Enginn titill

Jón Sveinbjörn Arnþórsson. Jón Arnþórsson kvaddur

Nýlega er látinn hér á Akureyri Jón Arnþórsson.   Jón var kjörinn fyrsti formaður Húsnæðissamvinnufélagsins Búseta á Akureyri á stofnfundi 27. mars 1984.

 

 

Jón var í hópi þeirra fjölmörgu sem vildu skapa nýjar forsendur fyrir húsnæðisöryggi landsmanna eftir hið alvarlega áfall sem verðtrygging húsnæðislána framkallaði í verðbólguskriðunni árið 1983.    

 

 

Nú næstum 27 árum síðar er almenningur á Íslandi illa særður og skuldum vafinn vegna öfgafullrar séreignarstefnu íbúðarhúsnæðis – og yfirgangs verðtryggðs fjármálakerfis.

 

 

Væntingar frumkvöðla húsnæðissamvinnufélaganna á 9. áratug síðustu aldar voru að opinbert lánakerfi mundi fjármagna hóflega íbúðaþörf almennings og bjóða upp á öryggi og hagkvæmni fyrir alla skilvísa búseta.   

 

 

Því miður voru húsnæðissamvinnufélögin stofnuð með verulegri pólitískri andstöðu og gegn áhrifamiklum aðilum innan launþegahreyfingarinnar.   Trúlega liggur í því skýringin á því hvers vegna vöxtur og viðgangur þessa húsnæðisforms hefur ekki orðið í neinni líkingu við það sem er raunin í nágrannalöndum.    

 

 

Vonandi er kominn tími til að stíga fyrir gamlan ágreining og læra af Norrænum nágrönnum þar sem stjórnvöld og samtök launamanna hafa unnið að því einhuga að virkja þetta húsnæðisform þannig að það er jafnvel ráðandi á tilteknum svæðum.    Slíkar voru væntingar frumkvöðlanna  hér á Íslandi á árunum frá  1983.

 

 

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi eru Jóni Arnþórssyni færðar þakkir fyrir sitt framlag til félagsins og einnig fyrir að halda til haga áhugaverðum samtímagögnum um húsnæðismál sem hann færði félaginu árið 2007.

 

 

Ástvinum Jóns sendir félagið samúðarkveðjur

 

 

 

Benedikt Sigurðarson framkvæmdastjóri