Búfesti hsf óskar félagsmönnum og samstarfsaðilum gleðilegs árs 2019

Ágætu félagsmenn í Búfesti hsf.

 

Við starfsmenn og stjórn félagsins óskum ykkur gleðilegs árs 2019.

Að baki er ár sem að mörgu leyti var tíðindaríkt í sögu félagsins.    Markaðir hafa þróast þannig að skortur á hagkvæmu húsnæði er nú orðin augljós staðreynd um allt land.    Mjög aukin pressa hefur með því beinst að sveitarfélögum og ríkisstjórn að leggja upp aðgerðir til að örva byggingar íbúða í óhagnaðardrifinni umgjörð.    Kröfugerð stéttarfélaga beinist að talsverðu leyti að umbótum á húsnæðismarkaði -  bæði að því að hemja græðgi einkafjárfesta á leigumarkaði og einnig að því að skapa skilvirka farvegi fyrir stuðningi við íbúðarekstur húsnæðissamvinnufélaga og tryggja eitthvert hóf á vaxtakjörum.    Ástæða er til að líta björtum augum á aukna virkni stéttarfélaga og neytenda almennt á húsnæðismarkaði -  því þannig verður til afl og samstaða - sem líkleg er til að auka öryggi og draga úr sveiflum.

Með samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri og nágrenni  (EBAK 60 ára+) hefur Búfesti lagt grunn að nýjum verkefnum þar sem lögð verður áhersla á hagkvæmar byggingar og auðvelt aðgengi.

Þessar nýju aðstæður hafa leitt til þess að félagið hefur staðfest samstarfsyfirlýsingar með Akureyrarbæ og Norðurþingi og Þingeyjarsveit hefur afgreitt sambærilega ályktun.      Búfesti hsf hefur átt jákvætt samtal við fleiri sveitarfélög á svæðinu – og hefur nú formlega orðið aðili að þróunarverkefni um nýbyggingar á landsbyggðinni með Norðurþingi og Íbúðalánasjóði í samstarfi við Faktabygg í Noregi.

Möguleikar á nýjum þjónustusvæðum verða tæplega raungerðir nema með beinni þátttöku sveitarfélaga og velvildarfjárfesta (stéttarfélaga/fyrirtækja) sem leggja að mörkum til að tryggja hagkvæma fjármögnun íbúða í einstökum byggðahverfum.

Með nýbyggingum og fjölgun íbúða í félaginu kemur samt hiklaust fram  aukin hagkvæmni og traustari rekstur í þágu allra félagsmanna.      

Það er von okkar sem vinnum að stjórnun félagsins að árið 2019 staðfesti með sýnilegum hætti að nýtt uppbyggingaskeið Búfesti hsf sé gengið í garð.

 

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri (2.janúar 2019)