Fréttir

Leiðrétting verðtryggðra lána;

 

Tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra lána liggja fyrir Alþingi.    Því miður virðist sem einhver misskilningur hafi undið upp á sig og ekki er gert ráð fyrir að búsetar í almennum íbúðum húsnæðissamvinnufélaganna njóti leiðréttinga.

Stjórnendur Búseta í Reykjavík, Búmanna og Búseta á Norðurlandi hafa átt fundi með áhrifa-aðilum síðustu daga og væntum við þess að sá skilningur á  málinu sem komið hefur fram hjá húsnæðisráðherra og forsætisráðherra muni skila sér í jákvæðri niðurstöðu.

Áfram munum við freista þess að krefjast jafnræðis fyrir þetta eignarform íbúða í samvinnufélagi til samræmis við séreignarformið -  eins og gildir um vaxtabótaréttinn.

Hvetjum við alla félagsmenn og búsetana til að minna Alþingismenn sína og ráðherra á að lán á búseturéttaríbúðunum stökkbreyttust líka og búsetarnir verðskulda sama réttlæti og aðrir landsmenn.

(Framkvæmdastjóri 31.mars 2014)

Búseti á Norðurlandi 30 ára

Afmæliskaffið og vöfflurnar féllu í góðan jarðveg á afmælisdaginn. 

Í tilefni afmælisársins:

Þann 27. mars voru 30 ár liðin frá stofnun Búseta á Akureyri.    Frumkvæði að stofnun félagsins var borið uppi af Landssambandi Samvinnustarfsmanna og í góðu samstarfi við þáverandi stjórnendur KEA.   Fundarstjóri á stofnfundinum var Valur Arnþórsson kaupfélagsstjóri.

 

Búseti á Norðurlandi varð til með sameiningu félaga á Akureyri og Húsavík.   Félagið á og rekur 234 íbúðir (219 á Akureyri).   Húsnæðis- og byggingamarkaðurinn hefur gengið í gegn um erfiða tíma frá 2007 – og stökkbreyting verðtryggðra lána þrengir að rekstri fjölskyldna og félaga.   Hertar lánareglur gera fjölmennum hópum ókleift að taka lán til kaupa á eigin íbúðarhúsnæði.

 

Nú eru þannig krefjandi tímar í húsnæðismálum – ekkert síður en fyrir 30 árum.

 

Viðburðir á afmælisári - stefnumótun

Stjórn Búseta á Norðurlandi hefur lagt drög að verkefnum til að fagna þessum tímamótum.  

Leitað hefur verið til Akureyrarbæjar, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og KEA um samstarf til að takast á við breyttar aðstæður á húsnæðismarkaði.  Markmið slíks samstarfs væri að greina þörfina fyrir hagkvæmt húsnæði með leigu- og búseturéttarkjörum og koma á fót öflugum félögum til að byggja og reka slíkt húsnæði.    Slíkt er væntanlega hagstæðast að gera  í nánu samstarfi við Búseta á Norðurlandi og með það fyrir augum um leið að félagið geti vaxið og aukið framboð af íbúðum á Akureyri - og þar sem eftirspurn verður eftir í nágrannabyggðum.

Þessum tímamótum mun félagið þannig fagna með því að leggja upp plön um aukinn og hagkvæmari rekstur til lengri tíma.

Um leið gerum við okkur dagamun;

  • 20. mars mun Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðingur og fyrsti formaður Búseta í Reykjavík fjalla um sögulega þróun húsnæðismálanna á 20 öld og stofnun Búseta.  (Staður Alþýðuhúsið; Lionssalurinn kl 15-18)
  • 27.mars - AFMÆLISKAFFI  opið hús í Lionssalnum í Skipagötu 14 -  fyrir félagsmenn og áhugasama
  • 10. apríl  kynning á húsnæðissamvinnufélögum -  og rekstri leigu- og búseturéttarfélaga án hagnaðarkröfu (not-for-profit) - alþjóðasamband húsnæðissamvinnufélaga (ICA-Housing). (Staður Alþýðuhúsið; Lionssalurinn kl 16-18).
  • Áformum um ráðstefnu 30 apríl er frestað (-  Húsnæðismál og skipulagsmál á Akureyri -  ráðstefna fyrir almenning - nýjar og neytendadrifnar lausnir í samstarfi við aðila - stefnumótun Búseta á Norðurlandi kynnt. Dagskráin auglýst síðar  ). 

(Skrifað 10.mars 2014 - Framkvæmdastjóri)

 

 

Búseti á Norðurlandi er húsnæðissamvinnufélag;

 

·       félagsmenn eiga félagið og bera ábyrgð á stjórnun þess

 

·       félagsmaður greiðir fyrir búseturétt sem svarar 10% af verðmæti íbúðar

 

·       og ávinningur af rekstri félagsins skilar sér beint til búsetanna í íbúðum félagsins

 

Markmið Búseta á Norðurlandi eru;

 

·       að byggja og kaupa hagkvæmar íbúðir af fjölbreyttum gerðum og stærðum

 

·       að reka íbúðirnar með lágmarkskostnaði

 

·       að vinna að því að félagsmenn njóti bestu kjara á húsnæðismarkaði

 

Búseti á Norðurlandi kallar eftir því að aukinn sveigjanleiki í byggingarreglum og skipulagi geri það áhugavert að byggja nýjar íbúðir sem geta verið ódýrar og hagstæðar í rekstri.   Bæði litlar íbúðir fyrir einstaklinga og einnig stærri íbúðir fyrir ólíkar fjölskyldugerðir.

 

Nýjar aðstæður á húsnæðismarkaði skapa tækifæri fyrir húsnæðissamvinnufélögin til að bjóða upp á hagkvæmar lausnir fyrir stækkandi hópa fólks;

 

·       fyrir einstaklinga

 

·       fyrir ungar fjölskyldur sem vilja búa sjálfstætt

 

·       fyrir fólk sem vill eiga kosta á hreyfanleika og valkostum á markaði

 

·       fyrir fólk sem hefur reynslu af öruggum leigu- og búseturéttarmarkaði í öðrum löndum

 

·       fyrir fólk sem er brennt af áföllum síðustu ára

 

·       fyrir alla sem vilja hámarka hagkvæmni í heimilisrekstri sínum

 

 

 

Búseti á Norðurlandi vinnur að því að stofnað verði félag um nýbyggingar og rekstur leiguíbúða fyrir almenning -  og einnig verði aukið við framboð búseturéttaríbúða félagsins.

 

·       Búseti á Norðurlandi hvetur til þess að leiguíbúðir í eigu fjármálafyrirtækja verði settar inn í framtíðarfélag og boðnar almenningi á langtímaleigusamningi og án hagnaðarkröfu

 

·       Búseti á Norðurlandi hefur leitað til opinberra aðila  -  til velvildaraðila og til fagaðila um aðstoð við að stofna og fjármagna félag til að byggja verulegan fjölda hagkvæmra leigu- og búseturéttaríbúða fyrir almenning

 

·       Til þess þarf að lækka byggingarkostnað – og einnig að tryggja fjármagn til að kosta þróun og undirbúning -  en umfram allt þarf að finna lánsfé með ásættanlegum vaxtakjörum.

 

 

 

Áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis vegna leiðréttingar verðtryggðra lána

Á aðalfundi félagsins sl. haust var samþykkt áskorun til ríkisstjórnar og Alþingis um að tryggja að leiðrétting verðtryggðra lána næði einnig til búsetanna í húsnæðissamvinnufélögunum.  Þeirri áskorun var komið á framfæri við alla þingmenn NA-kjördæmi en þar í hópi eru forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra.

Búseti á Norðurlandi hefur átt samstarf við Búmenn og Búseta í Reykjavík um að koma á framfæri sanngirniskröfum búseta í viðkomandi félögum að því er  þetta varðar.   

Sl. föstudag átti framkvæmdastjóri og formaður félagsins góðan fund með forsætisráðherra og aðstoðarmanni hans þar sem farið var vandlega yfir þetta mál og almenn starfsskilyrði húsnæðissamvinnufélaganna.

Til þess að árétta sanngjarna kröfu um leiðréttingu á lánum húsnæðissamvinnufélaganna höfum við sett í gang undirskriftalista meðal búsetanna á fundum félagsins.   Þeir sem ekki hafa tök á að mæta á fundunum geta komið við á skrifstofunni til að setja nafn sitt á listann og taka þannig undir kröfuna um að leiðrétting nái jafnt til búsetanna eins og til annarra sem reka húsnæðið með verðtryggðum lánum.

(Framkvæmdastjóri 10.febrúar 2014)

Gleðilegt ár

Um leið og við óskum félagsmönnum og fjölskyldum þeirra árs og friðar á nýju ári þökkum við fyrir samstarfið á liðnu ári 2013.

Fyrir dyrum stendur að boða til þeirra funda í hverfum og kjörnum (búsetufélögum) sem ekki komust á fyrir jól.

Framkvæmdastjóri

(ritað 2.janúar 2013)

Leiðrétting verðtryggðra fasteignalána

 

Nú hafa tillögur ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána verið kynntar.   Búseti á Norðurlandi mun að sjálfsögðu kalla eftir því að slíkar leiðréttingar nái til einstaklinga sem reka fasteignir í húsnæðissamvinnufélagi til jafns við aðra.  

Áform um skattfrelsi séreignarsparnaðar og söfnun á húsnæðissparnaðarreikning eða til niðurgreiðslu á húsnæðislánum - ætti að geta komið félagsmönnum í húsnæðissamvinnufélögum að fullum notum

Rifjað er upp að aðalfundur félagsins samþykkti svohljóðandi ályktun í október sl.

"Aðalfundur Búseta á Norðurlandi, haldinn 21.október 2013 skorar á ríkisstjórn og Alþingi að tryggja að markmið um sanngjarna leiðréttingu verðtryggðra lána nái fram að ganga sem fyrst.   Fundurinn treystir því  að sambærilegar leiðréttingar nái til húsnæðissamvinnufélaganna og sjálfseignarfélaga sem ekki eru rekin í hagnaðarskyni eins og til einstaklinga í eigin íbúðum."

Fyrir hönd félagsmanna munu stjórnendur félagsins freista þess að fylgja málum eftir, en jafnframt er æskilegt að einstakir félagsmenn beiti sér til að koma hagsmunum húsnæðissamvinnufélaganna á framfæri gagnvart Alþingi og ríkisstjórn.

Framkvæmdastjóri (2.desember 2013)

Félagsgjald/árgjald vegna 2013

Á aðalfundi 21.október var samþykkti að árgjald 2013 skuli vera kr.6000 og makaárgjald kr. 1000.

Inngöngugjald verður kr. 1000.

Kröfur vegna þessarrar innheimtu verða stofnaðar í banka á næstu dögum með eindaga mv. 31.12.2013.

Framkvæmdastjóri (ritað 30.10.2013)

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi var haldinn 21.október

Búseti á Norðurlandi senn 30 ára.

 

Aðalfundur Búseta á Norðurlandi var haldinn mánudaginn 21.október 2013.

 

Uppgjör 2012 og aðalfundur Búseta á Norðurlandi

Unnið er að frágangi á ársreikningi vegna 2012.

Niðurstöðutölur af rekstri og efnahagur 2012 staðfesta það samkomulag sem gert var við lánardrottna um fjárhagslega endurskipulagningu og leiðréttingar lána. 

Auglýsing um aðalfund mun birtast á næstu dögum og eru félagsmenn hvattir til að fylgjast með og mæta á fundinn.

Framkvæmdastjóri

(Skráð 2.október 2013)

Hækkun á mánaðargjaldi

Mánaðargjald hefur verið óbreytt frá febrúar 2013.  Verðbólgu á árinu er spáð á bilinu 4-5% og kostnaðarbreytingar í félaginu tilsvarandi.  Verðtrygging lána heldur áfram að hækka afborganir og samningar aðila miðast við að mánaðargjald sé vísitölutengt.

Stjórn Búseta á Norðurlandi samþykkti á síðasta fundi að hækka mánaðargjald í öllum íbúðum mv. 5% hækkun á fjármagnsgjöldum.   Það þýðir að mánaðargjaldið í heild hækkar á bilinu 3-4%.

Hækkunin tekur gildi með næstu innheimtu.

Gert er ráð fyrir að næst verði breyting á verðlagningu með febrúar 2014.

 

(Ritað 24.september 2013)

Framkvæmdastjóri

Vaxtabætur til útborgunar 2013

 

Allmargir leita skýringa á því að vaxtabætur til útborgunar 1. ágúst 2013 eru í einhverjum tilvikum verulega lægri en á síðasta ári - þrátt fyrir litlar breytingar á tekjum og fjármagnsgjöldum.

Sérstakar og auknar vaxtabætur sem greiddar voru út árin 2011 og 2012 eru ekki lengur til útgreiðslu og skýrir það eflaust muninn amk. að verulegu leyti hjá flestum.

Sjálfsagt er að fara vandlega yfir álagningarseðla og leita upplýsinga hjá Skattstofunni ef vera kynni að einhverjar villur hafi komið fram við skráningu kostnaðar eða upplýsinga um eftirstöðvar áhvílandi lána.  

(skrifað 29.júlí 2013)

Framkvæmdastjóri