Tilkynning 12.febrúar 2009

Til búseta í íbúðum félagsins og annarra félagsmanna

Ekki hefur farið framhjá neinum að miklir óvissutímar eru í efnahagsmálum.  Vegna verðtryggingar lána  og hækkana á vöxtum, á sama tíma og húsnæðisverð lækkar, skapast misgengi - sem birtist í hækkunum á mánaðargjaldi langt umfram það sem hægt er að una við. Fjöldi fólks glímir við tekjurýrnun til lengri og skemmri tíma og einhverjir af okkar fólki hafa misst vinnu að hluta eða eru atvinnulausir.  Búseti á Norðurlandi getur ekki boðið búsetum upp á að greiðslubyrði sé úr takti við  verðmæti þeirra íbúða sem þeir búa í.  Við þessar  aðstæður verða stjórnendur félagsins að leita allra mögulegra leiða til samninga við Íbúðalánasjóð og viðskiptabanka félagsins um greiðslufrestun og/eða breytingu á kjörum sem gera mundi félaginu kleift að koma til móts við búsetana með raunsæjum hætti.

 

Á fundi sínum 11. febrúar 2009 staðfesti stjórn Búseta á Norðurlandi eftirfarandi:

 

Stjórn samþykkir að leita nánara samstarfs við Íbúðalánasjóð og Nýja-Glitni/Íslandsbanka varðandi  frystingu afborgana af lánum félagsins og mögulega endurfjármögnun vegna þess misgengis sem komið er fram og fyrirsjáanlegt er.

 

Mánaðargjald verður óbreytt frá janúar til júní 2009 og tekur ekki vísitöluhækkunum á því tímabili.  

 

Fasteignagjöld, tryggingar og orkureikningar fylgja verðskrá aðila, en þjónustugjöld félagsins verða óbreytt sama tímabil.  

 

Tekin verður afstaða til verðlagningar frá og með júlí þegar nánar hefur verið unnið úr þeim heimildum sem Íbúðalánasjóður og aðrar fjármálastofnanir hafa til skuldbreytinga og greiðsluaðlögunar.

 

Framkvæmdastjóra er falið að leita samþykkis Íbúðalánasjóðs fyrir því að heimilt verði að lækka tímabundið greiðslubyrði búseta í íbúðum félagsins sem orðið hafa fyrir staðfestu tekjufalli vegna atvinnuleysis eða alvarlegra sjúkdóma. Skulu búsetar sækja um slíka greiðslufrestun til stjórnar félagsins enda skerðist inneign þeirra á búseturétti samsvarandi.  Miðað verður við eftirfarandi;

 

  • Heimild nái til lækkunar á leigu um 50%.

     

  • Heimild verði veitt til allt að 12 mánaða til að byrja með en aldrei lengur en til 20 mánaða.

     

  • Að loknu afsláttartímabili gefist búsetanum kostur á að greiða til baka þann hluta búseturéttar sem innleystur hafði verið samkvæmt samningi þar um.

     

---------------------------------------------------

 

Ofangreind samþykkt var kynnt á almennum félagsfundi samdægurs. Búsetar eru hvattir til að hafa samband við skrifstofuna um nánari upplýsingar eða senda inn erindi til stjórnar félagsins.

 

Akureyri  12. febrúar 2009.

 

Framkvæmdastjóri