Fréttir

Dýrahald í húsnæði Búseta á Norðurlandi

 

Frá árinu 2007 hefur Búseti á Norðurlandi heimilað takmarkað dýrahald í sérbýlisíbúðum og fjórbýl/fjölbýli þar sem inngangur að íbúðum fer ekki í gegn um sameiginlega forstofu og ganga.

Hundahald er ekki heimilað í fjölbýli með sameiginlegum inngangi.

Gert er ráð fyrir að sótt sé um leyfi fyrir öllu dýrahaldi og búsetar uppfylli tiltekin skilyrði varðandi merkingar, tryggingar, heilsufarseftirlit og önnur leyfi í samræmi við almennar reglur Akureyrarbæjar/Norðurþings.

Ennþá virðist einhverjum íbúum hafa yfirsést að takmarkanir eru í gildi og sækja þarf um leyfi/skráningu.   

Biðjum við nú um sameiginlegt átak íbúa til að kippa þessu í lið - og forðast með því öll frekari óþægindi og ástæðulaust ónæði fyrir nágranna.

Skoðið gildandi reglur til að glöggva ykkur á því hvaða gögnum beri að skila til skrifstofunnar:  http://www.busetiak.is/page/reglur_um_dyrahald 

Enginn titill

Óbreytt gjaldskrá

Allt frá því á fyrstu mánuðum eftir bankahrun hefur Búseti á Norðurlandi kappkostað að koma til móts við félagsmenn með hófsömum breytingum á gjaldskrá.  Einnig hefur stjórn veitt framkvæmdastjóra heimildir til að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með sveigjanlegum úrræðum.

Stjórnvöld hafa beitt sér fyrir margvíslegum aðgerðum og nú síðast er til afgreiðslu lagabreyting sem mun styrkja rekstrarlega stöðu húsnæðissamvinnufélaganna til framtíðar; - t.d.  með lögfestum heimildum til 90% lánshlutfalls og með heimildum til að endurfjármagna eldri eignir félaganna.

Enn er hins vegar óvissa um uppgjör gengistryggðra lána.  Á sama hátt hefur erindum félagsins varðandi breytta skilmála og fjármögnun ekki verið svarað að fullu.    Stjórnendur félagsins munu vinna áfram með það markmið að ná fram hagstæðri niðurstöðu fyrir félagið og fyrir félagsmennina.

Meðan unnið er að frekari endurskipulagningu, í samstarfi við lánastofnanir, stendur sú ákvörðun stjórnar að gjaldskrá skuli vera óbreytt í grunninn.  

Mánaðargjald verður þannig óbreytt í júlí og á meðan þessi vinna stendur yfir.

Framkvæmdastjóri

Vorverkin

Hirðing á grasblettum og gróðri er að komast í gang með þessarri viku.  

Klipping á runnum er í höndum verktaka undir stjórn umsjónarmanns en áburðargjöf og síðan sláttur verður unnin af lausráðnum starfsmönnum félagsins.

Úðun fyrir roðamaur verður gerð einn umgang á næstunni og runnaúðun einnig.    Búsetar ættu að koma upplýsingum á framfæri ef vart verður við verulegan ófögnuð af skordýrum - og ekki sljákkar við úðun.

Félagið mun vinna að merkingu á stæðum og afmörkun á leiksvæðum og geymslum fyrir hjól eftir því sem ráðrúm verður til, en ekki verður staðið í stórvirkjum á því sviði um sinn.   Mikilvægt er engu síður að allir leggi að mörkum til að munaðarlausir hlutir verði fjarlægðir, samhliða íbúaskiptum, eftir því sem hægt er.

Þrif á stæðum og húsum gengur auðvitað þeim mun betur og hraðar fyrir sig eftir því sem fleiri leggja jákvætt að mörkum.

Viðhald og endurbætur húsnæði verður á lágu nótunum, en þó munum við skipta um gler í nokkrum húsum og leggja út fyrir pöllum þar sem íbúar eiga sjálfir frumkvæði að því að byggja skjólveggi.

 

Til allra búseta og íbúa

Við sl. áramót tók gildi breytt fasteignamat og brunabótamat.   Þannig að tryggingar og fasteignagjöld hækka vegna þessa – og einnig hækkar fjármagnskostnaður þeirra íbúða sem fengu hækkað mat.   Breytingar eru mismunandi eftir aldri og gerð íbúða og nú kemur t.d. fram verðmunur milli íbúða í Kjarnagötu 12-14 eftir hæðum.   Jafnstórar íbúðir á 1. hæð og 4. og 5. hæð eru metnar hærra en íbúðir á 2.-3.hæð og íbúðir í Kjarnagötu 16 eru verðmetnar örlítið hærra en jafnstórar íbúðir í Kjarnagötu 12-14.   Örfáar íbúðir voru lækkaðar í fasteignamati.

 

Á síðustu mánuðum hefur félagið leitað leiða til að lágmarka greiðslubyrði félagsins þannig að hægt væri að halda mánaðargjaldinu niðri.   Félagið hefur fengið tímabundna frystingu á lánum hjá Íbúðalánasjóði og með því varð mögulegt að frysta gjaldskrá frá janúar 2009 og síðan að lækka gjaldskrá í júli-desember 2009.   Frysting á hluta af lánum kom til góða fyrir alla búseta í íbúðum félagsins, en einnig var gerð sú breyting að viðhaldsgjald var fest við 0,3% af brunabótamati á ári, sem þýddi umtalsverða lækkun hjá öllum sem búa í eldri íbúðum félagsins.

 

Stjórn ákvað að bregðast við fjárhagslegum áföllum einstakra búseta með tímabundinni  innheimtu á skertu mánaðargjaldi en lækka á móti inneign í búseturétti.   Nokkrar íbúðir hafa einnig verið leigðar félagsmönnum þar sem búseturéttur seldist ekki.

Stjórn félagsins leggur áherslu á að ná samkomulagi við lánastofnanir um breytta skilmála lána, með frestun afborgana, greiðslujöfnun lána  og lækkun  vaxta og alla mögulega endurskipulagningu skulda þannig að rekstur félagsins verði tryggður til frambúðar og greiðsluþoli búsetanna jafnframt ekki ofboðið.    Að því er unnið og á meðan verður gengið útfrá óbreyttri verðlagningu, en miðað við greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs ef til hækkunar þarf að koma.

Áætlanir gera nú ráð fyrir að verðbólga gangi niður þegar líður á árið og greiðslujöfnunarvísitala hækki því takmarkað.

Þess er þannig vænst að breytingar á mánaðargjaldi verði einungis minniháttar – frá og með febrúar 2010 og allt til ársloka.

 

Fyrir hönd Búseta á Norðurlandi

Framkvæmdastjóri

Mánaðargjaldið - lítið breytt

Mánaðargjaldið í janúar-febrúar verður óbreytt í grunninn samkvæmt ákvörðun stjórnar 26. janúar 2010.   Lítilsháttar breytingar koma fram vegna hækkunar á fasteignamati og brunabótamati og samsvarandi breytinga á tryggingum og fasteignagjöldum.

Íbúðalánasjóður hefur veitt félaginu tiltekna frestun afborgana af hluta af lánum og meðan unnið verður nánar að endurskipulagningu á greiðslubyrði félagsins mun mánaðargjaldið verða tengt við greiðslujöfnunarvísitölu til hækkunar milli mánaða.

Búsetum/leigjendum verður sent bréf til nánari upplýsinga um verðlagningu og þjónustu.

Framkvæmdastjóri

Nýárskveðja

Nú eru jól og áramót að baki og við tökum niður hátíðarskrautið.

Sól hækkar á lofti og þó veturinn geti verið frostkaldur þá styttist samt í vorið.

Stjórn og starfsmenn Búseta á Norðurlandi óska öllum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra - sem og viðskiptamönnum - gleðilegs árs með von um að árið reynist okkur öllum hagfellt.

Framkvæmdastjóri

Lokað á aðfangadag og gamlársdag

Skrifstofa félagsins verður lokuð á aðfangadag og á gamlársdag, en að öðru leyti verður opnunartími í samræmi við auglýsingar (hér til hliðar).

Ef bilanir eða bráð vandamál koma upp er vísað á síma umsjónarmanns (898-3389) eða framkvæmdastjóra (869-6680),  sem kalla þá til viðgerðarvakt frá þjónustuaðilum ef á þarf að halda.

Óskum öllum enn og aftur gleðilegra og áfallalausra hátíðahalda.

Framkvæmdastjóri

Jólakveðja

Búseti á Norðurlandi - stjórn og starfsmenn - óska félagsmönnum öllum og sérstaklega búsetum og leigjendum í íbúðum félagsins og fjölskyldum þeirra - gleðilegra jóla og nýárs.

Félagið þakkar fyrir samstarfið á árinu sem senn er liðið og væntir þess að saman eigum við bjarta framtíð og góð viðskipti inn á við jafnt sem út á við.

Framkvæmdastjóri

Búsetafundir á fimmtudag 3. desember

Minnum á búsetafund/íbúafund - fyrir Stallatún, Lækjartún, Holtateig, Klettaborg, Skessugil

Kl 18:00 fimmtudaginn 3.desember í Lionssalnum Skipagötu 14.

Framkvæmdastjóri