán félagsins verða endurfjármögnuð í samstarfi við Íbúðalánasjóð þannig að varanlega léttir á greiðslubyrði búseta hjá félaginu.

Mjög góð nýting er á íbúðum félagsins og veruleg eftirspurn eftir þeim fáu íbúðum sem losna til endurráðstöfunar.

Á fundinum voru kynntar hugmyndir um nýbyggingar sem Búfesti hsf hefur undirbúið frá árinu 2017.  

Norðurþing fékk Búfesti og íbúðaframleiðandann Faktabygg í Stavanger í Noregi til samstarfs um tilraunaverkefni á Húsavík -  með styrk frá Íbúðalánasjóði.   Áform eru um þróun stærra byggingarsvæðis fyrir hagkvæma raðsmíði og að hafist verði handa um byggingu 13 íbúða árið 2019. ( Við Grundargarð 2 og Ásgarðsveg 27)

Á Akureyri er unnið á grundvelli viljayfirlýsingar Búfesti hsf í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri og nágrenni (EBAK)  og Akureyrarbæjar.

Búfesti hefur fengið úthlutað lóðum við Skarðshlíð undir 6 íbúðir í parhúsi og raðhúsi og verður hafist handa við þær byggingar um leið og undirbúningsgögn liggja fyrir.

Kannað hefur verið með byggingarlóðir við Vestursíðu (10-16 íbúðir) og við Gránufélagsgötu 22 (6-8 íbúðir).

Stærsta verkefni félagsins sem kynnt var á fundinum er heildstæð nýtingartillaga fyrir reit í  Holtahverfi (Jötunfell-Bárufell) sem félagið hefur fengið að leggja inn til skipulagsyfirvalda.     Um er að ræða hugmynd um að byggja 7-8 smærri fjölbýlishús á 3-4 hæðum og  og 33 raðhús á 2-3 hæðum með þæglegri aðkomu og útisvæðum – alls 130-160 íbúðir.    Félagið hefur gert ráð fyrir að ca 60% íbúðanna verði í forgang fyrir aldurshópinn 60 ára+ og hönnun íbúða og sameignar miðuð við þarfir eldri borgara.  Fjöldi íbúða og byggingarhraði mundi ráðast af eftirspurn en hagkvæmasta nýting næst einungis með því að einn aðili haldi á verkefninu og raðsmíðalausnir virki til lækkunar á fermetraverði.    Veruleg breidd verður í stærðum um 50 fm og 70-90 fm og fjölskylduíbúðir frá 100-150 fm verða í raðhúsum og á efstu hæðum fjölbýlishúsanna.   EBAK leggur áherslu á unnt verði að mæta mismunandi þörfum 60 ára+ með leiguíbúðum, sveigjanlegum búseturétti (5-30%) og bjóða upp á að velstæðir einstaklingar fullfjármagni sínar íbúðir.   

Ef tillagan fær framgang hjá skipulagsyfirvöldum munu Búfesti og EBAK leita samkomulags við Akureyrarbæ um útfærslu og uppbyggingu á þjónusturými sem sérstaklega mundi sinna þeim hópi sem festir sér íbúð í þessum kjarna.

Tillagan er unnin af arkitektum Faktabygg í Stavanger.

 

Þegar skipulagsráð Akureyrarbæjar hefur fengið ráðrúm til að bregðast við hugmyndinni eins og hún er lögð fram verðu unnt að kynna þessi áform nánar – og sýna hönnunargögn og eftir því sem þau þróast.

 Stjórn félagsins var öll endurkjörin á fundinum sem og varastjórn:

Hana skipa: Guðlaug Kristinsdóttir formaður, Ingvar Björnsson varaformaður, Halldór Már Þórisson, Sigríður María Bragadóttir og Stefán Einar Jónsson.

Varastjórn (í stafrófsröð);  Baldur Ingi Karlsson, Hanna Dóra Markúsdóttir, Hólmfríður Guðmundsdóttir, Höskuldur V Jóhannesson og Inda Björk Gunnarsdóttir.

Breytingar hjá Búfesti.

Á fundinum þakkaði Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri sérstaklega fyrir afar traust og gott samstarf við stjórn og félagsmenn í þau tólf og hálft ár sem hann hefur unnið fyrir Búfesti hsf ( áður Búseta á Norðurlandi), en hann lætur af störfum um næstu mánaðamót.    Eiríkur Haukur Hauksson sem verið hefur fjármálastjóri hjá félaginu hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri frá sama tíma.