Kaupendur búseturéttar

Stjórn félagsins samþykkti á fundi sínum 4. júní 2009 að félagið auki við fyrirgreiðslu sína vegna kaupa á búseturétti.  Þessi samþykkt er gerð við þær aðstæður að einstaklingar hafa átt í miklum erfiðleikum síðustu mánuði að fá fjármögnun hjá viðskiptabönkum vegna slíkra kaupa.   Samþykkt stjórnar er eftirfarandi

1.   Félagið ábyrgist sem sjálfskuldarábyrgðaraðili bankalán fyrir allt að 50% búseturéttar.   Félagsmenn geta sótt um slíka ábyrgð og hafi þeir greiðslusögu sem engar athugasemdir eru gerðar við og lánskjör bankans teljist viðunandi þá getur framkvæmdastjóri staðfest slíka umsókn fyrir hönd félagsins.   Félagið getur áskilið að afborganir af bankaláni séu innheimtar samhliða mánaðargjaldi og greiðist þannig á ábyrgð félagsins fyrir hönd lántakanda.

 

2.   Leigutakar/leigjendur:  

a.   Skilvísir leigjendur sem greitt hafa fyrirfram 3ja mánaða leigu og síðan staðið í skilum með mánaðargjald í 6 mánuði geta kallað eftir því að nýta umsaminn forkaupsrétt sinn að búseturétti.    Skulu þeir greiða sem svarar 20% af búseturétti samhliða slíkri tilkynningu og staðfesta greiðsluáætlun og skilmála – og losna þannig við að búseturéttur íbúðarinnar verði auglýstur á opnum markaði.

b.   Skilvísum leigjendum stendur til boða að fá lán hjá félaginu fyrir búseturétti, –  verðtryggt til 5 ára með breytilegum vöxtum (nú 6,5% - sem breytast með fasteignalánavöxtum Íslandsbanka) – og skulu staðfesta  greiðsluáætlun í samræmi við það.    Þegar viðkomandi félagsmaður hefur staðfest samning um kaup á búseturétti og greitt 50% verðsins breytist álagsþáttur mánaðargjalds leigjandans í innborgun á búseturéttinum – mv.  nafnverð.   

c.   Skilvísir leigjendur sem gert hafa kaupsamning og staðið við hann – njóta að fullu stöðu búseturéttarhafa.   Setja skal í lánasamning ákvæði og fyrirvara sem tilgreina viðbrögð við vanefndum og/eða vanskilum.

d.   Sú lánafyrirgreiðsla  sem tilgreind er í lið b er tímabundin og verður einungis í gildi á meðan ekki reynist næg eftirspurn eftir búseturétti almennt – eða í einstökum íbúðum félagsins.  Stjórn félagsins tekur ákvörðun um gildistíma og/eða mögulegar breytingar á skilmálum sem í boði skulu vera.