Búfesti hsf og Félag eldri borgara á Akureyri og nágrenni (EBAK) leita eftir byggingarsvæði

EBAK og Búfesti hsf hafa lagt inn erindi hjá bæjaryfirvöldum á Akureyri með ósk um að tekið verði frá byggingarsvæði fyrir umtalsverðan fjöld íbúða sem væru í forgang fyrir 60 ára+

 

Um gæti verið að ræða byggingarsvæði í þægilegu nágrenni við fyrirliggjandi þjónustukjarna við eldri borgara eða á nýju svæði þar sem þá væri frá upphafi gert ráð fyrir tiltekinni uppbyggingu á þjónustu í samstarfi við aðila.

 

Greinilegt er að mikil þörf er að byggja húsnæði sem sérstaklega tekur mið af þörfum þessa þjóðfélagshóps varðandi aðgengi og innréttingar.   Aðstæður eldri borgara eru auðvitað mjög mismunandi að því er eignir og lífeyri varðar.    Kannski er einn þriðjungur hópsins vel settur og í skuldlausu eða skuldlitlu húsnæði,  - annar þriðjungur sem býr í eigin húsnæði sem er ekki í góðu aðgengi og lífeyrir leyfir ekki endurfjárfestingu og svo þriðji hópurinn sem er eignalítill eða eignalaus og hefur lakan lífeyri.

Samtöl milli forystufólks EBAK og Búfesti hsf ganga út á það að í stærri íbúðakjörnum sem byggðir væru á vegum félaganna mundi vera unnt að mæta öllum þessum hópum;   með byggingu leiguíbúða með stofnstyrkjum mætti koma til móts við lakast setta hópinn, leiguíbúðir og hóflegur búseturéttur getur síðan mætt þörfum langflestra og til viðbótar mætti bjóða efnalega vel settum að fullfjármagna sínar íbúðir í búseturétti eða séreign -  en þó með föstum kjörum varðandi endursölu (líkt og þekkist hjá félögum eldri borgara víða).

 

Framkvæmdastjóri 28.janúar 2019