Fréttir

Aðalfundur 8. júlí 2009 - stjórnarkjör

Haldinn var aðalfundur félagsins miðvikudaginn 8. júlí.

Á fundinum gerði Guðlaug Kristinsdóttir formaður félagsins grein fyrir helstu verkefnum stjórnarinnar á liðnu starfsári.     Framkvæmdastjóri fór yfir stefnumörkun félagsins frá árinu 2007 gerði grein fyrir þeim sviptingum sem orðið hafa í rekstrarumhverfinu síðustu missiri.  

Reikningar félagsins voru lagðir fram og samþykktir.  Rekstrarniðurstaðan 2008 endurspeglar kreppuástandið og þá óvissu sem er varðandi verðmæti fasteigna.    Árið 2008 var gert upp með verulegu rekstrartapi sem gengur á efnhag félagsins.     Félagið hefur nýtt sér frystingu lána hjá Íbúðalánasjóði til að takast á við tímabundna erfiðleika í rekstri og einstaklingum sem hafa misst vinnu/tekjur hefur boðist að greiða skert mánaðargjald - en ganga á inneign sína í búseturétti á móti.

Verðlækkun fasteigna og offramboði íbúða á Akureyri hefur verið mætt með því að almenn verðskrá félagsins hefur verið fryst og/eða lækkuð um 3-5% með júlí 2009.

Guðlaug Kristinsdóttir var endurkjörin formaður félagsins til tveggja ára.

Ingvar Björnsson og Helgi Már Barðason voru endurkjörnir í stjórn til tveggja ára og var Ingvar endurkjörinn varaformaður.   (Fyrir voru í stjórn Hrafn Hauksson og Ingi Rúnar Eðvarðsson.)

Í varastjórn voru kjörin - til eins árs;  Rúnar Davíðsson, Stefán Einar Jónsson, Guðbjörn Þorsteinsson, Hermann Árnason og Sigríður María Bragadóttir.

Fundurinn var fremur fámennur - enda eflaust margir félagsmenn í fríi á þessum tíma og með hugann við annað en félagsmál.

Lækkun á mánaðargjaldi

Stjórn Búseta á Norðurlandi hefur ákveðið að mánaðargjald verði lækkað um 3,5-5% frá júlí 2009.   Jafnframt er gert ráð fyrir að gjaldið verði óbreytt til og með desember 2009.

Kaupendur búseturéttar

Stjórn félagsins samþykkti á fundi sínum 4. júní 2009 að félagið auki við fyrirgreiðslu sína vegna kaupa á búseturétti.  Þessi samþykkt er gerð við þær aðstæður að einstaklingar hafa átt í miklum erfiðleikum síðustu mánuði að fá fjármögnun hjá viðskiptabönkum vegna slíkra kaupa.   Samþykkt stjórnar er eftirfarandi

Vorverkin

Nú standa yfir vorverkin á lóðum og svæðum.   Eiturúðun og áburðargjöf og þrifnaður á plönum.

Það er mikilvægt að allir búsetar leggi hönd að því að þrífa sitt nærsvæði og nokkrir íbúar hafa unnið afar gott starf við hirðingu á blettum og runnum eins og svo oft áður.  Fyrir það ber að þakka.

Reiknað er með því að sláttur fari af stað núna fyrir mánaðarlokin og almennt verð slegið aðra hverja viku.   Um þéttari hirðingu okkar svæða verður frumkvæði búsetanna sjálfra að ráða.

Minnum á að einkalóðir við raðhús - og afmarkað sérnotasvæði - skulu búsetarnir alfarið annast sjálfir til sláttar og áburðar.

Frágangi á umhverfi í Kjarnagötu 12-16 miðar áleiðis og við leggjum áherslu á það við verktaka að afmarka byggingarsvæðið við Brekatún sem mest.

Í skoðun er með lagfæringar við Garðarbraut 67-71 á Húsavík.

Ef eitthvað er sérstakt þá má hafa samband við umsjónarmann í síma 898-3389 -  hringja á skrifstofuna eða senda okkur tölvupóst.

 

Breytingar í húsnæðismálum á Íslandi?

 

Ný ríkisstjórn er tekin við.   Mikilvæg atriði í samstarfssamningi stjórnarflokkanna hafa áhrif á starfsumhverfi og framtíðarstefnumótun húsnæðissamvinnufélaga og sjálfseignarfélaga.   Á sama hátt er líklegt að Íbúðalánasjóður og viðskiptabankarnir muni sækja umboð til að útfæra úrræði og leiðir til endurfjármögnunar fyrir slík félög – með sambærilegum hætti og lagt er upp fyrir einstaklinga og fjölskyldur.   

 

Hækkun vaxtabóta og hækkun húsaleigubóta eru atriði sem koma búsetum og leigjendum íbúða hjá Búseta á Norðurlandi strax til góða.

 

Fundur með búsetum/íbúum í Kjarnagötu 12-16

Boðið er til fundar búsetanna/íbúann nk. mánudagskvöld 6. apríl kl 20-22.

Fundurinn verður í sal á 4. hæð í Skipagötu 14 (Lions).

Ræðum umgengnisreglur, þjónustu, frágang og málefni búsetufélags . .

Framkvæmdastjóri

Gestaíbúð - fyrir félagsmenn Búseta á Norðurlandi

Endaíbúð á 1. hæð í Kjarnagötu 14-101 hefur verið standsett  sem gestaíbúð.

Íbúðin verður einungis leigð í skemmri tíma og til félagsmanna og starfsmanna til að hýsa gesti þeirra.     Stjórn hefur gengið frá reglum til bráðabirgða vegna leigunnar.   Bókanir hjá skrifstofunni eða á tölvupósti.  Greiðist samkvæmt bókun - til staðfestingar.

Tilkynning 12.febrúar 2009

Til búseta í íbúðum félagsins og annarra félagsmanna

Ekki hefur farið framhjá neinum að miklir óvissutímar eru í efnahagsmálum.  Vegna verðtryggingar lána  og hækkana á vöxtum, á sama tíma og húsnæðisverð lækkar, skapast misgengi - sem birtist í hækkunum á mánaðargjaldi langt umfram það sem hægt er að una við. Fjöldi fólks glímir við tekjurýrnun til lengri og skemmri tíma og einhverjir af okkar fólki hafa misst vinnu að hluta eða eru atvinnulausir.  Búseti á Norðurlandi getur ekki boðið búsetum upp á að greiðslubyrði sé úr takti við  verðmæti þeirra íbúða sem þeir búa í.  Við þessar  aðstæður verða stjórnendur félagsins að leita allra mögulegra leiða til samninga við Íbúðalánasjóð og viðskiptabanka félagsins um greiðslufrestun og/eða breytingu á kjörum sem gera mundi félaginu kleift að koma til móts við búsetana með raunsæjum hætti.

 

Félagsfundur verður haldinn 11. febrúar kl 20:00

Búsetum í íbúðum félagsins hefur verið sent bréf til útskýringa á breyttu mánaðargjaldi.  

Leitað er leiða til endurfjármögnunar og hagræðingar í rekstri í góðu samstarfi við Íbúðalánasjóð og Nýja-Glitni.

Stjórnendur félagsins munu freista þess að koma til móts við þá búseta sem lenda í alvarlegu tekjufalli  - með tímabundnum aðgerðum - eftir því sem mögulegt er.

Margir óvissuþættir eru varðandi verðþróun fasteigna og lánakjör en mikilvægt er engu að síður að veita allar þær upplýsingar sem tiltækar eru.

Boðað er til félagsfundar miðvikudaginn 11. febrúar kl 20:00.  Í sal á 4. hæð í Alþýðuhúsinu Skipagötu 14.

Framkvæmdastjóri

 

Óvissa í þróun húsnæðiskostnaðar

Mikil óvissa ríkir um þróun húsnæðismarkaðarins.   Viðskipti með íbúðarhúsnæði liggja næstum alveg niðri og verðþróunin gefur vísbendingar um lækkanir.    Spár gera ráð fyrir umtalsverðum lækkunum á verði íbúðarhúsnæðis.

Á sama tíma æðir verðbólgan áfram og stýrivextir eru í hæstu hæðum.    Óskert vísitölumæling frá síðasta ári mun leiða til þess að höfuðstóll lána hækkar umfram verðmæti eignanna og greiðslubyrði fer því fram úr því sem getur orðið ásættanlegt.  Þessi þróun kemur við Búseta á Norðurlandi ekki síður en aðra.